top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

4. Umferð - Úrslit, umfjöllun og myndir

Fjórðu umferð GTS Iceland, í samvinnu við Tasty og AutoCenter, lauk í gærkvöldi. Tvær keppnir fóru fram og var keppnisbraut kvöldsins Kyoto Driving Park - Yamagiwa. Vefslóð á myndaalbúm frá keppnunum er neðst í færslunni.


Tier 2 keyrðu fyrst og var bíll kvöldsins á þeim bænum Toyota 86 Gr.4. Keppendur keyrðu 17 hringi og var mikil spenna. Í fyrsta skipti var keppninni lýst í beinni útsendingu og má finna upptöku af streyminu HÉR ef einhver vill horfa eftirá.


Í Tier 2 var það Þorsteinn (rabufans) sem fór með sigur af hólmi, en hann náði einnig ráspól og var með hraðasta hring í keppni. Hann er því enn með fullt hús stiga eftir fyrstu fjórar keppnir tímabilsins. Það er samt ekki þar með sagt að hann hafi farið létt með það, því Ásgeir (SkeiriGB) var rétt á hælunum á honum þegar þeir kláruðu síðasta hring og var alveg líklegur til að gera atlögu að honum hefði hann haft 1-2 hringi til viðbótar. Óttar Örn (TarriJohns) landaði 3. sætinu, en hann og Ásgeir börðust hart á tímabili um 2. og 3. sætið þar sem Ásgeir hafði betur.


Hér eru úrslit og staða í stigakeppni að lokinni fjórðu umferð:


Úrslit tímatöku og keppni í Tier 2

Staða í stigakeppni að lokinni 4. umferð. ATH að í lok tímabils gilda 7 bestu úrslit úr 9 keppnum til stiga

Tier 1 fór svo af stað síðar um kvöldið, en tímatökur þar hófust kl. 21:45. Hér keyrðu menn á Super Formula keppnisbílum og var mikill hraði á mönnum!


Halli (halli000) hjá Team AutoCenter reyndist hraðastur þetta kvöldið og vann nokkuð öruggan sigur. Þetta er annar sigur Halla á tímabilinu og nær hann að koma sér fyrir vikið aftur á toppinn í stigakeppni ökumanna. Kári (KariS10_97), hjá Team M.I.K.A. ræsti fremstur eftir afspyrnu góðan tímatökutíma, en náði ekki að fylgja því til enda og þurfti því að sætta sig við 2. sætið. Jón Ægir (crackdup23) gerði góða hluti og tók þriðja sætið eftir að hafa haft betur í baráttu við Hannes (Hanzo_GTs) hjá Yota-Hachi Racing Team.


Keppnin gekk vel og nokkurn veginn áfallalaust fyrir sig, en þetta er í fyrsta skipti sem keppt er á Super Formula bílum í deildinni. Það eru tvær Super Formula keppnir á tímabilinu í Tier 1, og verður sú seinni á Red Bull Ring í rigningu.


Hér eru úrslit og staða í Tier 1 eftir fjórðu umferð:


Úrslit tímatöku og keppni í 4. umferð Tier 1

Staða í stigakeppni ökumanna í Tier 1 að lokinni 4. umferð. ATH að í lok tímabils gilda 15 bestu úrslit úr 19 keppnum til stiga.

Staða í stigakeppni keppnisliða í Tier 1 að lokinni 4. umferð

Þar sem Þorsteinn og Hannes voru með hröðustu hringi kvöldsins, þá eru þeir enn á ný handhafar Tasty verðlauna umferðarinnar og fá að launum gjafabréf hjá Tasty. Verði ykkur að góðu strákar!


Næsta umferð fer fram að tveimur vikum liðnum, miðvikudagskvöldið þann 6. nóvember. Keppnisbrautin verður hin ástralska Mount Panorama Motor Racing Circuit, betur þekkt sem Bathurst. Tier 2 keppendur munu keyra Ford Mustang Gr.4, á meðan Tier 1 grípa í Gr.3 bíla sína.


Sem endranær hvetjum við áhugasama að smella "læk" á Facebooksíðu GTS Iceland, sem og að ganga í Facebook umræðuhópinn til að fylgjast enn nánar með og/eða taka þátt í einhverjum keppnum á vegum hópsins.


Einnig erum við á Instagram og YouTube.


Myndaalbúm frá fjórðu umferð GTS Iceland:

78 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page