top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

Gran Turismo 7 State of Play - Upplýsinga Sprengja!

Þegar þessi færsla fer í loftið er nýjasta State of Play viðburði Sony/PlayStation nýlokið. Ef þú misstir af því, þá geturðu horft á það HÉR, og ég mæli hiklaust með því að þú gerir það og heimsækir svo þessa grein aftur.


Sony sendir út State of Play nokkrum sinnum á ári og sýnir þá jafnan frá leikjum sem eru í pípunum og bera tíðindi af spennandi hlutum sem eru að gerast í PlayStation heiminum. Oftast eru þessir viðburðir samansafn af hinu og þessu, en endrum og eins eru State of Play tileinkuð einum titli. Sú var raunin í kvöld, þar sem Gran Turismo 7 var eina umfjöllunarefnið.

Það er óhætt að segja að grafík hafi tekið miklum stakkaskiptum á þeim 25 árum sem Gran Turismo hefur verið till

Árið 2022 markar 25 ára afmæli Gran Turismo seríunnar, og er hún því orðin kvart-aldar gömul! Fyrsti leikurinn kom út árið 1997 og olli miklu fjaðrafoki, á góðan hátt, en Gran Turismo er oft kallaður "The granddaddy of simracing", og er fyrsta minning ansi margra á þeim vettvangi. Næsti kafli í Gran Turismo seríunni er nú rétt handan við hornið, en Gran Turismo 7 lendir eftir u.þ.b. mánuð, þann 4. mars.

Heimaskjárinn, þar sem þú "ferðast" um heim Gran Turismo 7

Undirritaður telst líklega einn mesti Gran Turismo nörd landsins, og þó víðar væri leitað. Það er því óhætt að segja að það vakti mikla lukku þegar Sena bauð mér að vera "viðstaddur" online fjölmiðla viðburð fyrir leikinn, þar sem við fengum að horfa á State of Play á undan áætlun, ásamt "Press Briefing" frá Kazunori Yamauchi (Kaz) sjálfum, manninum á bakvið Gran Turismo leikina. Eðlilega voru allar upplýsingar sem komu fram undir embargo þar til núna kl. 22:30, og það hefur verið erfitt að þaga! En í stað þess að skrifa bara um allt sem kom fram, sem við erum öll búin að horfa á nú þegar, þá ætla ég frekar að taka fyrir eitt og eitt viðfangsefni og velta fram mínum pælingum og athugunum.


PS4 / PS5 - Hver er munurinn?

Það kemur ekki beint á óvart, en það var fyrst staðfest núna, að PS5 útgáfa leiksins verði með "Performance" og "Raytracing" mode. Það er orðið nokkuð algent í dag að leikir bjóði spilaranum upp á val um það hvort leikurinn fókusi á rammafjölda eða grafík, og GT7 er þar engin undantekning. Það síðarnefnda nýtir Raytracing til þess að bæta gæði lýsingar og endurspeglunar, en á kostnað rammafjölda. Þetta á þó bara við um replays, photomode og þess háttar þar sem spilari er ekki að keyra bílinn. Performance mode-ið sleppir Raytracing og því hægt að horfa á replays með hærri rammafjölda, að öllum líkindum 60fps. Miðað við þessar upplýsingar þá hefur það engin áhrif á það þegar maður keyrir, þar sem viðmiðið er að viðhalda 60 römmum á sekúndu, og upplausnin ætti að vera 4K, óháð því hvort mode þú velur.


En fíllinn í herberginu er hvernig leikurinn mun líta út og spilast á PS4/PS4 Pro. Það eru ansi margir sem ekki hafa náð sér í eintak af PS5 ennþá og eru eðlilega forvitnir um það hvernig upplifunin verður á PS4. Það var ekki minnst einu orði á það í öllu þessu upplýsingaflæði sem var hellt yfir okkur í kvöld, en hingað til hefur allt útgefið efni úr leiknum verið tekið úr PS5 útgáfu leiksins. Kaz hefur þó minnst á það í eldra viðtali að leikurinn skalist mjög vel og að PS4 notendur muni ekki fara á mis við neina fídusa, en það hefur ekki farið farið neitt nánar út í það.


