top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

11. Umferð: Úrslit - Umfjöllun - Myndir

Updated: Feb 14, 2020

Í gærkvöldi, 12. febrúar, fór 11. umferð GTS Iceland fram og var kappakstursveislan að venju í boði styrktaraðila deildarinnar, AutoCenter og Tasty. Keppnisbraut umferðarinnar var WeatherTech Raceway Laguna Seca. Upphaflega stóð til að keyra aðra braut í 11. umferð, en Laguna Seca var bætt í leikinn í uppfærslu í desember og það var einróma samþykki keppenda um að koma henni inn á keppnisdagatalið.


ATH: Hlekkir á myndaalbúm úr keppnunum eru neðst í færslunni.


TIER 2

Ballið byrjaði með Tier 2, en þetta var 2. umferð Vortímabils Tier 2 deildarinnar. Bíll umferðarinnar var Honda NSX Gr.4 og keyrðir voru 19. hringir. 7 keppendur mættu til leiks og var keppnin hörku spennandi. Keppninni var streymt og lýst í beinni útsendingu, en hægt er að horfa á upptökuna HÉR.


Eva (Nasty_Supergirl) setti strax tóninn í tímatöku og tók ráspól með miklu öryggi, en það munaði 1.6 sekúndu á henni og Hlyn (MrPakkinn) í 2. sæti. Vilhjálmur (Villiturbo), einn af stofnmeðlimum GTS Iceland, var mættur eftir nokkra fjarveru og náði sér í 3. sæti í tímatökum. Einn nýr keppandi tók þátt í sinni fyrstu GTS Iceland keppni þetta kvöldið, en það var hann Jónas Þór (MaLLi) og nældi hann sér í 5. sætið í tímatökum.


Það var þónokkur barátta gegnumgangandi hér og þar mestalla keppnina, en þó ekki um sigurinn. Eva keyrði af miklu öryggi og á leyfturhraða og einfaldlega stakk af. Engin mistök og tók sigurinn næstum hálfri mínútu á undan Hlyn í 2. sæti. Eva náði einnig hraðasta hring, þannig hún er handhafi Tasty verðlauna keppninnar og fær fyrir það máltíð fyrir tvo hjá Tasty!


Helsta barátta keppinnar var um 2.-4. sætið. Hlynur gerði smá mistök á fyrstu hringjunum sem varð til þess að hann féll úr 2. sæti niður í 4. sæti. Við það myndaðist mikil barátta milli Hlyns, Villa og Ásgeirs (SkeiriGB) um 2.-4. sætið. Á endanum náði Hlynur að endurheimta 2. sætið og skilja sig aðeins frá, en Ásgeir og Villi héldu áfram að slást. Þann slag sigraði Villi eftir að Ásgeir gerði mistök sem kostuðu hann þónokkurn tíma, og nær því Top 3 niðurstöðu í þessari endurkomukeppni sinni.


Í seinni hluta keppninnar myndaðist einnig mikil og hörð barátta um 5.-6. sætið milli Jónas og Gunnars (Gunzo1988). Jónas hafði verið í nokkuð þægilegri stöðu í 5. sætinu, en snéri svo bílnum illa í "Corkscrew" beygjunni margfrægu og tapaði við það miklum tíma og féll niður í 6. sæti. Hann náði hring eftir hring að smá saman saxa á bilið upp í Gunnar og þeir kumpánar börðust hart. Laguna Seca er mjög erfið braut til framúraksturs en Jónasi tókst þó að ná aftur 5. sætinu á endanum. Gosi (Gosi-) lenti fljótlega í slæmum mistökum sem kostuðu hann mjög mikinn tíma, og hann náði sér ekki á strik eftir það og endaði keppnina í 7. sæti.


Hér má sjá úrslit tímatöku og keppni í Tier 2, ásamt stöðunni í stigakeppninni eftir fyrstu tvær umferðir Vortímabilsins:


Áhugaverð staðreynd um þessa keppni er að þrátt fyrir mikla baráttu hér og þar á brautinni, þá enduðu allir keppendur á sama stað og þeir ræstu. Þannig þegar uppi var staðið þá náði enginn að vinna sæti, en á móti þá tapaði enginn sæti!


Fyrstu umferð Vortímabilsins sigraði Hlynur með fullu húsi stiga, en Eva lék þann leik í þetta skipti og eru þau tvö því jöfn á toppnum með 46 stig hvort. Ásgeir vermir 3. sætið með 34 stig og Gosi það fjórða með 20 stig. Aðrir keppendur hafa aðeins tekið þátt í einni keppni sem stendur og er því ekki alveg marktækt svona snemma á tímabilinu, en staðan verður skýrari eftir því sem líður á.


TIER 1

Tier 1 tók við síðar um kvöldið, en kl. 21:45 fóru tímatökur af stað. Keyrt var í flokki Gr.3 keppnisbíla og keyrðir 42 hringir. Í fyrsta skipti í langan tíma náðist fullt grid, en allir 16 keppendur Tier 1 deildarinnar létu sjá sig í þessari keppni!


Tímatökurnar voru gífurlega jafnar, en frá 1. - 14. sæti munaði ekki nema 1.7 sekúndum. Það var þó Kári (KariS10_97) sem tók ráspól, fjórða skiptið í röð, Halli (halli000) tók 2. sætið og Hannes (Hanzo_GTs) það þriðja.


