top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

Þriðja umferð GTS Iceland, 9. Október

Það styttist orðið í keppnisdag, en í samstarfi við AutoCenter og Tasty fer þriðja umferð GTS Iceland fram á miðvikudagskvöldið, þann 9. október.


Keppnisbrautin að þessu sinni er Autodromo Nazionale Monza, eða bara Monza eins og hún kallast í daglegu máli. Monza er braut sem allir kappaksturs unnendur ættu að þekkja, enda ein sögufrægasta braut sem keyrt er á í dag. Hún er staðsett á Ítalíu og var byggð árið 1922 og er því ein elsta kappakstursbraut veraldar.


Brautin einkennist af löngum beinum köflum og kröppum S-beygjum, en þetta er ein hraðasta braut tímabilsins. Fyrsta beygjan er gífurlega kröpp S-beygja og er alræmd fyrir að valda óhöppum, en keppendur koma að henni á ógnarhraða eftir mjög langan beinan kafla. Hér skiptir því höfuðmáli að vera með bremsupunktana á hreinu og fylgjast sérlega vel með því sem er að gerast í kringum sig, því einn árekstur getur verið nóg til að gera út um góðan árangur.


Dagskráin á miðvikudaginn hefst kl. 20:00 með Tier 2. Keppendur munu keyra um á Lexus RC F Gr.4 sem er einmitt einn af hraðari Gr.4 bílum leiksins. Keyrðar verða 10 mínútna tímatökur og svo hefst 15 hringja kappakstur. Þorsteinn (rabufans) hefur unnið örugga sigra í fyrstu tveimur keppnunum, en sjáum hvort hann nái að fylgja þeim árangri eftir hér á Monza.


Tier 1 keppendur munu bruna um Monza á Gr.3 bílum, sem svipa til GT3/GTE bíla í raunveruleikanum. Ballið byrjar kl. 21:45 með 15 mínútna tímatökum og 32 hringja keppni hefst svo beint í kjölfarið. Að venju í Tier 1 er að mörgu að huga, en keppendur hafa úr þremur tegundum dekkja að velja og þurfa einnig að huga að bensíneyðslu. Gr.3 bílarnir komast af með einu bensínstoppi, en spurningin er hvort keppendur veðji á mýkri dekk og taka fleiri stopp, eða harðari dekk og færri stopp. Rétt herkænska getur skipt sköpum í Tier 1 og verður fróðlegt að sjá hvernig menn kjósa að keyra.


Eftir fyrstu tvær keppnirnar þá eru tveir mismunandi sigurvegarar. Halli (halli000) hjá Team AutoCenter sigraði fyrstu keppni, og Kári (KariS10_97) hjá Team M.I.K.A. sigraði síðast. Hópurinn er gífurlega jafn þannig það er allt opið og verður spennandi að sjá hvort við fáum þriðja sigurvegarann í þremur keppnum, eða hvort Halli eða Kári nái að stíga á efsta þrep verðlaunapallsins aftur.


Að venju mæli ég með fyrir áhugasama að splæsa í "læk" á Facebook Page deildarinnar til að missa ekki af nýjustu fréttum. Ef þið hafið áhuga á að fylgjast enn nánar með, og/eða keyra eitthvað með hópnum, þá eru allir velkomnir í Facebook umræðuhóp deildarinnar.

36 views0 comments

Comments


bottom of page