top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

Keppnisdagur 25. Mars: Úrslit-Umfjöllun-Myndir

Í gærkvöldi, miðvikudagskvöldið 25. mars, var keppnisdagur í GTS Iceland í boði Tasty og AutoCenter. Að venju voru tvær keppnir á dagskrá, í Tier 1 og Tier 2 deildunum og var keppnisbraut umferðarinnar hin ítalska Sardegna Road Track A. Brautin er hröð en varasöm, þar sem stutt er í veggi og vegrið, þannig það má lítið út af bera ef maður ætlar að komast heill að endamarki.


Tier 2

Vortímabilið er nú hálfnað, en það var 5. umferð af 10 á Vortímabili sem fór fram í gær. Keppnisbíll umferðarinnar var Porsche Cayman GT4 Clubsport '16 en Tier 2 keppnirnar eru ávallt "one-make" keppnir, þar sem allir keppendur nota sama bílinn. Keyrðir voru 13 hringir í þessari keppni.


Níu keppendur tóku þátt í 5. umferð og enn stækkar keppendahópurinn. Birgir Júlíusson (ThuggerG400) er nýjasti meðlimur hópsins og var að taka þátt í sinni fyrstu GTS Iceland keppni.


Það var kunnuglegur dúett sem var í efstu tveimur sætunum í tímatökunum, en það voru þau Eva og Hlynur. Eva hafði betur og tók ráspól, sinn fjórða í röð, en Hlynur var ekki langt undan þar sem aðeins ca. 0.1 sekúnda skildi þau að. Nýliðinn, Birgir, gerði sér lítið fyrir og setti þriðja besta tímann í tímatökunum.


Eins og oft áður þá voru Eva og Hlynur í nokkrum sérflokki, en það var Eva sem náði að krækja sér í sigur í þessari keppni. Einnig náði hún hraðasta hring og náði því fullkomnum úrslitum úr 5. umferð. Hlynur endaði í 2. sæti, u.þ.b. 10 sekúndum á eftir Evu, og hann Ásgeir, sem ræsti í 5. sæti, náði að vinna sig upp og landaði 3. sætinu í þessari keppni. Birgir stóð sig með sóma í sinni fyrstu keppni og endaði í 4. sæti, ekki langt undan Ásgeiri í 3. sætinu. Virkilega flottur árangur og við vonumst að sjálfsögðu til þess að sjá hann á braut aftur.


Hér eru úrslit og staðan í stigakeppni Tier 2 að lokinni 5. umferð. ATH að stigatöflunni ber að taka með fyrirvara, því að í lok keppnistímabils munu 8 af 10 keppnum gilda til stiga, og því verða dregin frá 2 verstu úrslit hvers og eins. Hér er ekki búið að draga neitt frá og erum við því ekki að horfa á alveg 100% rétta stöðu, en frá og með næstu umferð verða tölurnar sýndar með frádrætti.


Tier 1

Það var ögn meiri hraði í 14. umferð Tier 1 deildarinnar, en þar brunuðu keppendur um á keppnisbílum í Gr.1 flokknum. Sá flokkur samanstendur af LMP (Le Mans Prototypes) bílum frá ýmsum tímabilum. Keyrðir voru 40 hringir og 14 keppendur mættu til leiks þetta kvöldið, en þeir Ingimagn og Arnar Már sáu sér ekki fært að mæta í þessa keppni.


Tímatökurnar voru gífurlega jafnar enn á ný, en það var innan við 1 sekúnda sem skildi að 1. og 10. sætið. Það var hann Hannes sem nældi sér í ráspól, en Kári var þó ekki langt undan, aðeins 0.006 sekúndum á eftir. Skúli náði 3. besta tíma, aðra keppnina í röð, sem er hans besti árangur í tímatökum. Það kemur eflaust mörgum á óvart að þetta var fyrsti ráspóll Hannesar á tímabilinu, þrátt fyrir að vera í titilbaráttu!


Keppnin fór af stað með látum og eitthvað um óhöpp/mistök, nóg til þess að fimm keppendur þurftu að fara í ó-planað pitstop til þess að gera við skemmdir. Hannes aftur á móti keyrði óaðfinnanlega og leiddi hvern einasta hring, í viðbót við að ná hraðasta hring. Til að kóróna svo hin fullkomnu úrslit, þá endaði liðsfélagi hans í Yota-Hachi Racing Team, Valdimar, í 2. sæti, eftir að hafa ræst í 7. sæti. Þetta er í fyrsta skipti í GTS Iceland sem liðsfélagar landa 1-2 úrslitum. Fullt hús stiga fyrir Yota-Hachi, ekki hægt að biðja um meira. Einnig voru þetta fyrstu Top 3 úrslit Valdimars, þannig það verður eflaust fagnað grimmt í herbúðum Yota-Hachi!


