top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

Keppnisdagur 22. Apríl: Úrslit - Umfjöllun - Myndir

Þetta innlegg kemur aðeins seinna en vanalega, en betra er seint en aldrei. Umfjöllunarefnið er síðasta umferð í GTS Iceland, íslensku mótaröðinni í Gran Turismo Sport, sem er í boði Tasty og AutoCenter. Hlekkir á myndaalbúm og upptökur frá keppnunum eru neðst í færslunni.

Á dagskránni voru tvær keppnir eins og alltaf, annars vegar var það 16. umferð Tier 1 deildarinnar, og hinsvegar 7. umferð á Vortímabili Tier 2. Keppnisbraut kvöldsins var hin ameríska Willow Springs sem var smá breyting frá rennblautri Red Bull Ring sem keyrt var á tveimur vikum fyrr.

Tier 2

Kvöldið byrjaði með látum með fjölmennustu Tier 2 keppninni hingað til. Alls mættu þrettán keppendur til leiks í þetta skiptið og þar af voru fjórir keppendur að taka þátt í sinni fyrstu GTS Iceland keppni! Hópurinn heldur áfram að stækka jafnt og þétt og það er frábært að sjá áhugann aukast, enda stórgóð skemmtun að taka þátt. Nýir keppendur í þessari keppni voru:

- Hákon Halldórsson (Hakonyak)

- Arnar Tryggvason (Atry_71)

- Ingi Þór Tryggvason (MotorIngi)

- Sigurður Ágúst Hreggviðsson (Lexotanz)

Aldrei hafa jafn margir nýir keppendur verið á braut í einni keppni og við bjóðum þá kumpána velkomna í flottan og fjölbreyttan hóp keppenda!

Keppnisbíll 7. umferðar var McLaren 650S Gr.4 og keyrðir voru 22 hringir. Það var ansi kunnuglegt um að lítast í efstu sætunum í tímatökum, en Hlynur og Eva vermdu 1. og 2. sætið að vanda. Það var Hlynur sem hafði betur og náði ráspól, en ekki munaði nema 0.062 sek á milli þeirra. Ásgeir var svo ekki langt undan, en hann ræsti þriðji, aðeins 0.2 sek frá ráspól.

Keppnin fór vel af stað og allir komust heilir á húfi í gegnum fyrstu beygjur. Hlynur og Eva skildu sig fljótt frá og voru sem límd saman um það bil alla keppnina. Brautarstaða er mjög mikilvæg á Willow Springs, því erfitt og áhættusamt getur verið að taka framúr á brautinni. Hlynur náði framan af að halda Evu í skefjum, en gerði svo smá mistök sem urðu til þess að Eva komst í forystu. Það leit út fyrir að Eva myndi sigla þessu í mark, en á 20. hring gerði hún mistök, á sama stað og Hlynur fyrr í keppninni, og missti Hlyn aftur framúr sér. Hlynur keyrði örugglega til sigurs, en Eva gerði önnur mistök og missti á endanum Ásgeir framúr sér líka og endaði í 3. sæti. Eva náði þó hraðasta hring í keppninni og fær fyrir það 1 auka stig, ásamt máltíð fyrir tvo hjá Tasty!

Ásgeir og Hákon áttu í mikilli baráttu um þriðja sætið í fyrri part keppninnar, en mistök hjá Hákoni urðu til þess að hann féll niður listann og Ásgeir var því vel settur. Hann keyrði örugglega og sem fyrr segir þá náði hann í 2. sætið í lok keppni eftir mistök Evu.

Af nýliðunum var það Arnar sem endaði efst, en með öruggum og mistakalausum akstri vann hann sig upp úr áttunda sæti og vann sig upp í það fimmta. Virkilega vel gert. Hákon sýndi flotta takta en þurfti að sætta sig við áttunda sætið eftir mistökin. Ingi endaði í níunda sæti og Sigurður í því þrettánda. Að sjálfsögðu vonumst við til þess að sjá þá alla sem oftast á braut!

Keppninni var streymt og lýst í beinni á YouTube rás GTS Iceland.

Hér má sjá úrslit tímatöku og keppni í Tier 2, ásamt stigatöflunni að lokinni 7. umferð Vortímabils:

Hlynur hefur nú náð að minnka bilið í Evu í aðeins 6 stig þegar þrjár umferðir eru eftir. Það er því alveg á tæru að hér getur allt gerst. Þau hafa yfir tímabilið skipst á sigrum og þó tölfræðilega séð eigi fleiri möguleika, þá verður að segjast að það eru allar líkur á að annað hvort þeirra hreppi titilinn og þar af leiðandi öruggan keppnisrétt í Tier 1 á næsta tímabili, hafi viðkomandi áhuga.

Baráttan um 3. sætið er orðin ansi spennandi líka, en þar eru það Ásgeir og Villi sem eru að slást, en þar munar aðeins 4 stigum.

