top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

3. Umferð: Úrslit - Umfjöllun - Myndir

Þriðju umferð GTS Iceland lauk nýverið, en þrjár keppnir fóru fram dagana 6. - 7. október þar sem keppendur deildanna þriggja þurftu að kljást við hina margslungu japönsku kappaksturbraut, Autopolis International. Allar deildir keyrðu keppnisbíla í Gr.3 flokki.


Tier 3

- Horfðu á keppnina HÉR


Eins og vant er hófst keppnisvikan á þriðjudagskvöldinu með Tier 3 deildinni og voru 12 keppendur "mættir" til Japan í þetta skiptið. Hingað til hefur Adélio verið í sérflokki og kom inn í keppnina með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar, en í 1. og 2. umferð var það Ingvar sem vermdi 2. sætið, en þegar uppi var staðið þá náði hann í hvorugt skiptið að keppast um 1. sætið. Í þetta skiptið, eins og hann orðaði að keppni lokinni, var komið að honum að vera Hamilton.


Ingvar náði ráspól úr tímatökum og Adélio var með 2. besta tímann, en hann lenti í umferð á síðasta tímatökuhringnum sínum sem mögulega kostaði hann ráspólinn. Þegar keppnin hófst voru þeir tveir fljótir að slíta sig frá hópnum, en bilið milli þeirra var stöðugt í 2 sekúndum fyrri helming keppninnar, með Ingvar í forystu. Það kom flestum á óvart þegar Ingvar skaut sér inn í þjónustuhlé til að fá fersk dekk undir Audi R8 bifreið sína, og kom aftur út í 2. sæti, rúmlega 8 sekúndum á eftir Adélio með aðeins 7 hringi eftir af keppninni. Á þeirri stundu voru lýsendur nokkuð vissir um að Ingvar hefði farið illa að ráði sínu og gefið Adélio 1. sætið á silfurfati. Hann kom þó út með auða braut og óhætt að segja að hann hafi skipt í fluggírinn, þar sem næstu hringir voru hálfgerðir tímatökuhringir. Það var svo á síðasta hringnum sem Ingvar náði og fór framúr Adélio og nældi sér fyrir vikið í sinn fyrsta sigur, ásamt því að vera með hraðasta hring í keppni = fullt hús stiga.

Ingvar tekur framúr Adélio á lokahringnum og tryggir sér 1. sætið

Það var nokkuð langt í næstu menn, en fyrir utan þá Ingvar og Adélio, þá lentu allir aðrir keppendur í því að fara út af eða snúa bílnum á einhverjum tímapunkti í keppninni. Autopolis er lúmsk braut og er fljót að refsa mistökum. Það var þó hann Hákon sem kom í mark í 3. sæti og tekur sína fyrstu keppni á verðlaunapalli, en hans megin keppinautur, Dimmi, kom í mark í 4. sæti.


Hér eru úrslit og staða leika í Tier 3 deildinni að lokinni 3. umferð:

Adélio heldur enn fyrsta sætinu, en Ingvar hefur brúað bilið og ekki munar nema 6 stigum á þeim eftir fyrstu þrjár keppnirnar. Það bil gæti aukist á seinni hluta tímabilsins, en Ingvar hefur látið það í ljós að líklega mun hann missa úr einhverjar keppnir sökum vinnu. Við sjáum hvað setur og vonumst til að sjá hann í sem flestum keppnum á tímabilinu.


Með 3. sætinu í keppninni náði Hákon að komast upp fyrir Dimma, en þeir tveir voru jafnir að stigum í 3.-4. sæti eftir fyrstu tvær keppnirnar. Það er til mikils að vinna, en í lok Vetrartímabils í desember, þá munu efst þrír keppendur Tier 3 færast upp í Tier 2 deildina fyrir Vortímabilið sem hefst í Janúar.


