top of page
Writer's pictureGTS Iceland

Keppnisdagur 6. Maí: Úrslit - Umfjöllun - Myndir

Í gærkvöldi var keppnisdagur í GTS Iceland og sem endranær voru tvær keppnir á dagskránni. Tier 2 keyrðu í 8. umferð Vortímabils, en Tier 1 í 17. umferð af 19. Keppnisbraut umferðarinnar er hin góðkunna Interlagos GP.


Umferðirnar eru í boði styrktaraðila deildarinnar, AutoCenter og Tasty Linka á upptökur frá keppnunum má finna neðst í færslunni, en myndir frá actioninu koma síðar og mun koma ný færsla þegar að því kemur.


Tier 2

Keppendafjöldi í Tier 2 heldur áfram að vaxa, en keppnin í gærkvöldi var sú fjölmennasta frá upphafi Tier 2. Fjórtán keppendur voru mættir, og þar af einn að þreyta sína fyrstu keppni í GTS Iceland, hann Magnús Ingólfsson. Við bjóðum Magnús velkominn í hópinn og vonumst til að sjá hann sem oftast á braut með hópnum! Keppninni var streymt og lýst í beinni útsendingu á YouTube rás GTS Iceland.


Keppnisbíll umferðarinnar var Bugatti Veyron Gr.4 og í tímatökum voru það enn á ný Eva og Hlynur sem vermdu efstu tvö sætin, en það var Eva sem hafði betur og náði ráspól. Ekki var Hlynur langt undan í 2. sæti en það munaði ekki nema 0.088 sekúndum á milli þeirra. Þriðja besta tíma náði Vilhjálmur.


Keppnin fór nokkuð vel af stað, en þau Eva, Hlynur og Villi skildu sig fljótt frá hópnum og voru mikið til límd saman fyrri part keppninnar. Hlynur náði eftir mikla baráttu að skjóta sér framúr Evu og taka forystuna, og hélt henni til loka og var rúmlega 13 sekúndum á undan Evu. Interlagos er mjög frek á dekkin, og á meðan Eva og Villi tóku pitstop til að skipta um dekk um miðbik keppninnar, þá keyrði Hlynur óhikað áfram og keyrði keppnina til enda á sama settinu, en hann virtist fara áberandi best með dekkin í þessari keppni. Glæsilegur akstur og vel að sigrinum kominn.


Eftir að Eva og Villi komu úr pittinum, þá komu þau út á eftir Ásgeiri og Birgi, sem voru sjálfir að berjast, og þar myndaðist æsispennandi fjögurra bíla barátta þeirra á milli. Það varði þó ekki mjög lengi því bæði Ásgeir og Birgir tóku pitstop og þar með hurfu Eva og Villi. Á endanum var það Eva sem hafði betur gegn Villa, en þau tóku 2. og þriðja sætið. Hingað til hafa Eva og Hlynur skipt á milli sín hraðasta hring í keppni, en í gær var það Villi sem fann fluggírinn og tók hraðasta hring. Fær hann að launum fyrir það auka stig í stigakeppninni, ásamt máltíð fyrir tvo frá Tasty!


Hér eru úrslit og staðan í stigakeppninni eftir 8. umferð Vortímabils:

Eins og sjá má þá er baráttan alveg gífurlega hörð! Ekki munar nema 1 stigi milli Evu og Hlyns í 1. og 2. sæti, og sama sagan milli Ásgeirs og Villa í 3. og 4. sæti. Það er varla hægt að biðja um meiri spennu þegar aðeins tvær umferðir eru eftir!


Ef við skoðum aðeins stigatöfluna, og þá sérstaklega baráttuna um titilinn milli Evu og Hlyns, þá getur þetta farið á hvora vegu. Það sem Eva þarf til þess að tryggja sér titilinn er að ná einum sigri og einum hraðasta hring í síðustu tveimur keppnunum. Það skiptir í raun ekki máli í hvorri keppninni það er. Hún gæti t.d. sigrað næstu keppni með hraðasta hring, og sleppt loka keppninni, en verið tryggð. Eða tekið sigur í næstu keppni og hraðasta hring í loka keppninni. Hlynur getur náð titlinum með því að sigra síðustu tvær keppnirnar, eða sigra aðra og 2. sætið í hinni, en hraðasti hringur í báðum keppnum.


Þessar pælingar gera ráð fyrir því að ef Hlynur vinnur á sé Eva í 2. sæti, og öfugt, en auðvitað getur hrært meira í þessu ef þeim gengur illa í næstu tveimur keppnum. En það er ljóst að það er aðeins harðari róður framundan hjá Hlyn. Þetta er samt langt frá því að vera búið og það verður gífurlega spennandi að fylgjast með þessari baráttu!


Milli Ásgeirs og Villa er staðan aðeins önnur, Ásgeiri í hag. Villi hefur nú þegar misst úr 2 keppnir og er því búinn með báða "frípassana", en hann nær víst ekki að vera með í næstu keppni. Það er því mikilvægt fyrir Ásgeir að ná góðum úrslitum á Maggiore í næstu umferð til að byggja upp bil í Villa fyrir síðustu keppni.