Það verður auðvitað munur á leikjunum, það segir sér sjálft. PS5 er mun öflugri græja sem leikurinn mun klárlega nýta. Upplausnin á PS4 verður lægri, líklega 1080p á standard PS4 og 3200x1800 á PS4 Pro, en það eru upplausnirnar sem GT Sport keyrir á í dag. PS5 verður verður "true" 4K, s.s. 3840x2160. PD hafa alltaf lagt áherslu á að viðhalda 60 römmum á sekúndu og eflaust verður það raunin líka á PS4, en Það verður forvitnilegt að sjá hvernig leikurinn skalast, og hvaða leiðir verði farnar til þess. En ætli það sé ekki raunhæft að búast við svipaðri upplifun og í Gran Turismo Sport, sem er nú ekkert til að kvarta yfir.


Ef þú ert á PS4 ennþá, þá gæti verið sterkur leikur að kaupa 25 ára afmælisútgáfuna. Hún er aðeins dýrari, en þú hefur þá aðgang að bæði PS4 og PS5 útgáfu leiksins, ásamt því að fá smá aur til að nota í leiknum og nokkra bíla í bílskúrinn. Einnig má búast við því að hægt verði að kaupa uppfærslu úr PS4 í PS5 gegn vægu gjaldi, þannig það þarf ekki að örvænta.


Bílakaup

Í leiknum hefurðu þrjá staði til þess að eyða vel verðskulduðum aurum þínum í bíla, en á útgáfudegi verða í boði yfir 400 bílar frá meira en 50 framleiðendum. Í "Brand Central" kaupirðu nýja bíla, beint úr kassanum með núll kílómetrum á mælinum, árgerðir 2001 eða nýrri. Það þarf svo sem ekki að fara fleiri orðum um það, en þetta þekkjum við vel úr GT Sport. Það eru hinir tveir staðirnir sem eru meira spennandi.


"Used Car Dealership" snýr aftur, en þar geturðu nælt þér í hina ýmsu bíla, bæði eldri og yngri, notaða á lægra verði. Verðin fara eftir keyrslu, þannig bílar með lágri kílómetratölu verða dýrari en þeir sem eru mikið keyrðir. Úrvalið af notuðum bílum verður breytilegt og mun listinn uppfærast að hluta til á hverjum degi. Svo er það spurning hvort úrvalið sé handahófskennt, eða global, s.s. sama úrval fyrir alla spilara á hverjum tíma.


Það var eitt sem vakti athygli mína, að það er hægt að setja notaða bíla á "Wish List". Það er óhætt að gera ráð fyrir að þetta sé til þess að t.d. merkja bíl sem þú hefur kannski ekki efni á, þannig þú fáir tilkynningu þegar hann lendir aftur á notaða markaðnum.

Þriðji og síðasti staðurinn er Brighton Antiques, en þar geturðu gripið í sögufræga og fágæta bíla. Nákvæmlega hvernig það fer fram, hvort úrvalið sé eitthvað breytilegt eða hvort maður "unlocki" bíla þar eftir því sem maður spilar meira, er óvitað ennþá.


Það hefur alltaf verið hluti af sjarmanum við Gran Turismo að byrja á núllinu, þar sem þú kaupir þér ódýran notaðan bíl og hefur kappakstursferilinn. Fyrstu aurarnir sem þú vinnur þér inn fara jafnan í að kaupa uppfærslur fyrir bílinn til að gera hann samkeppnishæfari, og svo heldurðu áfram að safna pening til að kaupa bíla, ásamt því að vinna þér inn verðlaunabíla fyrir t.d. license testin o.fl.