Tier 2

- Horfðu á keppnina HÉR


Á miðvikudagskvöldinu voru Tier 2 og Tier 1 á dagskrá og fór Tier 2 af stað kl. 20:00. Fyrir keppni var ljóst að tveir keppendur myndu ekki ná á ráslínu í þetta skiptið, en Sigurður Ágúst hafði nýlokið aðgerð á hendi og liðsfélagi hans í SV Racing, Vilhjálmur, var fastur í vinnu. Þetta var því 2. keppnin í röð sem SV Racing fer stigalaust frá borði.


Mannabreytingar hafa orðið í Tier 2 deildinni frá því síðast. Gunnar Karel, sem þrátt fyrir að hafa mætt til leiks í fyrstu tvær keppnir tímabilsins, hafði ekki enn náð að taka þátt vegna internetvandamála sem hafa hrjáð hann. Hann ákvað því að stíga til hliðar þar sem óljóst er hvenær hann nær að leysa úr þeim málum. Þegar brottfall keppanda verður svona snemma á tímabilinu, þá er leitað að næsta manni úr tímatökunum sem fóru fram í aðdraganda tímabilsins og var næsti maður þaðan hann Stefán Bogi og átti því tilkall til sætisins. Stefán keyrir á Alfa Romeo 4C og hafði tekið þátt í Tier 3.


Því miður, eins og hefur orðið venja í Tier 2 keppnunum, þá gekk illa að koma dagskránni af stað, en allar þrjár Tier 2 keppnir tímabilsins hafa verið plagaðar af tæknilegum örðuleikum. Það fór svo á endanum að Sigurður Gunnar náði ekki að taka þátt í keppninni, en vandamál með nettengingu hans virtust orsaka það. Það voru því 11 keppendur sem tóku þátt í þetta skiptið.


Efstu þrír menn í tímatökunum voru þeir Ásgeir á ráspól, Óttar Örn í 2. sæti og Birgir í 3. sæti. Þeir þrír eru orðnir nokkuð kunnugir efstu þremur sætunum, bæði í tímatökum og keppni, þannig það er ekki hægt að segja að úrslit tímatökunnar hafi komið neinum á óvart.


Keppnin fór af stað og voru það þeir Ásgeir og Óttar, sem berjast um efsta sæti deildarinnar, sem leiddu hópinn. Fyrir keppnina höfðu allir þeir sem spáðu fyrir um úrslit spáð Ásgeiri sigri, en hann hefur verið í nokkrum sérflokki í Tier 2 og sigraði fyrstu tvær keppnir tímabilsins með öryggi. Þessi keppni var mun jafnari og var Óttar í baksýnisspeglunum hjá honum fyrri helming keppninnar, en svo ákvað Ásgeir að hoppa í þjónustuhlé í lok 8. hrings og fá sér ný dekk. Sú taktík hafði á undraverðan hátt virkað fyrir Ingvar í Tier 3, en munurinn þar á var að Ingvar kom út með auða braut, á meðan Ásgeir kom úr í 5. sæti á eftir Birgi, Sævari Má, Arnari og Óttari. Það varð því fljótt ljóst að möguleikinn á sigri þetta kvöldið var orðinn að engu.

Óttar keyrði af öryggi alla 15 hringi kvöldsins og fagnaði sínum fyrsta sigri á tímabilinu

Hann hélt þó ótrauður áfram og vann sig upp í 3. sætið og fór að gera atlögu að Arnari, sem var á mjög slitnum dekkjum. Sú barátta endaði með samstuði þeirra á millli sem sendi Ásgeir niður í 4. sætið og Arnar í 5. sæti, á meðan Sævar og Birgir græddu á því og færðust upp í 2. og 3. sætið. Það var því Óttar sem sigldi Nissan GT-R bíl sínum örugglega í mark í 1. sæti, ásamt því að eiga hraðasta hring keppninnar, og vann því nokkur stig á Ásgeir í topp baráttunni í Tier 2.


