top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

5. Umferð: Úrslit - Umfjöllun - Myndir

Keppnisvika er nú afstaðin hjá okkur í GTS Iceland, en 5. umferð fór fram dagana 3. og 4. nóvember. Keppendur kíktu í sólina á Spáni, en keppnisbraut umferðarinnar var Circuit de Barcelona-Catalunya. Tier 2 og Tier 3 deildirnar keyrðu að venju keppnisbíla í GT3 flokki, en hraðinn var ögn meiri í Tier 1 þar sem SuperGT bílar voru verkfæri vikunnar.



Tier 3 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR


Tíu keppendur tóku þátt í Tier 3 í þetta skiptið og var þetta fyrsta keppnin á tímabilinu þar sem enginn nýr keppandi var á ráslínu. Efsti maður stigakeppninnar, Adélio Sousa, var ekki á meðal keppanda þetta kvöldið og er þetta í fyrsta skipti sem hann missir úr keppni.


Eva María ákvað í kjölfar síðustu keppni að koma inn að fullu aftur, en hún tók þá óvæntu ákvörðun í aðdraganda tímabilsins að draga sig í hlé, en hún var búin að tryggja sér sæti í Tier 1 deildinni. Hún er nú staðráðin í að vinna sig upp aftur og sýndi það í þessari keppni. Hún náði ráspól, með Ingvar Rúnar í 2. sæti og Dimma Nikolov með 3. besta tíma.

Eva keyrði örugglega til sigurs af ráspól

Keppninni lauk nánast eins og hún byrjaði, en allir keppendur enduðu á sama stað og þeir ræstu, að undanskildum Illuga og Antoni sem víxluðu sætum. Eva vann nokkuð örugglega og náði einnig hraðasta hring keppninnar og þar af leiðandi aukastig í stigakeppninni.


Hér eru úrslit og staða leika eftir 5. umferð:

Eins og sjá má hefur Ingvar náð að minnka bilið í Adélio aftur, en fyrir keppnina var Adélio með gott forskot eftir að Ingvar missti af 4. umferð. Hákon hefur dregist aftur úr eftir að hafa misst úr síðustu tvær keppnir og er Eva María farin að banka á dyrnar hjá Dimma í slagnum um 3. sætið, síðasta sætið sem tryggir keppnisrétt í Tier 2 fyrir Vortímabilið sem hefst í Janúar.


Athugið að í stigatöflunni er búið að draga frá verstu úrslit hvers keppanda til að sýna réttari mynd af stöðunni, en í lok tímabils gilda 7 bestu úrslit úr 8 keppnum.


Tier 2 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR


Tier 2 fór af stað kvöldið eftir. 13 af 14 keppendum mættu til leiks, en Magnús gat ekki verið með í þessari keppni. Það var kunnuglegt á toppnum, en hann Óttar var í miklum sérflokki á Catalunya, en hann hafði sýnt það á æfingum að hann ætlaði sér ekkert annað en sigur.


Það kemur því ekki á óvart að hann náði sér í ráspól með frábærum tíma, 0.7 sekúndum á undan Inga Þór í 2. sætinu, og rétt tæplega sekúndu á undan Birgi í 3. sæti. Óttari líður mjög vel sem fremsta manni með auða braut fyrir framan sig og sló ekki feilslag í keppninni. Hann keyrði örugglega til sigurs rúmlega 18 sekúndum á undan næsta manni, með hraðasta hring keppninnar í farteskinu. Birgir náði að merja 2. sætið en Ásgeir í 3. sæti endaði ekki nema 0.15 sekúndum á eftir honum.

Óttar leiðir keppnina í fyrstu beygju, en hann hélt 1. sætinu frá upphafi til enda

Óttar hefur verið í miklum ham og er þetta þriðji sigurinn hans í röð. Hann fær að launum fyrir sigurinn gjafabréf hjá Tasty, og er búinn að koma sér í þægilega stöðu fyrir síðustu þrjár keppnir tímabilsins.


Hér eru úrslit og staða eftir 5. umferð:

Eins og sjá má er Óttar kominn í mjög góða stöðu og er með 14 stiga forskot á Ásgeir, sem er nokkuð þægilega settur í 2. sætinu. Birgir og Arnar eru svo þar fyrir neðan að kljást um 3. sætið.


Í liðakeppninni helst staðan óbreytt, en bræðurnir Arnar og Ingi Þór í Team TRB eru búnir að draga á Ásgeir og Sævar í SS Racing og munar ekki nema 9 stigum á liðunum.