Tier 1

Síðar um kvöldið fór Tier 1 af stað, en aftur var keppendafjöldi Tier 1 og Tier 2 svipaður, og í þetta skiptið hnífjafn! 14 keppendur mættu á braut og vantaði aðeins Braga til að allir skráðir keppendur tækju þátt. Keppendur eru nú 15 talsins þar sem Arnar Már keyrir ekki lengur í Tier 1 og sökum þess hversu stutt er eftir af tímabilinu þá verður ekki fenginn inn nýr keppandi í síðustu keppnirnar. Daníel og Birgir, keppendur í Tier 2, endurtóku leikinn og streymdu og lýstu Tier 1 keppninni.


Fyrir keppnina var nokkuð um bílaskipti keppenda. Guffi tók af skarið og ákvað að leggja Porsche RSR bifreið sinni og tók inn í staðinn Volkswagen Beetle Gr.3. Jón Valdimars ákvað að leika sama leik, og svo rétt fyrir keppni ákváðu Halli og Skúli í Team AutoCenter að gera sömu breytingu! Jón endaði þó að vísu á því að nota svo Supruna sína í keppninni, en Guffi, Halli og Skúli mættu allir á bjöllunum.


Tímatökurnar voru mjög jafnar eins og vanalega en sem dæmi var innan við hálf sekúnda sem skildi að 1.-6. sætið. Það var þó Kári sem náði ráspól, Halli þar rétt á eftir og svo Guffi með þriðja besta tímann, og Hannes rétt á eftir honum í 4. sæti.


Það voru þessir fjórir sem skildu sig fljótlega frá hópnum og voru þétt saman í nokkurn tíma. Guffi náði fljótlega að komast upp í 2. sætið með framúrakstri á Halla, en Hannes, sem ræsti fjórði, náði að skjóta sér fram fyrir með því að "undercutta" og fara fyrr í pittinn en hinir. Það dugði honum þó ekki til sigurs, en náði þó 2. sætinu. Ekki munaði miklu á honum og Guffa þegar á hólminn var komið, en Hannes hafði tekið mjög langt síðasta stint og voru dekkin að segja sitt síðasta. Guffi náði að vinna upp tíma á Hannes, en það dugði ekki til og þurfti hann að sætta sig við 3. sætið. Halli tók 4. sætið skammt undan Guffa.


Hannes átti hraðasta hring í keppninni og fær fyrir það auka stig og máltið fyrir tvo frá Tasty.


Sindri var hástökkvarinn, en með öruggum og mistakalausum akstri þá vann hann sig upp úr 11. sæti og endaði í 5. sæti sem hann nældi sér í þegar hann tók fram úr Valdimar í blálokin.


Hér eru úrslit og staðan í stigakeppni Tier 1 að lokinni 17. umferð:

Eins og kom fram eftir síðustu umferð, þá eru 1. og 2. sætið nú þegar ráðin, en Kári er búinn að tryggja sér titilinn og Hannes er öruggur í 2. sætinu. Bronsið er enn opið, en Halli er í góðri stöðu. Guffi náði að minnka muninn úr 13 stigum í 11 stig eftir þessa keppni, en nú þegar aðeins eru tvær keppnir eftir þá verður að segjast að Halli er kjörstöðu til að næla í bronsið. Nafnarnir Jón Ægir og Jón Valdimars lentu saman í keppninni með slæmum afleiðingum fyrir báða aðila, og fyrir vikið hefur Jón Ægir aðeins misst sjónar á Guffa, en nú munar 17 stigum á þeim fyrir síðustu tvær umferðirnar.


Með góðum úrslitum í gærkvöldi er Sindri búinn að ná að fjarlægjast aðeins baráttuna um 10. sætið, síðasta sætið sem gefur öruggan keppnisrétt á næsta tímabili Tier 1. Sindri er nú með 119 stig í 9. sæti á meðan Kjartan er með 111 stig í 10. sætinu. Kristinn Már átti ekki góðu gengi að fagna í gærkvöldi og er nú aðeins á brattann að sækja fyrir hann, en nú situr hann í 11. sæti með 103 stig, 8 stigum á eftir Kjartani. Hér þarf ekkert að pæla í hvernig 4 verstu úrslit spila inn í, því þeir fjórir hafa allir misst úr keppnum eða farið stigalausir út í 4 skipti, þannig þetta er hreinn og klár stigaslagur milli þeirra í síðustu tveimur keppnum. Einnig ber að nefna að Sindri er farinn að ógna Valla í 8. sætinu, en aðeins 4 stig skilja þá kumpána að.


Næsti keppnisdagur

Miðvikudagskvöldið 20. maí fara næstu umferðir fram, en það verður næstsíðustu umferðir deildanna. Keppnisbrautin verður Autodrome Lago Maggiore, sem er "original" keppnisbraut úr hugarsmiðju framleiðanda leiksins, Polyphony Digital. Tier 2 munu keyra Peugeot RCZ Gr.4, en Tier 1 SuperGT bíla.


Myndbönd


Við erum hér:

78 views0 comments

Kommentare


bottom of page