Hér eru úrslit og staða leika eftir 3. umferð í Tier 2:

Eins og sjá má er baráttan um 1. sætið gífurlega hörð og eftir keppni vikunnar eru þeir Óttar og Ásgeir hnífjafnir að stigum, með 67 stig hvor. Það er einnig heilmikill slagur um 3. sætið, en eins og stendur þá er það Birgir sem er í 3. sæti með 50 stig, með Arnar andandi ofan í hálsmálið á honum aðeins 2 stigum á eftir.


Í liðakeppnini þá er SS Racing í mjög góðum málum þrátt fyrir að Ásgeir hafi endað neðar en áður, en það má þakka því að Sævar Már liðsfélagi hans nældi í 2. sætið og góðan skammt af stigum fyrir sig og liðið. Bræðraliðið Team TRB, sem samanstendur af þeim Inga Þór og Arnari er 23 stigum á eftir í 2. sæti.


Tier 1

- Horfðu á keppnina HÉR


Þar sem dagskráin dróst umtalsvert í Tier 2, þá leið ekki á löngu þar til komið var að keppendum Tier 1 að glíma við hina umdeildu Autopolis braut. Einn keppandi náði ekki á ráslínu þetta kvöldið, en hann Eyjó gat ekki keppt vegna veikinda.


Tímatakan var að vanda gífurlega jöfn, en sem dæmi var innan við hálf sekúnda sem skildi að 1. - 8. sæti, og innan við sekúnda frá 1. - 10. sæti. Hannes, sem var fastagestur á verðlaunapalli á síðasta tímabili og var helsti keppinautur Kára um íslandsmeistaratitilinn, hefur ekki átt sína óskabyrjun á 2020-21 keppnistímabilinu. En hann sneri vörn í sókn og var í miklu fantaformi þetta kvöldið. Hann náði ráspól, með Halla á eftir sér í 2. sæti og nýliði deildarinnar, Guðmundur Orri, mætti vel undirbúinn til leiks og náði 3. besta tíma í tímatökum.


Keppnin fór vel af stað og var nokkur spenna frá upphafi til enda, þar sem mismunandi keppnisplön keppenda hristu svolítið upp í keppninni. Hannes og Halli fóru vel af stað og náðu að skilja sig aðeins frá hópnum, en Guðmundur Orri hafði fullt í fangi með að halda þeim Þorsteini og Kára fyrir aftan sig. Á endanum höfðu þeir betur, en í einni og sömu beygjunni náðu þeir báðir að skjóta sér framhjá eftir smávægilegt nudd milli Guðmundar og Þorsteins.


Eins og fyrr segir voru keppnisplönin misjöfn. Hannes, sem ætlaði upphaflega að stoppa tvisvar, sá þegar leið á keppnina að það gæti unnið honum í hag að taka aðeins eitt stopp. Á meðan voru Kári og Halli á 2 stoppa plani. Eftir að Hannes hafði tekið sitt eina þjónustuhlé voru það Halli og Kári sem voru í miklum slag í 1. og 2. sæti, en áttu þó báðir eftir að taka seinna stoppið sitt, en það átti eftir að reynast afdrifaríkt. Þeir pittuðu báðir í sama hringnum, en í furðulegu óhappi enduðu þeir saman við inngang þjónustusvæðisins sem varð til þess að Halli endaði á vegriði þar og tapaði við það tíma, og í ofanálag tjónaðist bíllinn illa við það og krafðist lengra þjónustuhlés til að gera við skemmdir. Þetta varð til þess að Kári kom út í 3. sæti, á eftir Hannesi og Þorsteini, sem einnig var á eins stoppa plani, á meðan Halli kom út í 5. sæti.