Rétt eins og í Tier 3 er búið að draga hér frá verstu úrslit hvers keppanda til að sýna réttari mynd af stigatöflunni, en í lok tímabils gilda 7 bestu úrslit úr 8 keppnum.


Tier 1 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR


Lokakeppni vikunnar var að venju Tier 1, efsta deild mótaraðarinnar. Keppnin var sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 E-Sport, en GTS Iceland er komið til að vera og verður það sem eftir lifir tímabils sýnt þar hér eftir.


Það gerist ekki oft að keppanda vantar á ráslínu í Tier 1, en þetta kvöldið náði Guffi ekki að taka þátt og voru því 13 keppendur á ráslínu. Hannes greip ráspól, en þeir Halli og Þorsteinn ræstu á eftir honum í 2. og 3. sætinu.


Halli átti frábæra ræsingu og var kominn framúr Hannesi og í forystu fyrir fyrstu beygju. Hann hélt forystunni stærstan hluta keppninnar og keyrði til sigurs, annað skiptið í röð. Halli er nú fyrsti keppandinn til að sigra fleiri en eina keppni á tímabilinu og virðist vera í fanta formi þessa dagana.


Kári náði að smeygja sér upp í 2. sætið á loka hringjunum þegar hann tók framúr Hannesi, en hann endaði í 3. sæti. Það vakti athygli að Hannes var á öðru keppnisplani en flestir aðrir og tók aðeins eitt þjónustuhlé á meðan keppendur í kringum hann tóku tvö. Hann viðurkenndi eftir keppni að líklega hafi þessi ákvörðun komið honum í koll þar sem tveggja stoppa keppnisplanið virtist vera besta leiðin í þessari keppni.

Halli tekur framúr Hannesi í ræsingu og keyrði til sigurs í 5. umferð

Þorsteinn endaði í 4. sæti og náði sér jafnframt í hraðasta hring keppninnar sem hann setti í lok keppninnar. Hann hlýtur því verðlaun frá Hafinu Fiskverslun, en þeir gefa 3.000kr gjafabréf fyrir hraðasta hring hverrar keppni í Tier 1.


Hér eru úrslit og staða að lokinni 5. umferð:

Með öðrum sigri sínum í röð er Halli farinn að narta í 1. sætið, en nú munar aðeins 3 stigum á honum á Kára, sem nær að halda í forystuna í stigakeppninni enn sem stendur. Hannes situr í 3. sætinu með 88 stig og er ekki langt undan, en þarf einnig að passa sig á Hlyn og Jóni Ægi sem eru jafnir í 4.-5. sæti með 82 stig hvor.


Í baráttunni um 8. sætið, síðasta sætið sem tryggir öruggan keppnisrétt fyrir næsta tímabil, er Jón Valdimars kominn með 10 stiga forskot á Guffa sem féll niður í 9. sæti eftir að hafa misst af keppni vikunnar.


Fyrir keppnina voru G&K Racing og Team AutoCenter jöfn í stigakeppni liða með 111 stig, en nú hefur AutoCenter tekið forystuna og er 13 stigum yfir G&K Racing. BYKO Racing Team er einnig búið að saxa á og er aðeins 7 stigum á eftir G&K, og svo TGR Iceland 7 stigum á eftir BYKO. Stigakeppni liða er því alveg galopin og gífurlega spennandi.


Framundan

Næstu keppnir verða haldnar dagana 17.-18. nóvember og verður keppt á Fuji International Speedway í Japan. Sem fyrr keppa Tier 2 og Tier 3 á GT3 keppnisbílum, en í Tier 1 er hraðasta keppni tímabilsins framundan.


Tvær "one-make" keppnir eru á keppnisdagatali Tier 1 deildarinnar, en það þýðir að allir keppendur keyra sama bílinn. Fyrri one-make keppnin verður að tveimur vikum liðnum og verður keyrt á Red Bull X2019 Competition bíl, sem er hugmyndabíll úr smiðju Red Bull og Adrian Newey. Forvitnilegt verður að sjá hvernig keppendur tækla þetta skrímsli, en hægt verður að fylgjast með því í beinni útsendingu á Stöð 2 E-Sport þann 18. nóvember!


Í millitíðinni hvetjum við áhugasama til að fylgja okkur á samfélagsmiðlum til að missa ekki af því sem er að gerast, og þá mælum við sérstaklega með því að ganga í umræðuhópinn okkar á Facebook til að fylgjast nánar með og/eða keyra með hópnum.


Við erum hér:

91 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page