top of page
Writer's pictureGTS Iceland

4. Umferð: Úrslit - Umfjöllun - Myndir

Tíminn líður og enn ein keppnisvikan er liðin. Dagana 20.-21. október fór fram 4. umferð GTS Iceland og sem fyrr voru þrjár keppnir á dagskránni: Tier 1, Tier 2 og Tier 3. Keppnisbraut umferðarinnar var hin sögufræga Interlagos. Brautin er staðsett í Brasilíu og er þekktust fyrir að vera vettvangur fyrir Formúlu 1, en það hefur verið keppt þar síðan 1973. Tier 2 og Tier 3 keyrðu bíla í Gr.3 keppnisflokki, sem er í raun GT3 flokkur, á meðan Tier 1 keyrði á Super Formula bílum.


Tier 3 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR


Keppendur í 4. umferð Tier 3 deildarinnar voru 11 talsins þetta kvöldið. Af þessum 11 keppendum voru þrír keppendur að taka þátt í sinni fyrstu Tier 3 keppni, en þó bara einn nýliði.


Eins og kunnugt er þá hafði Eva María, sem var komin með keppnisrétt í Tier 1 fyrir tímabilið og búin að mynda keppnislið með Hlyn, dregið sig í hlé. Það hefur samt augljóslega verið erfitt að halda sig af brautinni því hún er mætt aftur og tók þátt í Tier 3 keppni vikunnar. Jónas Már keyrði einnig sína fyrstu Tier 3 keppni, en hann kom inn í Tier 1 í síðustu keppni og ákvað svo frekar í kjölfarið að safna sér reynslu í Tier 3. Nýliði kvöldsins var hann Axel Fannar, en hann var að taka þátt í sinni fyrstu keppni í GTS Iceland, og miðað við það sem hann hafði að segja að lokinni keppni þá munum við sjá meira af honum í framtíðinni.


Hingað til hafa það verið Adélio og Ingvar sem hafa verið í hálfgerðum sérflokki í Tier 3. Ingvar gat ekki verið með í þetta skiptið og þótti Adélio því mjög líklegur til að sigra keppnina, en svo þegar kom í ljós að Eva myndi keyra þetta kvöldið var ljóst að hann myndi fá mjög harða samkeppni.

Eva kemur í mark í 1. sæti með Adélio aðeins broti úr sekúndu á eftir henni

Eva náði ráspól í tímatökum með nokkru öryggi, tæpri hálfri sekúndu á undan Adélio, en Dimmi var svo þar á eftir í 3. sæti. Þegar keppnin fór af stað voru Eva og Adélio fljót að skilja sig frá hópnum og voru í raun óaðskiljanleg alla keppnina. Þó að Eva hafi leitt keppnina frá upphafi til enda og hreppt sigur, þá er ekki hægt að segja að þetta hafi verið auðvelt fyrir hana, því Adélio fór yfir endamarkið aðeins 0.144 sekúndum á eftir Evu. Síðasta þrepið á verðlaunapallinum fór til Ævars, en þetta var einungis önnur keppni hans í GTS Iceland. Virkilega vel gert hjá honum og var hann að vonum ánægður með árangurinn.


Hér má sjá úrslit og stöðu leika í Tier 3 að lokinni 4. umferð:

Þar sem Ingvar var ekki með þetta kvöldið þá er Adélio kominn með mjög þægilega stöðu í stigakeppninni, og Dimmi kominn í 3. sætið, aðeins 2 stigum frá Ingvari. Eftir fyrstu þrjár keppnirnar höfðu Dimmi og Hákon verið í harðri baráttu um 3. sætið, en rétt eins og Ingvar, þá náði Hákon ekki að keppa í þetta skiptið og situr nú í 4. sæti.


Í lok tímabilsins eru það þó 7 bestu úrslit úr 8 keppnum sem gilda, þannig það verður mjög spennandi að fylgjast með hvernig þetta þróast, en efstu þrír keppendur Tier 3 í lok Vetrartímabils færast upp í Tier 2 deildina fyrir Vortímabilið.


Tier 2 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR


Í fyrsta skipti á tímabilinu voru allir 14 skráðir keppendur Tier 2 deildarinnar mættir til leiks. Sem fyrr voru tímatökur gífurlega jafnar, en sem dæmi var munurinn á ráspól og 8. sæti ekki nema 0.6 sekúndur. Óttar náði ráspól, og á eftir honum voru það þeir Arnar og Birgir sem náðu 2. og 3. besta tíma. Ásgeir sem ásamt Óttari hefur verið í hálfgerðum sérflokki í Tier 2, átti ekki góða tímatöku m.v. fyrri keppnir og ræsti í 8. sæti. Það var því heilmikið verkefni framundan hjá honum, en hann og Óttar eru sem stendur í slagnum um efsta sætið í Tier 2.


Þeir Óttar, Arnar og Birgir skildu sig fljótlega frá hópnum og voru lengi vel nokkuð þétt saman. Óttar náði síðar að mynda sér svolítið bil þegar Arnar og Birgir fóru að slást um 2. sætið og keyrði með mikilli yfirvegun til sigurs í keppninni. Einnig náði hann hraðasta hring. Arnar hélt 2. sætinu og Birgir því þriðja, og því var í raun frekar tíðindalaust í Top 3.