Keppnin fór vel af stað og komst hópurinn klakklaust í gegnum fyrstu beygjur. Kári náði að skilja sig aðeins frá og hélt forystunni nokkurn veginn alla keppnina, fyrir utan nokkra hringi eftir pitstop, en keppendur voru á mismunandi pipstop áætlunum. Einnig náði hann hraðasta hring í keppninni og er því handhafi Tasty verðlauna keppninnar í Tier 1. Fær hann að launum, rétt eins og Eva, máltíð fyrir tvo hjá Tasty, og auðvitað auka stig í stigakeppninni! Þetta er fimmta keppnin í röð þar sem Kári nær sér í fullt hús stiga og það er alveg greinilegt að það er ekkert gefið eftir á þeim bænum!


Jón Ægir (crackdup23), sem alla jafna má finna innan efstu 5 manna, var ekki í sínu besta formi þetta kvöldið. Hann og fagurblái Audi-inn ræstu í 12. sæti og enduðu í 13. sæti, hring á eftir efstu mönnum, sem er sérlega óvanalegt að sjá. Sindri (Doxzie), sem hafði augastað og góðan möguleika á að næla sér í Top 5 í keppninni, missti það frá sér eftir slæman snúning í keppninni, en náði þó að taka 9. sætið á lokasprettinum. Mikið var um stöðubreytingar, en aðeins tveir ökumenn enduðu á sama stað og þeir ræstu, þeir Kári (1. sæti) og Þorsteinn (rabufans) (5. sæti).


Allir keppendur kusu að venju að keyra á mjúkum slikkum og taka þess í stað fleiri dekkjastop, en það virðist jafnan skila bestu niðurstöðum. Í þessari keppni skiptist hópurinn þar sem hluti keppenda tók aðeins lengri stint og tók 3 pitstop, á meðan aðrir stoppuðu 4 sinnum. Svo virtist sem að 3 stoppa áætlunin væri hagkvæmari þar sem tapaður tími í pitstoppi á þessari braut er umtalsverður.


Eitthvað var um mistök keppenda og einhverjir sem þurftu að taka auka þjónustuhlé til að sinna viðgerðum á bílum sínum eftir að hafa endað á vegg, með tilheyrandi tímatapi. Tveir keppendur luku ekki keppni, þeir Sævar Helgi (saevarhelgi) og Arnar Már (Addi_Smart).


Hér má sjá úrslit tímatöku og keppni í Tier 1, ásamt stöðu ökumanna og liða í stigakeppninni. Athugið að í lok tímabils gilda 15 bestu úrslit hvers og eins úr 19 keppnum, en hér er búið að draga frá tvær verstu keppnir hvers keppanda. Síðar á tímabilinu verða þessar tölur birtar með fjórum verstu keppnum frádregnum.



Ljóst er að Kári er að búa sér í haginn, en hann er kominn með mjög þægilega forystu í stigakeppni ökumanna, en 37 stig eru á milli hans og Hannesar í 2. sæti. Hannes og Halli halda áfram að slást um 2. sætið, en aðeins 12 stig aðskilja þá í 2. og 3. sæti. Baráttan um 4.-5. sætið hefur harðnað en Guffi (Guffaluff) náði að læða sér 1 stigi uppfyrir Jón Ægi og er því kominn í 4. sætið. Skúli (skuli1988), Jón Valdimars (GT--iceman) og Kjartan (kjassi) eru svo í slagnum um 6.-8. sætið.


Kristinn (KMW90), Valdimar (ValdimarMatt), Sindri og Bragi (Bragi_IS) eru sem stendur helstu keppendur sem eru að slást um að enda í 10. sæti eða ofar, en þeir keppendur sem enda í sætum 1-10 á tímabilinu eru með öruggan keppnisrétt í Tier 1 á næsta tímabili. Það er því til mikils að vinna. Sem stendur eru það Sindri og Bragi sem verma 11. og 12. sætið, en Valdimar hefur náð að mynda smá bil þar sem hann situr í 10. sæti með 66 stig, og Kristinn með 67 stig í 9. sæti. Miðað við gengi Þorsteins í sínum fyrstu tveimur Tier 1 keppnum, þá má alveg gera ráð fyrir því að hann nái að blanda sér í þessa baráttu eftir því sem líður á tímabilið, en hann er með 26 stig úr tveimur keppnum. Hvernig sem fer, þá er hann þó með öruggan keppnisrétt í Tier 1 á næsta tímabili þar sem hann sigraði Vetrartímabil Tier 2. Hann kom fyrr inn í Tier 1 sökum þess að annar keppandi hætti keppni.


Næsta umferð fer fram að tveimur vikum liðnum, miðvikudagskvöldið 26. febrúar, á Brands Hatch GP brautinni. Þar munu keppendur Tier 1 keyra á Gr. 3 bílum enn á ný, og Tier 2 keyra Renault Mégane Trophy 2011 (Gr.4).


Ég minni á að Tier 2 deildin er opin öllum, þannig ekki hika við að ganga til liðs við þetta frábæra samfélag og prófa að keyra með okkur. Einnig er umræðuhópurinn góður vettvangur til að finna fólk til að keyra með og taka þátt í öðrum "off-season" keppnum, nú eða bara til að "lurka" og fylgjast nánar með því sem er að gerast hjá okkur.


Við erum hér:


Myndir frá actioni vikunnar:

82 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page