Í GT Sport var hægt að stytta sér leið og kaupa staka bíla fyrir raunheima peninga, en þó "bara" bíla upp að verðmæti 10.000.000 Cr. Í Gran Turismo 7 tók ég eftir að það er möguleiki á að "Top Up" Gran Turismo veskið í gegnum PlayStation Store, sem þýðir að það verður hægt að kaupa sér gjaldmiðil leiksins, í stað þess að versla bílana beint eins og í GTS. Ef maður er duglegur að strauja krítina er því líklegast vel hægt að gerast milljónamæringur á skotstundu, en undirritaður mælir ekki með því, ef fólk vill njóta hinnar einu sönnu Gran Turismo upplifunar.


Brautir

Staðsetningar brauta verða 34 talsins, með yfir 90 mögulegum útfærslum. Eins og sést á skjáskotinu hér að neðan, þá skiptast staðsetningarnar þannig að 10 eru í Ameríku, 15 í Evrópu og 9 í Asíu og Eyjaálfu. Í því myndefni sem við sáum komu þó ekki allar brautirnar fram, en maður virðist aflæsa brautum jafnt og þétt eftir því sem maður spilar leikinn, rétt eins og í GT Sport. En eftir smá rannsóknarvinnu tel ég mig vera kominn með brautarlistann, fyrir utan eina braut í Evrópu. Ég merkti í lit þær brautir sem eru "nýjar", s.s. sem voru ekki í GT Sport:

ASIA/OCEANIA - 9

EUROPE - 15

AMERICAS - 10

Autopolis

Brands Hatch

Blue Moon Bay

Kyoto Driving Park

Goodwood

Laguna Seca

Suzuka

Alsace

Trial Mountain

Fuji Speedway

Lago Maggiore

Willow Springs

Tsukuba

Nürburgring

North Isle Speedway

Tokyo

Deep Forest

Daytona

High Speed Ring

Monza

Interlagos

Broad Bean Raceway

Sardegna

Colorado Springs

Mount Panorama

Red Bull Ring

Fishermans Ranch

Dragon Trail

Special Stage Route X

Barcelona-Catalunya

Circuit de la Sarthe

Circuit de Sainte-Croix

Spa-Francorchamps

????

Ég einfaldlega fyllti í eyðurnar með brautum sem eru í GT Sport, því það er búist við því að allar brautir og bílar úr honum haldi áfram í GT7, og það passar líka við fjölda brauta í hverjum heimshluta. En það vantar þá á listann eina braut í viðbót í Evrópu. Mögulega er það gamla góða Apricot Hill, en það hafa sést nokkuð sannfærandi vísbendingar um að hún gæti verið í leiknum, en við munum vita það fyrir víst í síðasta lagi 4. mars. Þó grunar mig að þessi síðasta braut muni skjóta upp kollinum á næstunni og er mjög forvitinn að vita hvaða braut það verður, því það verður 100% ekki braut sem var í GT Sport.

Hér má sjá skiptingu brauta milli heimshluta

Með þessari leyndardómsfullu óþekktu braut eru því aðeins 5 brautir sem ekki voru í GT Sport. Persónulega hefði ég gjarnan viljað sjá fleiri, en það munu bætast við fleiri brautir og bílar með reglulegum uppfærslum, rétt eins og í GT Sport.


GT Café - Bílasöfnun og fróðleikur

Að undanskildum GT Sport, þá hefur alltaf verið lögð mikil áhersla á að safna bílum í Gran Turismo leikjunum. GT7 snýr aftur í þessar rætur og tekur það skrefinu lengra með GT Café. Hér fær maður "matseðla" af bílum sem maður á að eignast, og fær fyrir vikið einhver verðlaun, t.d. nýja braut og/eða bílarúllettu miða, sem ég geri ráð fyrir að sé eitthvað svipað og daglegi hringsnúningurinn í GT Sport. Það var athyglisvert að sjá á þessum rúllettumiðum, að þeir voru með sjörnu rating, sem virtist vera frá 1-6 stjörnum. Líklega gefur þetta til kynna hversu verðmæta bíla maður á möguleika á að fá, en það er svo sem bara ágiskun á þessum tímapunkti.