Nú þegar allir höfðu klárað sín skipulögðu þjónustuhlé var það Hannes sem leiddi keppnina, Þorsteinn mjög skammt undan í 2. sæti og Kári í 3. sæti. Ekki munaði nema tæplega 4 sekúndum á þeim þremur, en allt kom fyrir ekki og úrslitin urðu á þá leið. Kári náði hraðasta hring keppninnar og fær fyrir vikið 1 aukastig í stigakeppninni, ásamt gjafabréfi hjá Hafinu Fiskverslun, einum styrktaraðila deildarinnar.

Hannes í forystu, sem hann hélt stærstan part keppninnar og keyrði með yfirvegun til sigurs

Þorsteinn endaði í fyrsta skipti á verðlaunapalli í Tier 1, en hann hefur marg sýnt það að hann er með hraðann til að berjast á toppnum, en hefur verið óheppinn og mistök í keppnum hafa sett svip á úrslitin hingað til. Það var ekki upp á teningnum í þetta skiptið og var hann ekki langt frá því að geta gert atlögu að 1. sætinu.


Hér má sjá úrslit og stöðu leika í Tier 1 að lokinni 3. umferð:


Eins og sjá má á stigatöflunni var þetta ansi jöfn keppni og innan við 10 sekúndur sem skildu að 1. - 5. sæti og það liggur í augum uppi að baráttan í Tier 1 deildinni mun verða gífurlega hörð þetta tímabilið.


Kári situr á toppnum að lokinni 3. umferð, en hann græddi á því að Hlynur var ekki í toppslagnum þessa keppnina og endaði í 7. sæti. Hann heldur þó 2. sætinu sem stendur, en eftir sigur vikunna er Hannes ekki nema 2 stigum á eftir honum.


Í liðakeppninni er það G&K Racing sem heldur toppsætinu með 90 stig, en Team AutoCenter, BYKO Racing Team og TGR Iceland eru ekki mjög langt undan með 74, 72 og 71 stig.


Næsta umferð - Fréttir

Næstu keppnisdagar eru þriðjudags- og miðvikudagskvöldin 20.-21. október. Keppt verður á Interlagos í Brasilíu. Sem áður keyra Tier 2 og Tier 3 á Gr.3 bílum, en hraðinn verður talsvert meiri í Tier 1 deildinni þar sem fyrsta Super Formula keppnin fer fram.


Eins og kom fram í síðustu færslu, þá kom Jónas Már nýr inn í Tier 1 í þessari keppni. Hann þreytti því frumraun sína í Tier 1, sem jafnframt var frumraun hans í GTS Iceland. Hann hefur þó ákveðið að nú sé ekki rétti tíminn til að vera í Tier 1 og ætlar að safna sér reynslu í vetur í Tier 3 deildinni. Í kjölfarið hefur verið ákveðið að taka ekki inn nýjan keppanda í stað Jónasar, heldur verður keppendafjöldinn lækkaður í 14 og mun það tryggja það að ávallt verði tvö laus pláss í lobbyinu fyrir Daníel og Birgi sem sjá um Tier 1 útsendingarnar.


Tier 1 aftur á Stöð 2 E-Sport

Eins og flestum ætti að vera kunnugt var opnunarkeppni Tier 1 deildarinnar sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 E-Sport. Síðustu tvær keppnir hafa ekki verið sýndar þar í beinni sökum árekstra dagskráliða, en frá og með 4. umferð mun Tier 1 snúa aftur í beina útsendingu á Stöð 2 E-Sport! Sem fyrr verða keppnirnar einnig sýndar í beinni samhliða Stöð 2 í gegnum YouTube rás GTS Iceland, en við hvetjum ykkur sem ætlið að fylgjast með að horfa á keppnirnar á Stöð 2 E-Sport. Rásin er í opinni dagskrá og er aðgengileg í öllum myndlyklum, öppum og á vefnum.


Þið finnið GTS Iceland á Facebook, YouTube og Instagram og við hvetjum ykkur til að fylgja okkur þar til að missa ekki af neinu.


Við erum hér:

172 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page