top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

Seinni hálfleikur hefst í Tier 1 - Vetrartímabili Tier 2/Tier 3 lokið

Í vikunni fór fram 8. umferð GTS Iceland. Keppnirnar voru þær síðustu á árinu og marka lok Vetrartímabils 2020 í Tier 2 og Tier 3 deildunum, á meðan keppendur efstu deildar, Tier 1, halda áfram og hefja seinni hluta 2020-21 keppnistímabilsins sem lýkur í vor.


Keppnisbraut umferðarinnar var hin sögufræga Circuit de la Sarthe, en hún er oftast þekkt undir nafninu "Le Mans" og er vettvangur þess sem margir telja besta kappaksturs í heimi: 24 Hours of Le Mans í WEC mótaröðinni. Í anda þess voru keppnir Tier 2 og Tier 1 deildanna lengri en vant er og keyrt á svokölluðum LMP1 keppnisbílum. Keppendur í Tier 3 keyrðu á GT3 bílum í styttri keppni.


Nú eru svo keppendahóparnir komnir á hreint fyrir Vortímabilið, en við skoðum það hér á eftir. Til að byrja með skulum við kíkja yfir keppnir vikunnar.


Tier 3 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR


Fyrir lokakeppni Tier 3 voru aðeins tveir keppendur sem áttu möguleika á að sigra deildina, en það voru þau Eva María og Dimmi Nikolov. Til að gulltryggja sér sigur á Vetrartímabilinu þurfti Eva að sigra og ná hraðasta hring, en miðað við gengi hennar þá voru líklega flestir að búast við því að það gengi eftir.


Eva var þó ekki á ráspól í þetta skiptið, en keppnisfyrirkomulagið í lokakeppninni var þannig að keppendur sem mættu til leiks voru ræstir út frá stöðu stigakeppninnar. Því var það Dimmi sem ræsti fremstur, Eva önnur og Ævar Valur þriðji.


Þegar keppni hófst voru það Dimmi og Eva sem skildu sig strax frá restinni. Snemma í keppninni tók Eva framúr Dimma eftir að hafa hangið í kjölsoginu til að byrja með, og þá var ekki aftur snúið. Hún keyrði til sigurs og náði hraðasta hring. Dimmi endaði í 2. sæti og Axel Sigurðsson nældi sér í 3. sætið, og þar með sína fyrstu keppni á verðlaunapalli. Virkilega vel gert.

Eva nýkomin framúr Dimma, en hún sigldi örugglega til sigurs í vikunni

Hér eru heildarúrslit og lokastaðan á Vetrartímabili 2020 í Tier 3:


Eins og sjá má þegar allt er tekið til, þá er það Eva sem endar sem meistari Vetrartímabils Tier 3 deildarinnar 2020! Við óskum henni innilega til hamingju með árangurinn, en hún kom inn í 5. keppni og sigraði allar keppnir sem hún tók þátt í. Dimmi endaði í 2. sæti á tímabilinu, 1 stigi á eftir Evu, og Ævar Valur þriðji. Þau þrjú tryggðu sér því keppnisrétt í Tier 2 á komandi keppnistímabili. Það kom þó síðar í ljós að fleiri keppendur myndu færast á milli deilda, en meira um það á eftir.


Samtals tóku 24 keppendur þátt í Tier 3 á Vetrartímabili. Aðeins þrír aðilar nældu í sigur á tímabilinu, þau Eva, Adélio og Ingvar, en 8 mismunandi keppendur náðu á verðlaunapall.


Líflegt og skemmtilegt tímabil er að baki í Tier 3 og verður gaman að fylgjast með Vortímabili 2021 sem hefst í janúar. Vonandi heldur hópurinn áfram að stækka og dafna sem áður og við hvetjum alla áhugasama til þess að prófa að keyra með hópnum.


Tier 2 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR


Þá vindum við okkur yfir í Tier 2. Aðeins 10 keppendur tóku þátt í lokakeppni tímabilsins, en hún var eilítið öðruvísi en keppnirnar á undan. Keyrt var í 1klst og á LMP1 keppnisbílum, sem eru talsvert mikið hraðari en GT3 bílarnir sem keyrðir hafa verið hingað til á tímabilinu.


