Síðustu tveir dagar voru keppnisdagar í GTS Iceland, en 7. umferð deildarkeppninnar fór fram dagana 1.-2. desember. Sögusviðið var í Ástralíu í þetta skiptið, en keppnisbraut umferðarinnar var Mount Panorama Motor Racing Circuit, sem er betur þekkt einfaldlega sem Bathurst. Allar deildir keyrðu ökutæki í Gr.3 flokki leiksins, en sá flokkur samsvarar GT3 flokki raunveruleikans.
Tæknileg vandamál héldu áfram að hrjá okkur eins og í síðustu umferð, en voru af öðrum toga. Í síðustu viku þurfti að færa til keppnir Tier 2 og Tier 3 vegna vandamála með vefþjóna Gran Turismo Sport, en í þetta skiptið voru einhverjir samskiptaörðuleikar milli PlayStation og YouTube á þriðjudagskvöldinu og því voru ekki útsendingar frá Tier 2/Tier 3.
Við skulum vinda okkur beint í mál málanna, úrslit og stöðu leika!
Tier 3 (um deildina)
Það var tiltölulega fámennt í Tier 3 þetta kvöldið, en níu keppendur voru á ráslínu þegar grænu ljósin loguðu. Það var lítið um sviftingar í keppninni, en nánast allir keppendur enduðu keppnina á sama stað og þeir ræstu. Eva María var söm við sig og ræsti af ráspól og sigraði keppnina með yfirburðum, ásamt því að ná hraðasta hring. 2. sætið fór til Dimma og Ævar endaði í 3. sæti.
Hér eru úrslit 7. umferðar og staðan í stigakeppninni:
Þar sem Adélio og Ingvar eru ekki að keppa þessa dagana, á hafa Dimmi og Eva tekið yfir efstu tvö sætin í stigakeppninni. Með sigri og hraðasta hring í næstu keppni þá getur Eva tryggt sér sigurinn á Vetrartímabili Tier 3 deildarinnar, þannig það verður spennandi að fylgjast með og sjá hvort Dimmi nái að stríða henni eitthvað á Le Mans í lokakeppninni.
Samkvæmt fyrirliggjandi reglum þá færast efstu þrír keppendur Tier 3 deildarinnar upp í Tier 2 fyrir Vortímabilið sem hefst í janúar, en gætu orðið fleiri ef einhverjir af núverandi Tier 2 keppendum dragi sig í hlé.
Tier 2 (um deildina)
Það var einnig fámennt í Tier 2 deildinni, en rétt eins og í Tier 3 voru 9 keppendur á ráslínu í 7. umferð. Veigar, Sigurður Ágúst og Vilhjálmur náðu ekki að vera með í kvöld, og svo lenti Ingólfur Bjartur í tæknilegum vandræðum og náði fyrir vikið ekki að vera með.
Miðað við það sem sést hafði á æfingum, þá komu úrslit tímatöku og keppni fáum á óvart. Óttar var í algjörum sérflokki enn eina ferðina og náði ráspól, heilum 1.4 sekúndum á undan Ásgeiri sem var með 2. besta tímann. Hann hélt uppteknum hætti og vann keppnina með miklum yfirburðum, um 20 sekúndum á undan Ásgeiri sem sigldi í mark örugglega í 2. sæti.
Baráttan um 3. sætið var heldur meiri, en þeir Arnar og Birgir voru að slást stóran hluta keppninnar. Á endanum var það Birgir sem hafði betur og endaði í 3. sæti.
Hér eru heildarúrslit og stigatafla að lokinni 7. umferð:
Það sem er helst til tíðinda að lokinni 7. umferð er það að Óttar er nú búinn að tryggja sér 1. sætið á Vetrartímabili Tier 2! Við óskum Óttari innilega til hamingju með árangurinn, en hann er vel að þessu kominn og hefur verið í sérflokki stærstan hluta tímabilsins.
Ásgeir er í góðri stöðu í 2. sætinu, og þó hann sé ekki tölfræðilega séð búinn að tryggja sér það fyrir lokakeppnina, þá er ólíklegt að Birgir nái því af honum. Það munar 14 stigum á þeim og miðað við þeirra gengi á tímabilinu verður að segjast að það sé hæpið að svo miklu muni muna á milli þeirra. En tölfræðin útilokar ekkert, og við ekki heldur.
Baráttan um 3. sætið er mjög spennandi og hvergi nærri lokið, en þar eru það Birgir (107 stig) og Arnar (103 stig) sem keppast um bronsið. Þeir hafa ófáu sinnum barist á brautinni í gegnum tímabilið og það stefnir því í spennandi lokakeppni.
