Í gærkvöldi, miðvikudagskvöldið 8. apríl, fóru fram hörku fjörugar keppni í GTS Iceland. Keppnisdagurinn var að vanda í boði styrktaraðila deildarinnar, AutoCenter og Tasty.
Keppnisbraut umferðarinnar var hin austuríska Red Bull Ring og var úrhellisrigning! Keppendur þurftu því að vera extra passasamir svo að ekki færi illa og verður að segjast að það hafi tekist mæta vel hjá flestum.
Tier 2
Tónninn var settur með Tier 2, en þar fór dagskráin af stað kl. 19:00. Þetta var 6. umferð af 10 á Vortímabili Tier 2 og var keppt á Mitsubishi Lancer Evo Gr.4 og farnir 18 hringir um Red Bull Ring. Lancerinn er fjórhjóladrifinn sem hentaði vel á rennblautri brautinni og gekk keppnin almennt vel fyrir sig. Þetta var einnig fjölmennasta Tier 2 keppnin hingað til, en 11 keppendur voru mættir á braut. Keppendahópurinn heldur áfram að stækka en það var enn einn nýr keppandi sem tók þátt í sinni fyrstu GTS Iceland keppni í kvöld, hann Hrannar. Einnig var Kristján að keyra sína fyrstu keppni í Tier 2, en hann tók þátt í tveimur Tier 1 keppnum á síðasta keppnistímabili.
Það var kunnuglegt nafn á ráspól, en hún Eva gerði sér lítið fyrir og setti besta tíma í sínum síðasta "hotlap" í tímatökunni. Þetta er í 5. skipti í 6 keppnum sem hún nær ráspól og er hennar fimmti í röð. Við erum orðin vön því að sjá Hlyn, helsta keppinaut Evu, í 2. sætinu, en hann náði sér ekki á strik í tímatökum og ræsti í 7. sæti. Það var hann Vilhjálmur sem náði 2. besta tímanum, og stefndi lengi vel í að hann myndi taka ráspól. Ásgeir nældi svo í 3. besta tímann.
Keppnin fór vel af stað. Villi náði framúr Evu í fyrsta hring og voru þau tvö, ásamt Birgi, í mikilli baráttu. Ásgeir, sem ræsti þriðji, gerði mistök í fyrsta hring og hrundi niður í 7. sætið og náði sér því miður ekki á strik í keppninni, en hann endaði í 7. sæti. Hlynur aftur á móti datt í gírinn í keppninni eftir slappa tímatöku og var fljótlega kominn í baráttuna um toppinn. Hlynur, Eva, Villi og Birgir voru lengi vel "bumper to bumper" og var barist gífurlega hart í bleytunni. Eftir nokkra baráttu hafði hópurinn siptst í tvennt, þar sem Eva og Hlynur slóust um 1. og 2. sætið, og Villi og Birgir um 3. og 4. sætið.
Hlynur pressaði hart á Evu, en varð á að bremsa of seint í beygju 3 seint í keppninni, sem varð til þess að hann endaði í mölinni og missti sjónar á Evu. Hann sigldi þó nokkuð öruggur í mark í 2. sæti. Í baráttunni um 3. og 4. sætið hafði Villi betur, en það munaði þó ekki nema rétt um hálfri sekúndu á þeim tveimur þannig þar var barist alveg út síðustu metrana.
Eva náði þó ekki að fara út úr þessari keppni með fullt hús stiga, því það var Hlynur sem setti hraðasta hring keppninnar. Hann nær sér því í aukastig og máltíð fyrir tvo hjá Tasty!
Hér má sjá úrslit gærkvöldsins, ásamt stöðu leika í stigakeppninni. Eins og oft hefur komið fram áður þá gilda í lok tímabilsins 8 bestu úrslit úr 10 umferðum, og nú er stigataflan birt með frádregnum tveimur verstu úrslitum hvers keppanda:
Nú sjáum við orðið réttari mynd af stigatöflunni og eins og sjá má, þá er Eva með 10 stiga forskot á Hlyn í 2. sætinu. Þau tvö hafa skilið sig svolítið frá hópnum og virðist nokkuð ljóst að þau keppist um titilinn. Ásgeir og Villi eru nokkuð jafnir í 3. og 4. sætinu.
