top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

5. Umferð GTS Iceland er í kvöld!

Í dag er runninn upp keppnisdagur enn eina ferðina, en 5. umferð GTS Iceland fer fram í kvöld. Braut kvöldsins er hin ástralska Mount Panorama Motor Racing Circuit, betur þekkt sem Bathurst. Að segja að brautin sé krefjandi er vægt til orða tekið.


Hringurinn er 6.2km langur en það sem gefur brautinni sérstöðu eru gífurlegar hæðabreytingar, en frá lægsta að hæsta punkti brautarinnar er 174 metra mismunur. Hluti brautarinnar hlykkjast upp fjallshlíð og er sá kafli sérstaklega krefjandi þar sem þér er refsað af steyptum veggjum allt í kring ef þú dirfist að gera mistök.


Á síðasta keppnistímabili var keppt á Bathurst í myrkri sem gerði aðstæður sérlega erfiðar. Heldur vafasamt met var sett í þeiri keppni þar sem 5 keppendur luku ekki keppni. Í kvöld verður þó keyrt í dagsbirtu þannig sjáum hvort það verði ekki færri brottföll í þetta skipti.


Dagskráin er með sama sniði og vanalega. Tier 2 deildin byrjar og hefjast tímatökur kl. 19:00. Þær standa yfir í 10 mínútur og hefst svo keppnin. Keyrðir verða 13 hringir og er bíll dagsins vígalegur Ford Mustang Gr.4. Fyrir þá sem ekki þekkja, þá eru allar keppnirnar í Tier 2 svokallaðar "One-make" keppnir. Það þýðir að allir keyra sama bílinn með sömu uppsetningu og reynir því fyrst og fremst á akstursfærni ökumanna.


Tier 2 keppnin verður sýnd í beinni útsendingu með lýsingu á Youtube rás GTS Iceland. Lýsendur verða Guffi og Ingimagn, keppendur í Tier 1 deildinni, en þeir munu gera sitt besta til að sýna frá helsta actioni, lýsa því sem fyrir ber og svara spurningum í spjallinu. Streymið verður sett af stað um kl. 18:50 og hefst lýsing skömmu síðar. Endilega veljið "Subscribe" og smellið á bjölluna, en þá fáið þið tilkynningu þegar við förum í loftið og setjum inn efni á rásina.


Síðar um kvöldið hefst svo dagskráin hjá Tier 1. Keppendur keyra á Gr.3 keppnisbílum og munu keyra 29 hringi. Kl. 21:45 verða tímatökur og standa yfir í 15 mínútur, en þá verður flautað til keppni. Því miður höfum við ekki tök á að streyma Tier 1 dagskránni á sama hátt og Tier 2, þar sem lýsendur eru báðir að keppa þar. Aftur á móti mun undirritaður, og mögulega fleiri, streyma sínu sjónarhorni frá keppninni. Endilega gangið í umræðuhóp deildarinnar á Facebook til að fylgjast með, en vefslóðum verður deilt þar.


Það verður spennandi að sjá hvernig leikar fara í kvöld. Í fyrstu þremur keppnunum í Tier 2 vann Þorsteinn (rabufans) yfirburða sigur og virtist enginn geta snert hann. Í síðustu keppni fékk hann aftur á móti verðuga samkeppni frá honum Ásgeiri (SkeiriGB) og var ansi mjótt á mununum, þó Þorsteinn hafi staðið uppi sem sigurvegari að lokum. Það verður því spennandi að fylgjast með hvernig fer.


Í Tier 1 erum við með þrjá mismunandi sigurvegara í fyrstu fjórum keppnunum. Halli (halli000) leiðir með 2 sigra og svo eru Hannes (Hanzo_GTs) og Kári (KariS10_97) með einn sigur hvor. Tier 1 deildin er gífurlega sterk og jöfn og eru allir til alls líklegir þar, þannig það verður mjög spennandi að sjá hvernig fer í kvöld.


Sem endranær þá hvet ég áhugasama til að fylgja okkur á samfélagsmiðlum til að hafa augun á því sem er að gerast hjá okkur, taka þátt í keppnum, nú eða bara smala liði út á braut í Gran Turismo Sport og hafa það gaman.


Við erum hér:Sjáum ykkur vonandi sem flest í spjallinu í beinni útsendingu rétt fyrir kl. 19!

36 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page