Eins og áður hefur komið fram þá var hann Óttar búinn að tryggja sér sigur á tímabilinu fyrir keppnina, en helsta spennan fyrir keppnina var í baráttunni um 3. sætið milli Birgirs og Arnars, og svo um sigur í liðakeppninni milli SS Racing (Ásgeir & Sævar) og Team TRB (Arnar og Ingi). Aðeins munaði 1 stigi á liðunum fyrir keppnina, SS Racing í hag.


Óttar hélt uppteknum hætti og náði ráspól í tímatöku með nokkrum yfirburðum og þótti vitanlega líklegur til þess að sigra keppnina. Hann og Ingi skiptust á að taka fram úr hvorum öðrum í gegnum fyrsta hringinn, en svo í síðustu beygju lenti Óttar aftan á Inga með þeim afleiðingum að Ingi endaði utan brautar. Óttar áttaði sig strax á mistökunum og beið eftir Inga til að gefa sætið aftur, en þetta varð til þess að þeir vermdu tvö neðstu sætin. Upp hófst því mikill slagur um að vinna sig aftur upp í gegnum hópinn.


Á meðan keyrði Ásgeir eins og herforingi og sigraði keppnina, en ekki mátti miklu muna að Óttar hefði náð að endurheimta fyrsta sætið, en hann var kominn í baksýnisspegla Ásgeirs þegar þeir kláruðu keppnina og endaði í 2. sæti þrátt fyrir allt sem á undan gekk. Arnar landaði 3. sætinu og liðsfélagi hans hann Ingi náði að vinna sig upp í 6. sætið eftir hamaganginn í byrjun.

Ásgeir keyrði Toyota TS050 Hybrid bíl sinn til sigurs í lokaumferð Vetrartímabilsins

Kíkjum nú á heildarúrslit keppninnar ásamt lokastöðu stigakeppninnar:

Eins og sjá má þá innsiglaði Ásgeir 2. sætinu með sigri í keppninni og hlýtur því silfrið. Þrátt fyrir að landa 3. sætinu þá dugði það ekki til fyrir Arnar, þar sem Birgir keppinautur hans lenti í 4. sæti, og það dugði honum til að halda 3. sætinu á tímabilinu.


Í liðakeppninni var það SS Racing sem hafði betur og endaði með 222 stig, 6 stigum á undan Team TRB. Það mátti ekki miklu muna og TRB menn eru staðráðnir í að mæta enn sterkari til leiks á Vortímabili.


Við óskum Óttari innilega til hamingju með sigurinn á Vetrartímabilinu! Einnig óskum við SS Racing til hamingju með sigur meðal keppnisliða og þeim Ásgeiri og Birgi með 2. og 3. sætið í einstaklingskeppninni.


Tier 1 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR


Ólíkt Tier 2/Tier 3 þá er ekkert uppgjör í Tier 1 að lokinni 8. umferð, þar sem tímabilið á þeim bænum er ekki einu sinni hálfnað. Það var þó hörku keppni framundan að vanda, en keyrt var í tvær klukkustundir. Keppnin er önnur af tveimur þolaksturskeppnum tímabilsins.


Tímatakan var virkilega jöfn. Frá 1.-6. sætis munaði ekki nema 0.8 sekúndum, sem er enginn tími þegar horft er til þess að hver hringur er tæplega þrjár og hálf mínúta. Halli nældi sér í ráspól, en hann ræsti á undan þeim Kára (2. sæti) og Hannesi (3. sæti).


Halli og Kári slógust svolítið til að byrja með, en fljótlega náði Kári framúr og ákvað að "check out". Það virtist enginn eiga roð í Kára þetta kvöldið og hann sigraði örugglega, 26 sekúndum á undan Halla í 2. sæti. Jón Ægir endaði í 3. sæti og var farinn að sækja hratt á Halla undir lokin, en tíminn vann ekki með honum í þetta skiptið.


