Tíunda umferð 2021-22 keppnisársins hjá okkur í GTS Iceland fer fram í næstu viku, dagana 25.-26. janúar. Það er því alveg við hæfi að kynna stuttlega til leiks þann leikvöll sem við fáum í hendurnar.
Í um það bil 16.500 kílómetra fjarlægð, við Bathurst í Ástralíu, liggur kappakstursbraut sem þarf ekki mikla kynningu fyrir aðdáendum akstursíþrótta. Brautin ber hið þjála nafn Mount Panorama Motor Racing Circuit og ber nafn sitt af fjallinu Mount Panorama sem hún liggur að hluta til á. Í daglegu tali er brautin þó oftast einfaldlega kölluð Bathurst.
Bathurst er braut með reynslu, en keppt hefur verið í kappakstri þarna síðan árið 1938. Fjölbreyttar keppnir fara þarna fram, en þekktust er eflaust þolaksturkeppnin sem keyrð er ár hvert á GT3 bílum, Liqui Moly Bathurst 12 Hours. Einnig er keppt þarna í V8 Supercars mótaröðinni ásamt ýmsu öðru.
Gaman er frá því að segja að utan keppnis- og brautardaga, þá eru vegir brautarinnar opnir almennri umferð, og það án endurgjalds. Þú þarft þó að virða hámarkshraðannn, sem er 60kmh, og er lögreglueftirlit á svæðinu öflugt. Við hvetju því alls ekki til hvers lags hraðaksturs sért þú þarna á ferðinni!
Það er óhætt að segja að brautin sé einstök og í raun engri annari lík. Hún er í lengri kantinum, en einn hringur er u.þ.b. 6.2km að lengd og tekur ca. 2 mínútur að keyra hann á GT3 keppnisbílum. Hæðarbreytingar eru miklar, en hækkunin milli lægsta og hæsta punkts brautarinnar eru góðir 174 metrar, þar sem keppendur bruna upp og niður hlíðar Panorama fjalls. Leiðin yfir fjallið er margslungin, þar sem gott flæði, sem og gott dass af hugrekki skiptir öllu máli. Leiðin niður er engu síðri, þar sem brautin hlykkjast niður í talsvert krappari beygjum en á leiðinni upp. Hér eru veggir sem taka "vel" á móti þér ef þú slysast til að yfirkeyra bílinn og ekki galið fyrir liðsstjóra að vera með vel þjálfaðan mannskap fyrir hugsanlegar stórviðgerðir á bíl!
Tvær mikilvægustu beygjur brautarinnar eru líklega Hell Corner og Forrest's Elbow, en þessar beygjur leiða þig inn á löngu beinu kafla brautarinnar. Hér skiptir öllu máli að gera ekki mistök út úr þessum beygjum, því þau munu þá fylgja þér óþægilega lengi og kosta heilmikinn tíma, og mögulega sæti. Einnig er innkoma inn á þjónustusvæðið lúmsk, því ef þú yfirkeyrir aðeins þar inn, þá ertu kominn út í sandgryfju með tilheyrandi tímatapi.
Að finna rétta uppsetningu keppnisbíla fyrir Fjallið er hægara sagt en gert. Á leiðinni upp og niður fjallið skiptir öllu máli að vera með gott grip og stöðugan bíl, en beinu kaflarnir tveir, Mountain Straight og Conrod Straight, eru helstu kaflarnir til framúraksturs, þar sem það er svo gott sem ómögulegt að fara framúr stórslysalaust yfir fjallið. Þess vegna er endahraði einnig mikilvægur, bæði til að verjast og sækja. Það er því eins gott að spá og spekúlera vel í að finna jafnvægi í uppsetningunni sem hentar hverjum og einum.
Bathurst hefur átt fastan sess á keppnisdagalinu okkar Í GTS Iceland, en hún hefur ekki misst úr tímabil hingað til. Keyrt var í myrkri í eitt skiptið og er það sú keppni sem á hið vafasama met yfir flest DNF, fimm talsins! Keyrt er að morgni í þetta skipti þannig birtuskilyrði verða töluvert betri en þá, þannig vonandi sjáum við alla keppendur komast í mark.
Comentários