Tier 1

Nokkuð óvanalegt átti sér stað þetta kvöldið, en það voru færri keppendur sem mættu til leiks í Tier 1 en Tier 2. Slíkt hefur aldrei komið fyrir áður, en aðeins 11 keppendur tóku þátt. Keppt var á Gr.3 bílum og keyrðir 48 hringir.

Aldrei þessu vant þá tók undirritaður (Guffi) ekki þátt að þessu sinni sökum bilunar í stýri rétt fyrir keppni. Fyrir vikið gafst mér tækifæri á að streyma Tier 1 keppninni á sama hátt og Tier 2. Ég var ekki einn um það, en þeir félagar Daníel og Birgir, sem streymdu síðustu Tier 1 keppni, voru með mér í útsendingunni og gerðum við okkar besta til að lýsa því sem fyrir bar og sýna frá helsta actioninu. Upptöku af streyminu er hægt að sjá HÉR.

Skömmu fyrir keppni tilkynnti keppnisliðið Yota-Hachi Racing Team að liðið myndi nýta sér leyfð bílaskipti á tímabilinu fyrir keppnina og ákvað að leggja Toyota Supra bifreið sinni og taka inn í staðinn Toyota FT-1 Concept GT3 bíl sem Hannes og Valdimar keyrðu í keppninni. Þau skipti virtust vera vel tímasett m.v. úrslitin.

Í tímatökum náði Hannes ráspól og var 0.1 sek á undan Halla sem ræsti annar, en Kári náði 3. sæti í tímatökum.

Þessi keppni var í raun aldrei mjög spennandi þegar kom að sigrinum. Hannes keyrði mistakalaust og var hraðasti maðurinn þetta kvöldið. Hann leiddi alla keppnina og kom í mark 14 sekúndum á undan næsta manni. Einnig náði hann hraðasta hring og hlítur því auka stig ásamt máltíð fyrir tvo hjá Tasty!

Í nokkurn tíma voru þeir Halli, Kári og Jón Ægir nánast límdir saman í 2.-4. sæti, en um miðbik keppninnar féll Halli aðeins niður listann, en hann endaði í 6. sæti. Kári náði 2. sætinu, en Jón Ægir var sjaldan langt undan og hélt honum við efnið, en það munaði 4 sekúndum á þeim í lok keppni.

Kristinn Már átti tímatöku í slappari kantinum og ræsti aftastur í 11. sæti, en sýndi það og sannaði að í keppni sem varir í u.þ.b. eina klukkustund þá skiptir ekki öllu máli hvar maður byrjar. Hann er hástökkvari keppninnar, en með öruggum akstri vann hann sig upp um 6 sæti og landaði 5. sætinu í keppninni.

Hér eru úrslit 16. umferðar Tier 1 ásamt stöðu í stigakeppninni:

Það sem er helst í fréttum að lokinni 16. umferð er það að hann Kári Steinn er búinn að tryggja sér titilinn! Þó hann myndi sleppa síðustu þremur keppnum og Hannes vinna þær og ná hraðasta hring, þá myndi það ekki duga til. Það sem spilar inn í er að eins og áður hefur komið fram þá eru 4 verstu úrslit hvers og eins dregin frá, þannig að 15 bestu úrslit á tímabilinu gilda til stiga. Þegar það er tekið inn í reikninginn þá er þetta ljóst. Einnig er Hannes öruggur með 2. sætið og við óskum Kára og Hannesi innilega til hamingju með gullið og silfrið!

Baráttan um 3. sætið er aftur á móti enn opin, en Halli að vísu með nokkuð þægilegt bil, niður í Guffa í 4. sæti, en þar munar 13 stigum. Jón Ægir er svo 9 stigum á eftir Guffa, þannig 3.-5. sætið er ennþá óráðið!

Nú eru það fjórir keppendur sem eru að slást um 10. sætið, en það eru Valdimar (8. sæti, 111 stig), Sindri (9-10. sæti, 105 stig), Kjartan (9-10. sæti, 105 stig) og Kristinn (11. sæti, 100 stig). Þar sem það eru jú þrjár keppnir eftir enn, þá er allt galopið og alveg klárt að þeir fjórir munu berjast hart það sem eftir lifir tímabils.

Jón Valdimars hefur sótt á Skúla og munar nú aðeins 2 stigum á þeim í slagnum um 6. sætið, og svo munar aðeins orðið 5 stigum á Braga og Þorsteini. Þannig að þó 1. og 2. sætið séu nú þegar ráðin, þá er næg spenna í stigatöflunni ennþá!

Næsti keppnisdagur

Miðvikudagskvöldið 6. maí er næsti keppnisdagur GTS Iceland. Keppt verður á Interlagos og munu keppendur Tier 2 keyra á GT4 speccuðum Bugatti Veyron á meðan Tier 1 keyra aftur Gr.3 bíla.

Myndir/Myndbönd

Við erum hér:

67 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page