Hér má sjá heilsarúrslit og stöðu leika að lokinni 8. umferð:

Sigur Kára á Le Mans var hans þriðji á tímabilinu og er hann búinn að mynda sér nokkuð þægilegt bil niður í næstu menn. Hannes er nú 21 stigi á eftir honum í 2. sæti, en Halli er svo ekki nema 3 stigum frá Hannesi í 3. sæti. Þetta eru kunnugleg nöfn í topp baráttunni, en síðasta tímabil endaði einmitt á þennan hátt, Kári > Hannes > Halli.


Í liðakeppninni hefur G&K Racing náð góðri forystu með 238 stig gegn 208 stigum Team AutoCenter, eftir góð liðs úrslit í síðustu þremur keppnum. Önnur 30 stig skilja svo að milli 2.-3. sætis þar sem TGR Iceland er með 178 stig, en BYKO Racing Team er ekki nema 15 stigum á eftir TGR í baráttunni um 3. sætið.


Hafa ber þó í huga að enn eru 9 keppnir eftir á tímabilinu og allt er galopið. Það er vafalaust mjög spennandi seinni hálfleikur í Tier 1 að fara að hefjast þegar við förum aftur af stað um miðjan Janúar!


Keppendahópar Tier 1 / Tier 2 eftir áramót

Milli Vetrar- og Vortímabils þá verða tilfærslur á milli deilda. Efstu þrír keppendur Tier 3 deildarinnar á Vetrartímabili færast upp í Tier 2 deildina, á meðan neðstu þrír keppendur Tier 2 falla úr Tier 2 og geta því keyrt í Tier 3 eftir áramót. Það voru þeir Vilhjálmur, Sigurður Ágúst og Stefán sem enduðu í neðstu þremur sætunum í Tier 2, en eins og kom fram að ofan þá eru það þau Eva, Dimmi og Ævar úr Tier 3 sem koma í þeirra stað. En tilfærslunum lauk ekki þar, því efstu tveir menn Vetrartímabilsins, Óttar og Ásgeir, hafa báðir ákveðið að taka sér hlé á Vortímabili og opnuðust því tvö pláss í viðbót í Tier 2.


Eftir að hafa leitað í gegnum stigatöflu Tier 3 deildarinnar þá voru það þeir Grétar Gunnarsson og Hilmar Veigar sem gripu gæsina og munu því keyra í Tier 2 á Vortímabili. Keppendalistann í heild sinni er hægt að sjá hér.


Fyrir nokkru var tilkynnt að hann Eyjó í Tier 1 væri hættur keppni, en ákveðið var að sigurvegari Vetrartímabils Tier 2 myndi koma bara beint yfir í Tier 1 eftir áramót. Þau plön gengu ekki eftir þar sem Óttar er kominn í pásu, en hann er engu síður með Tier 1 keppnisrétt fyrir 2021-22 tímabilið sem hefst næsta haust. Fyrir vikið hófst þá leit að keppanda til að fylla í eyðuna í Tier 1, en eftir að hafa leitað til allra keppenda Tier 2, ásamt efstu manna í Tier 3, þá hafði enginn hug á að færa sig yfir. Því var ákveðið að Tier 1 keppendahópurinn haldist óbreyttur og verða þá 13 keppendur skráðir það sem eftir lifir tímabilsins. Keppendalistann má sjá hér.


Sem fyrr verður Tier 3 deildin opin öllum sem ekki eru að keppa í hinum deildunum og því enginn fastur keppendalisti þar.


Næstu keppnisdagar

GTS Iceland er nú eins og margir landsmenn komin í jólafrí, en næstu keppnisdagar eru 12.-13. janúar. Keyrt verður á Nürburgring GP brautinni þar sem Tier 1 keppendur brúka SuperGT bíla, á meðan Tier 2 og Tier 3 keyra á GT3 bílum sem fyrr.


Fyrir hönd GTS Iceland óskum við ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og gleðilegs nýs keppnisárs!


Við erum hér:

165 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page