top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

5. Umferð: Úrslit - Umfjöllun - Myndir

Í boði AutoCenter og Tasty fór fimmta umferð GTS Iceland fram síðastliðið miðvikudagskvöld. Keppendur þeyttust um hina margfrægu áströlsku kappaksturbraut, Mount Panorama Motor Racing Circuit, eða Bathurst, eins og hún er gjarnan kölluð. Keppendur í Tier 2 keyrðu Ford Mustang Gr.4, á meðan keppendur í Tier 1 keyrðu Gr.3 keppnisbíla. Linkar á myndaalbúm frá keppnunum er neðst í færslunni.


Nú er formlega (rúmlega) fyrsta fjórðungi Tier 1 tímabilsins lokið, og Tier 2 vetrartímabilið er rúmlega hálfnað, en Tier 2 keyra tvö tímabil, vetrar- (9 keppnir) og vortímabil (10 keppnir), á sama tíma og Tier 1 keyrir eitt 19 keppna tímabil.


Það var mikið líf og fjör og var Tier 2 keppnin fyrst á dagskrá. Keppnin var sýnd í beinni útsendingu með lýsingu, en þeir sem misstu af geta tékkað á stuðinu á Youtube rás GTS Iceland. Eftir mikla yfirburði í fyrstu fjórum keppnum tímabilsins þá náði Þorsteinn (rabufans) ekki að negla fimmtu keppnina í röð, en hann var ekki í sama ham og áður. Hann endaði þó í 3. sæti og náði hraðasta hring í keppninni. Baráttan um sigurinn var á milli Óttars (TarriJohns) og Evu (nastygirl70).


Eftir að Þorsteinn sneri bílnum í fyrsta hring komst Óttar í forystu. Hann keyrði mjög yfirvegað og um miðbik keppninnar var hann kominn með mjög þægilegt forskot á næstu keppendur. Síðan fóru óvanalegir atburðir að eiga sér stað. Stór hluti keppenda ákvað að taka þjónustuhlé og skella ferskum dekkjum undir bílana sína. Það var ákveðin áhætta, því Tier 2 keppnirnar eru ekki mjög langar og hingað til hefur það ekki borgað sig að spá í því. Aftur á móti var hér annað uppi á teningnum.


Eftir pitstop fór Eva í ham og át upp 8-9 sekúndna bilið sem Óttar var búinn að mynda, og var kominn í afturstuðarann hjá honum við síðasta hring. Óttar var mjög óheppinn að skera eina beygju aðeins of innarlega og fékk við það 3 sekúndna tímarefsingu. Eva, á mikið ferskari og gripmeiri dekkjum, reyndi fyrir vikið ekki framúrakstur, því það var ljóst að fyrst Óttar var með tímarefsinguna þá væri óþarfi að taka áhættu við að reyna að fara framúr.


Óttar fór því fyrstur yfir endamarkið, en Eva stóð uppi sem sigurvegari eftir að tímarefsingunni var bætt ofan á tíma Óttars. Þar sem Eva var á nýjum dekkjum hefði hún líklega náð að taka framúr á braut, en það er erfitt að segja, því brautin hentar ekki sérlega vel til framúraksturs. Það ætti því engum að undra að Óttari var ekki skemmt að glata sigrinum á þennan hátt.


Hér eru úrslit Tier 2 ásamt uppfærðri stöðu í stigakeppni ökumanna. Athugið að í lok tímabilsins gilda 7 bestu úrslit úr 9 keppnum. Ekki er búið að draga frá nein úrslit í þessari stigatöflu.



Tier 1 fór svo af stað síðar um kvöldið. Þetta var fámennasta keppnin hingað til en aðeins 11 af 16 keppendum mættu á ráslínu. Kunnugleg nöfn voru í Topp 3. Kári (KariS10_97) var í miklum sérflokki þetta kvöldið þar sem hann náði sér í ráspól, hraðasta hring í keppni og sigur. Hann lauk keppninni með hátt í 20 sekúndur í næsta mann og virtist sigurinn aldrei vera í hættu. Þetta er annar sigur Kára á tímabilinu, en hann hefur ekki ennþá endað neðar en 2. sæti, sem verður að teljast hreint út sagt frábær árangur!


Hannes (Hanzo_GTs), sem ræsti annar, var í baráttu við Kára framan af, en náði ekki að halda í hann þegar leið á en endaði öruggur í 2. sæti. 3. sætið var aftur á móti ekki eins auðfengið, en baráttan þar milli Halla (halli000) og Jón Ægis (crackdup23) var sérlega hörð. Jón var lengi vel að verja 3. sætið, en hann var með tímarefsingu á sér frá því fyrr í keppninni sem fylgdi honum yfir endamarkið. Það fór því fyrir honum eins og Óttari í Tier 2, að hann endaði einu sæti neðar en hann kláraði keppnina í, en hann missti 3. sætið í hendurnar á Halla þar sem hann var rétt á eftir honum þegar keppni lauk.


Hér eru úrslit keppninnar, ásamt stöðu í stigakeppni ökumanna og liða. Athugið, að rétt eins og í Tier 2, þá gilda ekki allar keppnir til stiga þegar uppi er staðið. Í lok tímabils gilda 15 bestu úrslit úr 19 keppnum tímabilsins. Ekki er búið að draga frá neinar keppnir í þessum stigatöflum.




Eins og vanalega þá veitir Tasty verðlaun fyrir hraðasta hring í keppni í Tier 1 og Tier 2. Það eru því Þorsteinn og Kári sem hljóta sitt hvort gjafabréfið hjá Tasty upp á máltíð fyrir tvo. Ekki amalegt!


Næsta umferð fer svo fram að tveimur vikum liðnum, þann 20. nóvember, en þá munu keppendur berjast við Catalunya.


Endilega fylgist með okkur á Facebook, Instagram og Youtube til að hafa augun á því sem er að gerast, og ekki hika við að ganga í umræðuhóp deildarinnar til að fylgjast enn nánar með, og/eða keyra eitthvað með okkur.


78 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page