Í liðakeppninni er það helst að frétta að SS Racing hefur tekið forystuna á ný, Team TRB er aðeins 1 stigi á eftir þeim fyrir lokakeppnina. Ef illa fer hjá efstu tveimur liðunum þá hafa Daníel og Birgir í Individual racing verið að sækja í sig veðrið og eru ekki mjög langt undan.
Áttunda og síðasta umferðin verður þriðjudagskvöldið 15. nóvember og verður með aðeins öðru sniði en vant er í Tier 2. Keyrt verður á Gr.1 bílum (LMP1) á Le Mans og er keppnin 1klst að lengd.
Tier 1 (um deildina)
- Horfðu á keppnina HÉR
Lokakeppni vikunnar var eins og vanalega Tier 1. Að undanskildum Sævari Helga, sem náði ekki að vera með þetta kvöldið, þá voru allir keppendur mættir til leiks.
Í tímatöku var það Hannes sem tók ráspólinn, sinn þriðja í röð, með frábærum tíma, tæplega 0.3 sekúndum á undan Kára í 2. sætinu. Þorsteinn náði 3. besta tíma. Keppnin fór áfallalaust af stað og framan af hélst röðin að mestu óbreytt. Hannes hélt forystunni en Kári pressaði ítrekað á hann en án árangurs, enda mjög erfitt að taka framúr á þessari braut. Eftir um það bil 20 mínútna akstur gerði Kári atlögu að Hannesi í næst síðustu beygju, en bremsaði of seint og fór með bílinn út fyrir braut sem varð til þess að hann sneri bílnum og datt niður í 5. sæti fyrir vikið. Hann náði þó að vinna sig aftur upp og endaði í 3. sæti, skammt undan Þorsteini sem landaði 2. sætinu, ásamt því að eiga hraðasta hring keppninnar. Hannes keyrði ótrauður áfram, en það er erfitt að segja að hann hafi verið með sigurinn öruggan því hann var gegnumgangandi annað hvort með Kára eða Þorstein í baksýnisspeglinum og kláraði keppnina aðeins 1.7 sekúndum á undan Þorsteini.
Hlynur Már átti góða keppni eftir slappa tímatöku, en hann ræsti í 11. sæti af 12 keppendun. En með jöfnum og góðum akstri á sínum trausta Nissan GT-R GT3 þá endaði hann í 6. sæti og vann sig því upp um 5 sæti í keppninni.
Hér eru úrslit gærkvöldsins ásamt stöðu í stigakeppninni:
Eins og áður hefur komið fram í umfjöllunum okkar þá gilda 14 keppnir af 17 til stiga í lok tímabils. Það er full snemmt að byrja að sýna stigatöfluna með þrjár verstu keppnir hvers og eins frádregnar, en þess í stað er taflan birt með verstu úrslitum hvers keppanda dregnum frá. Þetta gefur okkur aðeins réttari mynd af raunstöðu.
Eins og sjá má þá er Hannes búinn að sækja á Kára í baráttunni á toppnun og munar ekki nema 9 stigum á þeim. Þeir voru í titilbaráttunni á síðasta tímabili, þar sem Kári hafði betur á endanum, en það gæti stefnt í enn harðari baráttu á núverandi tímabili. Halli er heldur ekki langt undan, en hann er 9 stigum á eftir Hannesi. Efstu þrjú sætin eru því ansi kunnugleg, en þeir enduðu í þessari röð á síðasta tímabili.
Í liðakeppninni hefur G&K Racing (Guffi og Kári) aukið aðeins á forystu sína, en þeir náðu fínum úrslitum í vikunni (3. og 5. sæti). Toyota Gazoo Racing Iceland (Valdimar og Hannes) hafa nú hrifsað til sín þriðja sætið í liðakeppninni sem áður tilheyrði BYKO Racing Team (Jón Ægir og Jón Valdimars).
Næsta keppni er fyrri þolaksturskeppni tímabilsins, en keppendur munu tækla Le Mans í Gr.1 keppnisbílum og keyra í tvær klukkustundir. Þar mun því verða mikilvægt sem aldrei fyrr að halda einbeitingu og keyra af öryggi og mistakalaust.
Jólafrí framundan
Áttunda umferð GTS Iceland fer fram dagana 15. og 16. desember og markar eins og fyrr segir lok Vetrartímabils Tier 3 og Tier 2 deildana. Einnig förum við í mánaðar hátíðarfrí og snúum aftur um miðjan janúar.
Í millitíðinni er aldrei að vita nema það verði blásið til einhverra "off-season" keppna þannig endilega fylgist með okkur á Facebook til að missa ekki af neinu.
Comentarios