Eins og sjá má hafa 16 keppendur tekið þátt í Tier 2 keppnum á Vortímabilinu, en mismikið vissulega. Ásgeir, Eva og Hlynur eru einu keppendurnir sem hafa tekið þátt í öllum 6 keppnum tímabilsins.
Keppni kvöldsins var streymt og lýst í beinni útsendingu á YouTube rás deildarinnar.
Tier 1
Það voru ögn hraðskreiðari farartæki á dagskránni hjá keppendum Tier 1 deildarinnar, en í 15. umferð þar var keyrt á Super-Formula bílum. Eitthvað var um forföll en 12 keppendur tóku þátt að þessu sinni. Bragi, Arnar, Ingimagn og Sævar gátu ekki verið með þetta kvöldið.
Tveir keppendur Tier 2, þeir Daníel og Birgir, tóku sig til og prófuðu að streama og lýsa Tier 1 keppni kvöldsins, þannig áhugasamir geta kíkt á keppnina.
Kári var í góðu stuði að vanda og náði sér í sinn níunda ráspól á tímabilinu. Jón Ægir, sem hefur ekki átt góðu gengi að fagna í síðustu fjórum keppnum, sýndi góða takta og átti 2. besta tímann í tímatökunni. Þriðja sætið í tímatökunum endaði í höndum Hannesar.
Í aðdraganda keppninnar höfðu keppendur margir hverjir áhyggjur af því sem koma skildi, en Super-Formula bílar og rennandi blaut keppnisbraut er ansi varasöm blanda. Sem betur fer fyrir keppendur þá reyndust þessar áhyggjur óþarfar því ekki varð eitt einasta óhapp milli keppenda í þessari keppni, sem verður að teljast ansi vel gert. Eiga allir ökumenn hrós skilið fyrir góðan og tillitssaman akstur!
Kári gerði sér lítið fyrir og leiddi keppnina frá fyrsta hring og út hinn síðasta, en hann átti einnig hraðasta hring í keppni. Að launum fær hann 1 aukastig ásamt því að Tasty gefa máltíð fyrir tvo fyrir hraðasta hring í keppni.
Jón Ægir og Hannes öttu kappi um 2. og 3. sætið, en þar hafði Jón betur. Það munaði þó ekki nema 0.7 sekúndum á þeim þegar á hólminn var komið, þannig það gat varla verið mikið tæpara.
Hér eru úrslit og staða eftir 15. umferð:
Það urðu engin sætaskipti í stigatöflunni eftir þessa umferð, allir eru í sama sæti og þeir voru fyrir þessa keppni, en stigamunur hefur breyst. Skoðum það aðeins nánar.
- Kári hefur bætt aðeins í forystuna. Fyrir þessa keppni munaði 31 stigi á honum og Hannesi, en munar nú 39.
- Guffi heldur áfram að draga á Halla. Fyrir keppni munaði 11 stigum en munar nú 7.
- Jón Ægir náði sér loksins á strik í þessari keppni og var sjálfum sér líkur. Hann hefur nú minnkað bilið í Guffa úr 25 stigum í 21 stig.
- Skúli virðist vera orðin áskrifandi af 5. sæti, en þetta er þriðja keppnin í röð sem hann endar í 5. sæti. Hann hefur aukið muninn milli hans og Jóns Valdimars. Munurinn var 6 stig en er nú 12 stig.
- Sindri, Kjartan og Valdimar eru nú nánast jafnir í 8.-10. sæti. Valli hefur sótt aðeins í sig veðrið og aukið bilið niður í 11. sæti þar sem Kristinn Már situr nú 15 stigum á eftir, en fyrir keppnina var munurinn 9 stig.
- Bragi, Ingimagn, Arnar og Sævar voru DNS (Did Not Start) og fara því stigalausir úr þessari umferð. Þorsteinn er nú aðeins 7 stigum frá Braga þegar 4 keppnir eru eftir af tímabilinu.
Það er ekki mikið eftir af þessu keppnistímabili og það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig stigataflan þróast.
Næsta keppni er að tveimur vikum liðnum, miðvikudagskvöldið 22. apríl, og er keppnisbrautin hin margslungna Willow Springs. Tier 1 keppendur keyra Gr.3 bíla á meðan Tier 2 keyra McLaren 650S Gr.4.
Opmerkingen