Kósý stemning á kaffihúsi Gran Turismo heimsins

Það eru yfir 30 matseðlar fyrir mann að klára í leiknum í GT Café, og í gegnum það ferli fær maður alls kyns fróðleik um þá bíla sem safnað er, og í einhverjum tilvikum heyrir maður frá þeim sem hönnuðu bílana. Fyrir okkur með söfnunaráráttuna, þá er þetta mjög spennandi.


Breytilegur tími og veður

Það hefur verið lengi vitað að breytilegt veður og tími dags snúi aftur í GT7. Við fengum að sjá fleiri dæmi þess, m.a. hraðspólað video af Tsukuba þar sem hún fer frá þurru yfir í blautt, og svo þurrt aftur. Pollar myndast og ég sá m.a. klippu þar sem Gr.2 bíll keyrir í poll og maður sér augljóslega hvernig bíllinn kippist til. Aksturslínan verður þurrari, og allt leit þetta gífurlega vel út. Poliphony Digital hafa farið ansi langt með veðurkerfið og mikil vinna lögð það. Það er simulate-að m.v. svæðið þar sem brautin er staðsett og m.a. loftþrýstingur, rakastig o.fl. tekið inn í reikninginn. Brautir eins og Nordschleife geta verið að hluta til þurrar, en rigning að hluta, enda teygir brautin sig ansi langt. Veður radar verður sjáanlegur sem getur hjálpað manni að reyna að spá fyrir um veðrið, mjög skemmtileg nýjung.

Þarna má sjá veður radarinn, neðst hægra megin

Það er þó eitt sem ég hefði viljað breytingu á, en það er grafíkin sem sýnir manni nákvæmt vætustig þar sem maður er staðsettur á brautinni hverju sinni (vinstra megin við dekkjastöðu á skjáskotinu að ofan). Þessi tala breytist í rauntíma og hækkar/lækkar eftir því hvar maður er, lækkar t.d. ef maður er á aksturslínunni sem er mögulega aðeins þurrari en aðrir hlutar brautarinnar. Þetta gæti orðið til þess að of auðvelt verði að taka ákvörðun um það hvenær skal pitta fyrir dekk.


Aftur á móti þá vitum við ekki hversu breytilegt veðrið er, en miðað við að við séum með veður radar til þess að reyna að spá í veðrið fram í tímann, þá eru nú líkur á því að þetta verði ekki svona svarthvítt. Einnig er ég forvitinn að sjá þær stillingar sem verða í boði fyrir veður og tíma.


En það eitt er víst að þetta mun hleypa miklu lífi í keppnir hjá okkur þar sem veðrið getur verið mikill óvissuþáttur. Það er alveg klárt að keppendur munu þurfa að setja upp veðurgleraugun fyrir 2022-23 keppnistímabilið hjá okkur í GTS Iceland!


Tuning & PP Kerfi / Enginn N-Class / Gr. Flokkar áfram

Það voru ansi margir óhressir með tuning möguleikana í GT Sport, vel skiljanlega. Í stað þess að kaupa hina og þessa parta fyrir bílinn eins og í öllum öðrum Gran Turismo leikjum, þá er einfaldlega bara "Power" og "Weight" stilling. GT7 virðist ætla að bjóða upp á mjög umfangsmiklar breytingar, t.d. wide-body breytingu, alls kyns parta og uppfærslur, veltibúr, túrbínur o.fl. o.fl. Við fengum að sjá dæmi um breytta original VW Bjöllu, sem var orðin vel yfir 400 hestöfl, með þykkari dekkjum og wide-body breytingu, og hún át upp malbikið!


Partar/breytingar eru flokkaðar í 5 flokka, allt frá "Sports" upp í "Extreme", en við höfum enn ekki séð hvað er í boði undir "Extreme". Ef þetta er vísir af því sem koma skal, þá verða möguleikarnir nánast ótakmarkaðir og hægt að útbúa race-ready útgáfur af hinum ýmsu bílum.