Óttar keyrði af öryggi og sló ekki feilslag alla keppnina. Það skilaði honum sigri þetta kvöldið

Ásgeir var einn af fáum keppendum sem ákvað að taka ekki þjónustuhlé í keppninni, heldur passaði hann vel upp á dekkin og keyrði mjög vel í gegnum keppnina, meira að segja þegar dekkin voru farin að láta vel á sjá undir lokin. Sú taktík borgaði sig því hann landaði 4. sætinu, sem er góð björgun eftir að hafa ræst í 8. sæti.


Hér eru úrslit og staða leika í Tier 2 eftir 4. umferð

Eftir 4. umferð er Óttar komin á toppinn og er með 10 stiga forystu á Ásgeir, en þeir tveir eru mjög örugglega í efstu tveimur sætunum. Baráttan um 3. sætið er einnig mjög hörð, en þeir Birgir og Arnar eru þar jafnir með 68 stig hvor. Í liðakeppninni heldur SS Racing topp sætinu, en Team TRB er ekki langt undan.


Tier 1 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR


Það var heilmikið fjör framundan í Tier 1, en keppt var á Super Formula keppnisbílum, ein af tveimur slíkum keppnum á tímabilinu. Allir 14 keppendur deildarinnar mættu til leiks eins og vant er í Tier 1 og hörku keppni framundan.


Halli var í fantaformi þetta kvöldið og nældi sér í ráspól, með Kára og Hlyn á eftir sér í 2. og 3. sæti. Keppnin fór vel af stað og eftir gott start hélt Halli 1. sætinu. Halli var í góðri stöðu mest alla keppnina og hélt 1. sætinu stærstan hluta, og það sem mestu skiptir, var í 1. sæti þegar keppni lauk. Það er gaman að segja frá því að Halli er nú fjórði sigurvegarinn í fjórum keppnum, en það sýnir vel hversu gífurlega sterkur Tier 1 hópurinn er.

Halli leiddi keppnina að stærstum hluta og keyrði nokkuð örugglega í mark í 1. sæti

Þegar innan við 3 hringir voru eftir af keppninni fór heldur betur að hitna í kolunum og slagurinn um 2.-5. sætið náði hámarki. Á meðan Halli var í þægilegri stöðu í 1. sæti, þá voru það Kári, Hannes, Hlynur og Jón Ægir sem voru í 2.-5 sæti, í þeirri röð. Skömmu áður höfðu Hannes og Kári rekist örlítið saman, með þeim afleiðingum að bílar þeirra beggja hlutu smávægilegt tjón sem hægði ögn á þeim báðum. Hannes nær þó að taka fram úr Kára og kemst upp í 2. sætið, en á sama tíma er Jón Ægir á gífurlegri siglingu. Hann fer framúr Hlyn og nær 4. sætinu, skömmu síðar tekur hann framúr Kára og er þá kominn upp í 3. sætið, og að lokum tekur hann einnig framúr Hannesi og er því búinn að vinna sig úr 5. sætinu upp í 2. sæti á augabragði. Kári féll enn neðar, en hann missti einnig Hlyn framúr sér, sem þannig náði að endurheimta 4. sætið. Kári endaði því keppnina í 5. sæti, en þetta er í fyrsta skipti í þeim 23 keppnum sem hann hefur tekið þátt í í Tier 1 sem hann endar ekki á verðlaunapalli.


Hér sjáum við úrslit keppninnar og stöðu leika í stigakeppninni:

Eftir þessa viðburðaríku keppni er spennan orðin mikil, bæði í stigakeppni ökumanna og liða. Ekki skilja nema 11 stig að efstu 5 sætin í keppni ökumanna, en Kári heldur 1. sætinu að svo stöddu. Þeir Halli, Hlynur, Hannes og Jón Ægir eru þó ekki langt undan í 2.-5. sæti.


Baráttan um 8. sætið er eftir þessa keppni á milli Guffa, Jóns Valdimars og Valdimars, en í lok tímabilsins er 8. sætið það síðasta sem veitir keppanda öruggan keppnisrétt í Tier 1 á 2021-21 keppnistímabilinu.


Keppnistímabilið er þó bara rétt að byrja, en 13 keppnir eru enn eftir, og í lok tímabilsins verða það 14 bestu úrslit úr 17 keppnum sem gilda til stiga.


Framundan

Næsta keppnisvika er almanaksvika 45, en keppnisdagar verða 3.-4. október næstkomandi. Keppt verður á hinni spænsku Catalunya Grand Prix og keyra Tier 2 og Tier 3 á Gr.3 bílum, á meðan Tier 1 keyra Gr.2 (SuperGT) bíla.


Tier 2 og Tier 3 verða sýndar í beinni á YouTube rás GTS Iceland, en eftir langa bið þá snýr Tier 1 loks aftur á Stöð 2 E-Sport, en frá og með næstu keppni verða allar Tier 1 keppnir sýndar þar í beinni útsendingu. Stöð 2 E-Sport er í opinni dagskrá og er aðgengileg í gegnum alla myndlykla, sjónvarpsöpp og á vefnum, þannig það ætti enginn að þurfa að missa af fjörinu. Fyrir þá sem ekki ná að horfa, þá mun keppnin verða bæði endursýnd á S2 E-Sport, og endurbirt á YouTube rásinni okkar.


Við erum hér:

107 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page