top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

Úrslit: 9. Umferð - Nürburgring GP

Í síðustu viku fór GTS Iceland af stað aftur eftir hátíðarfrí, en deildarkeppnin fór í mánaðar frí yfir hátíðarnar. Tier 2 og Tier 3 hófu Vortímabilið á þriðjudeginum 12. janúar, og Tier 1 kvöldið eftir, miðvikudaginn 13. Janúar. Keppnisbraut vikunnar var Nürburgring GP þar sem Tier 2/Tier 3 keyrðu GT3 bíla að venju, en keppendur í efstu deild fóru ögn hraðar um á SuperGT keppnisbílum.


Þessi færsla er seinna á ferðinni en vanalega og verður í styttra lagi í þetta skiptið, en við skulum koma okkur beint að kjarna málsins.


Tier 3 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR


Mæting fór framúr öllum vonum og voru 14 keppendur á ráslínu. Þó nokkuð var um nýja keppendur og fór keppnin mjög vel fram og akstur til fyrirmyndar. Hér eru úrslit fyrstu keppni Vortímabils í Tier 3 deildinni:

Ásgeir, sem var í topp baráttu í Tier 2 á Vetrartímabili lét óvænt sjá sig í Tier 3 keppni vikunnar, eftir að hafa ákveðið að taka sér hlé. Hann sýndi að þrátt fyrir æfingarleysi þá er hann enn í góðum gír og sigraði keppnina af ráspól.

Ásgeir ræsti fremstur og hélt forystu frá upphafi til enda

Keppendur Tier 3 deildarinnar þurfa þó ekki að örvænta, því Ásgeir hefur heldur betur ákveðið að hætta við pásuna og kemur inn í Tier 1 deildina frá og með næstu keppni.


Tier 2 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR


Tier 2 deildin fór af stað með látum og er von á gífurlega spennandi keppnistímabili. Eins og kom fram í síðustu færslu eru 6 lið skráð í liðakeppnina og deildin hefur aldrei verið jafn jöfn. Fyrsta keppni Vortímabils Tier 2 fór svona:

Eva tók sig til og nældi sér í "grand slam" í fyrstu keppninni, en hún ræsti af ráspól, leiddi hvern einasta hring keppninnar og náði hraðasta hring. Liðsfélagi hennar, Dimmi Nikolov, endaði í 3. sæti, og því varla hægt að biðja um betri úrslit fyrir liðið í fyrstu keppni Vortímabils.

Eva og Nissan GT-R bifreið hennar hafa lengi verið fastagestir á efstu þrepum verðlaunapallsins

Bræðurnir Ingi og Arnar í TRB Racing sýndu einnig flotta takta, en Ingi landaði öðru sæti og Arnar því fimmta. Það á eftir að vera virkilega gaman að fylgjast með tímabilinu og sjá alla þessa öflugu keppendur og lið slást fram á vor um hvert og eitt sæti á Vortímabilinu.


Tier 1 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR


Tier 1 sneri aftur á sjónvarpsskjáinn, en eins og þið mörg hver vitið þá er deildin sýndi í beinni útsendingu á Stöð 2 E-Sport, ásamt YouTube rás GTS Iceland. Framundan var hörku kappakstur að venju, en það var Halli hjá Team AutoCenter sem nældi sér í ráspól, en Kári Steinn hjá G&K Racing var skammt undan í 2. sæti. Guffi liðsfélagi hans ræsti í 3. sæti.


Keppnisplan spilaði stóra rullu í keppninni. Halli og Kári skildu sig fljótt frá restinni, en þeir voru á mismunandi keppnisplani. Halli kaus að taka aðeins eitt þjónustuhlé, á meðan Kári tók tvö, og var því á ferskari dekkjum stærri hluta keppninnar. Fram að fyrra stoppi Kára hélt Halli forystu, og virtust þeir tveir vera á mjög sambærilegum hraða. En fljótt kom í ljós að tveggja stoppa planið hentaði betur í þessari keppni og varð til þess að Kári tók sigurinn. Jón Ægir náði framúr Guffa fljótlega í keppninni og var í 3. sæti nánast alla keppnina, en eins og flestir var hann á 2 stoppa plani sem varð til þess að í næst síðasta hring hafði hann náð Halla og tók framúr honum. Jón endaði því í 2. sæti og Halli þurfti að gera gott úr 3. sætinu.

Kári tvinnaði saman hraða og góðu keppnisplani í 9. umferð, sem tryggði honum sinn fjórða sigur á tímabilinu

Skúli, liðsfélagi Halla hjá Team AutoCenter, nældi sér í hraðasta hring í keppninni, en þetta er í fyrsta skipti sem hann nær þeim áfanga. Fyrir vikið fær hann 1 stig til viðbótar ásamt gjafabréfi hjá Hafinu Fiskverslun.


Hér eru úrslitin og staða að lokinni 9. umferð:

Kári heldur áfram að bæta í og er í mjög góðri stöðu á toppnum að lokinni 9. umferð. Halli hefur náð fram úr Hannesi, en Hannes var ekki upp á sitt besta þessa vikuna. Staðan í liðakeppninni helst óbreytt.


Það sem er helst að frétta eftir keppnina er að Hlynur Már tilkynnti óvænt að hann ætli að draga sig frá keppni, en það er ástæðan fyrir því að hann er ekki lengur sjáanlegur á stigatöflunni. En það kemur maður í manns stað, því eins og fram kom hér að ofan, þá ætlar hann Ásgeir Snorrason að koma inn í Tier 1 deildina og safna sér reynslu á efsta stigi GTS Iceland. Hann sýndi það vel í Tier 2 deildinni á Vetrartímabili að hann hefur alla burði til að keyra í Tier 1 og er til alls líklegur.


Við þökkum Hlyn kærlega fyrir keppnirnar og vonumst til að sjá hann á braut með okkur aftur fyrr eða síðar, og á sama tíma óskum við Ásgeiri góðs gengis!


Í næstu viku fer fram næsta umferð, en keyrt verður á Brands Hatch GP brautinni og keyra allar deildir á GT3 bílum. Fylgist endilega með okkur á samfélagsmiðlum til að missa ekki af neinu!


Við erum hér:

120 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page