Samhliða tuning, þá snýr einnig Performance Point (PP) kerfið aftur, en í uppfærðri mynd. Í Gran Turismo 5 og 6 var PP kerfi til staðar sem var til þess að meta getu bíla. Formúlan þar að baki var tiltölulega einföld og voru einhverjir útreikningar m.v. afl, þyngd og grip dekkja. Í GT7 er þetta kerfi orðið mun háþróaðara, en þegar þú gerir breytingu á bílnum þínum geturðu "mælt" hann, en þá keyrir leikurinn í gegn simulation sem gefur þér upp lokatölu. Þetta á að vera mun fullkomnara kerfi en áður var með enn fleiri breytum, og ætti að bjóða upp á jafnan kappakstur á hinum ýmsu bílum. Í stað N-class bíla er nú miðað við PP kerfið, og þá t.d. hægt að halda kappakstur með sambærilegum bílum m.v. PP tölu. Þetta mun gera þá Gr.X flokkinn úreltan og bílana sem áður féllu í þann flokk nytsamlegri. Við vitum þó að Gr.1/2/3 flokkarnir halda áfram, og eflaust Gr.B líka.


Það er þó eitt sem ég myndi gjarnan vilja sjá breytingu á, þó það virðist ólíklegt að úr verði, en það er meiri skiptingu á flokkum. T.d. eru fimm Group C bílar í GT Sport, en þeir eru allir BoP-aðir inn í Gr.1 flokkinn í stað þess að vera í eigin flokk, t.d. Gr.C. Það er eitthvað undarlegt við að sjá gömlu túrbótröllin frá áttunda og níunda áratugnum keyra samhliða nútíma LMP1 hybrid bílum og Vision GT concept bílum framtíðarinnar. Miðað við það myndefni sem hefur sést hingað til, þá bendir allt til þess að það sé áframhaldandi þróun að vera með færri flokka, og troða allskonar bílum í hvern flokk. Project Cars 2 gerir þetta t.d. mjög vel og voru margir flokkar sem innihéldu bíla sem eðlilegra var að keyrðu í sama race-i. Hvort þetta verði eitthvað breytt í GT7 kemur bráðlega í ljós.


Drag Race?

Sýnt var snögglega frá drag race-i, sem var hluti af "Mission Challenges" í leiknum. Ekkert var gefið upp um hvaða hlutverki drag racing gegni, eða hvort það sé yfir höfuð hluti af leiknum utan við þessi missions. Persónulega finnst mér nú líklegt að þetta verði í boði sem sér game mode, eða mögulega sem uppsetning á lobby. Uppi vinstra megin er sér grafík fyrir þetta og það væri undarlegt að græja þetta en hafa það aðeins í mýflugumynd í Mission Challenges.

Það gæti til dæmis verið mjög skemmtilegt að fjölmenna á hinum og þessum bílum í spyrnu lobby og halda útsláttarkeppnir og eitthvað því um líkt. En eins og staðan er núna þá vitum við ekki meira, þannig við þurfum bara að bíða og sjá.


Hitt og þetta - Punktar og hugleiðingar

Að lokum ætla ég að lista niður nokkra punkta og loka hugleiðingar eftir allar þessar upplýsingar.

  • Það var lítið rætt um physics, en talað um að þeir fengju input frá m.a. Lewis Hamilton, Michelin og topp Gran Turismo World Tour ökumönnum. M.v. það efni sem sést hefur finnst mér persónulega eins og það séu framfarir á dekkjamodelinu og að bílarnir séu meira "grounded", séu í meiri tengingu við yfirborðið.

  • Í lista yfir framleiðendur rak ég augun í Radical, en þeir hafa ekki sést í Gran Turismo leik áður! Verður spennandi að sjá hvaða bíll/bílar verða í boði.

  • VR stuðningur kom ekki til tals, en það þarf ekki að koma á óvart. PS VR2 er ekki einu sinni komið með útgáfudag og það eina sem við vitum eru tæknilegar upplýsingar og að Horizon VR leikur er í vinnslu. Ég tel ennþá allar líkur á að GT7 verði með VR stuðning í PS5 útgáfunni þegar nýja græjan kemur út, en Kaz hefur haft það á orði að VR sé honum hugleikið.