Í 3. sæti endaði Kári, rétt á hælum Valdimars, aðeins 1 sekúndu á eftir, en fljótlega í keppninni gerði hann mistök sem olli skemmdum á bíl hans og þurfti að taka auka viðgerðarhlé sem hann tapaði miklum tíma á. Þar fóru því möguleikar hans á að gera atlögu að sigrinum.


Það stefndi þó ekki í þessi úrslit, því Guffi, sem ræsti í 13. sæti eftir slaka tímatöku, hafði unnið sig upp í 2. sætið og virtist ganga að því vísu að klára þar. En í kappakstri getur allt gerst og enginn er öruggur með neitt fyrr en síðasti hringur klárast. Þessu fékk Guffi að kynnast þegar hann keyrði utan í vegg, aðeins 5 hringjum frá því að klára keppnina í 2. sæti. Bíllinn skemmdist illa og tapaðist mikill tími við að gera við í pittinum. Við þetta missti hann Valdimar og Kára framúr sér og kom út úr pittinum í 4. sæti, þar sem hann endaði keppnina.


Skúli, sem var í miklu stuði og í góðum málum í 3. sæti, lenti í leiðinlegu óhappi seinnipart keppninnar. Sævar, sem var hring á eftir, var nýkominn úr pitt, en lendir í hliðinni á Skúla. Bíll Skúla tjónast mikið og þurfti hann að haltra heilan hring áður en hann komst í pittinn að gera við. Hann þurfti því að láta sér 5. sætið nægja sökum þess.


Hér eru úrslit 14. umferðar Tier 1 ásamt stigatöflu, en nú birtum við stigin að frádregnum 4 verstu úrslitum hvers keppanda. Í lok tímabils gilda 15 af 19 keppnum til stiga.


Við skulum skoða aðeins helstu breytingar á töflunni. Valdimar (91 stig) er nú búinn að færast nær baráttunni um 8. og 9. sætið, en þar eru Sindri (99 stig) og Kjartan (96 stig) að berjast. Eftir frábæran árangur í þessari keppni þá er spurning hvort Valli nái að fylgja því eftir í næstu keppni, en það er klárt að hann ætlar að slást við þá kumpána. Kristinn (82 stig) er enn í 11. sætinu, en þó hann hafi örlítið fjarlægst, þá er hann ekki mjög langt undan. Það verður áhugavert að fylgjast með þessum hóp kljást í næstu keppnum.


Í slagnum um 3.-5. sætið hafa orðið smá breytingar, að vísu ekki hvað sætin varðar, en stigamun á milli. Guffi hefur færst nær Halla en náð að skilja sig frekar frá Jóni Ægi. Fyrir þessa keppni var Halli 21 stigi á undan Guffa en nú er munurinn 11 stig, og Guffi var 11 stigum á undan Jóni Ægi en er nú 25 stigum á undan. Möguleikinn á að Guffi nái að gera atlögu að 3. sætinu er því enn vel raunhæfur möguleiki, en þó er nóg eftir ennþá, og einnig er Jón Ægir til alls líklegur.


Hannes hefur aðeins náð að saxa á bilið í Kára. Fyrir þessa keppni munaði á þeim 43 stig, en munar nú 31 stigi. Þó að staðan sé klárlega Kára í vil, þá er Hannes engan veginn á þeim buxunum að leyfa Kára að hlaupa í burtu með bikarinn og eftir fullkomin einstaklings- og liðsúrslit í þessari keppni er hann eflaust kominn í ham!


Næsti Keppnisdagur

Miðvikudaginn 8. apríl er næsti keppnisdagur GTS Iceland. Þá fer fram 15. umferð Tier 1 og 6. umferð Vortímabils Tier 2. Keppnisbrautin verður hin austuríska Red Bull Ring, en með smá flækju: Það verður úrhellisrigning!


Tier 2 munu keyra Mitsubishi Lancer Evolution Final Edition Gr.4 keppnisbíl, en Tier 1 þurfa að glíma við Super-Formula bílana, sem er hægara sagt en gert á rennblautri braut. Það verður því virkilega áhugavert að sjá hvernig næsta umferð fer og alveg á hreinu að eitthvað gæti orðið um skrautleg tilþrif. Blaut braut er alltaf mikill óvissuþáttur í kappakstri þannig við gætum séð úrslit sem við búumst ekki við, þannig endilega fylgist með!


Myndaalbúm


Við erum hér:

28 views0 comments

Comments


bottom of page