  • Á einni tuning síðu tók ég eftir að nitro verður möguleiki í tuning, líklega hluti af "Extreme" hlutanum.

  • Við fengum engar upplýsingar um lobby, annað en að þau eru auðvitað til staðar. Þetta eru upplýsingar sem mörg okkar bíðum spennt eftir að heyra um, enda keyrum við deildarkeppnirnar í lobby. Ég keyrði aldrei í lobby í GT5 og GT6, en þeir leikir voru víst með talsvert fullkomnara lobby systemi en GT Sport þegar kemur að hinum ýmsu stillingum. GT7 er að horfa mikið aftur til eldri leikjanna, þannig vonandi fáum við úrbætur á lobbies.

  • Einu nýju GT3/GTE bílarnir sem sést hafa ennþá er Ford GT GTE bíllinn og Audi LMS EVO GT3. Vonandi verða einhverjir fleiri sem er haldið bakvið tjöldin eins og er, því úrvalið í GT Sport hefði gott af smá uppfærslu.

  • Það er staðfest, og var í raun alveg vitað, að leikurinn mun fá reglulegar uppfærslur þar sem nýir bílar og brautir bætast við. Miðað við að leikurinn kemur út svo snemma árs, þá eru góðir 7 mánuðir frá útgáfu og þangað til við hefjum 2022-23 keppnistímabilið í Gran Turismo 7. Það er því von á að góður skammtur af bílum, og vonandi brautum, hafi bæst við á þessum tíma.

  • Það var ekkert snert á AI, og hefur samasem ekkert verið rætt um það yfir höfuð. Kaz var spurður út í það í einu viðtali fyrir nokkru síðan og sagði að einhverjar úrbætur væru þar, en ekkert farið nánar út í það. Þar sem GT7 er með meiri fókus á single player campaign, þá er mikilvægt að tölvan kunni að keyra þokkalega hratt, sem er ekki beint raunin í GT Sport, fyrir flesta. Vonandi getur tölvan sett samkeppnishæfa hringtíma í GT7!

  • Music Replay og Music Rally eru nýjungar sem voru kynntar til leiks. Fyrrnefnt er einfaldlega replay sem spilast í takt við tónlist, hress og skemmtileg leið til að endurhorfa á glæsilegan akstur þinn! Í Music Rally keyrirðu "í takt" við tónlist og reynir að ná ákveðnum markmiðum, væntanlega einhver verðlaun í boði þar, bílar eða aurar.

  • FIA var hvergi sjáanlegt sem partner, en það er talið líklegt að FIA samningurinn hafi runnið út í lok árs 2021.

  • Það var Q&A session með meistara Kaz í kjölfarið á þessu media briefing, en við á litla Íslandi fengum ekki úthlutað plássi í það, því miður. Það hefði vissulega verið gaman að fá áheyrn hjá karlinum, en það má því búast við fullt af auka upplýsingum hér og þar á vefnum frá miðlum sem hafa komist í spjall við Kaz. Eflaust er eitthvað búið að birtast nú þegar þar sem embargo-ið er ekki lengur í gildi. Þannig hafið augun opin.

Fyrir löngu talaði Kaz um að sýn hans á Gran Turismo 7 væri að blanda saman því besta úr fortíðinni, nútíðinni og framtíðinni. Það virðist svo sannarlega ætla að takast hjá honum, en GT7 lítur virkilega vel út og endurheimtir þann sjarma sem Gran Turismo leikirnir eru þekktir fyrir. Eins góður og GT Sport er, þá er hann jú algjörlega fókuseraður á fjölspilun, en GT7 virðist ætla að negla bæði offline og online spilunina og ættu því allir að finna sér eitthvað við hæfi.


Nú er ekki nema rétt mánuður í að við fáum leikinn í hendurnar og biðin því senn á enda. Við eigum eflaust von á að sjá og heyra meira á þessum mánuði í aðdraganda útgáfu og markaðsherferðin pottþétt við það að hrökkva í gang.


Að lokum er hér að neðan smá skammtur af skjáskotum sem við fengum frá Sony.



134 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page