top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

6. Umferð - Úrslit - Umfjöllun - Myndir

Í síðustu viku voru þrjár keppnir á dagskrá eins og vant er í keppnisviku, en komið var að 6. umferð hjá okkur í GTS Iceland. Keppnisbraut umferðarinnar var hin japanska Fuji International Speedway þar sem keppendur Tier 2 og Tier 3 keyrðu GT3 keppnisbíla, en Tier 1 keyrðu hinn einstaka Red Bull X2019 Competition.


Því miður varð heldur mikið rót á dagskránni hjá okkur í þetta skiptið, en tæknilegir erfiðleikar settu strik í reikninginn á þriðjudagskvöldinu þegar Tier 3 og Tier 2 áttu að keyra. Langvarandi vandamál með netþjóna Gran Turismo Sport í síðustu viku urðu til þess að ekki var hægt að keppa á tilsettum tíma. Til allrar lukku voru vandamálin leyst á miðvikudagskvöldinu og var því Tier 1 keppni vikunnar á sínum stað. Tier 2 keppnin var færð yfir á fimmtudagskvöldið, og Tier 3 keyrði svo ekki fyrr en í gærkvöldi, mánudagskvöldið 23. nóvember.


Þessi færsla verður í styttri kantinum að þessu sinni, en við skulum bara demba okkur beint í úrslit umferðarinnar.


Tier 3 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR

Óvenju fáir keppendur tóku þátt í seinbúinni Tier 3 keppni kvöldsins, en aðeins 9 keppnisbílar voru á ráslínu þegar grænu ljósin birtust. Af þessum 9 keppendum voru hins vegar 4 nýliðar, þeir Hilmar Veigar, Doddi, Gunnlaugur og Axel Sigurðsson. Nú hafa því samtals 22 keppendur tekið þátt í einni eða fleiri keppnum á Vetrartímabili Tier 3 deildarinnar.


Eva hélt uppteknum hætti og kom það fæstum á óvart að hún hafi sigrað þessa keppni, en hún sigraði frá ráspól og náði einnig hraðasta hring. Það var þó enginn yfirburðasigur, en Dimmi landaði 2. sætinu rúmlega 9 sekúndum á eftir henni. Ævar Diego náði 3. sætinu.


Adélio Sousa, sem enn leiðir stigakeppnina þrátt fyrir að hafa verið fjarverandi síðustu tvær keppnir, er samkvæmt okkar heimildum hættur keppni í GTS Iceland, og Ingvar, sem var hans helsti keppinautur, mun líklega ekki ná að keppa meira í Tier 3 heldur. Nú er Dimmi því farinn að finna lyktina af topp sætinu í Tier 3 deildinni. Eva hefur einnig verið á hraðri uppleið á stigatöflunni eftir að hún kom inn af fullum krafti, þannig það verður forvitnilegt að sjá hvernig síðustu tvær keppnir fara.


Tier 2 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR (bara streymi, engin lýsing)

Eins og sjá má heldur Óttar uppteknum hætti og sigrar hér sína 4. keppni í röð. Ásgeir, hans helsti keppinautur, sat hjá í þessari umferð og er Óttar nú kominn með mjög þægilega stöðu á toppi deildarinnar. Daníel keyrði fantagóða keppni og nældi sér í 2. sætið sem var jafnframt hans fyrsta keppni á verðlaunapalli í GTS Iceland! Virkilega vel gert og góð stig fyrir keppnislið hans og Birgis, Individual Racing. Arnar í Team TRB náði 3. sætinu, en hann lauk keppni í 2. sæti, en sökum tímarefsingar fyrir að fara yfir brautarmörk féll hann niður um eitt sæti.


Í liðakeppninni hefur Team TRB náð forystunni af SS Racing, en hið síðarnefnda hefur verið í forystu liðakeppninnar frá fyrstu keppni. Ekki munar nema einu stigi á milli liðana og baráttan aldrei verið harðari.


Tier 1 (um deildina)

- Horfðu á keppnina HÉR

Keppendur í Tier 1 keyrðu um á Red Bull X2019 Competition bílnum, en þetta var fyrir vikið hraðasta keppni tímabilsins. Kári nældi sér í sigur #2 á tímabilinu og virtist aldrei í hættu. Hann og Halli eru nú þeir tveir keppendur sem hafa sigrað fleiri en eina keppni á tímabilinu. Guffi, liðsfélagi Kára hjá G&K Racing, náði 2. sætinu. Þetta er í annað skipti sem keppnislið nær 1-2 úrslitum í sögu GTS Iceland, en TGR Iceland, þá Yota Hachi Racing Team, náði þeim áfanga á síðasta keppnistímabili. Jafnframt var þetta fyrsta keppni Guffa á verðlaunapalli á tímabilinu, þannig það var vitanlega kátt á hjalla í herbúðum G&K Racing að lokinni keppni. Í þriðja sæti endaði Hannes hjá TGR Iceland, ekki nema 2.4 sekúndum á eftir Guffa.


Eftir að hafa farið frá þessari keppni með fullt hús stiga er G&K Racing aftur komið á toppinn í stigakeppni liða, en Halli, sem vanalega má finna á verðlaunapalli, var ekki upp á sitt besta og endaði í 9. sæti, sem eru hans verstu úrslit á tímabilinu. Liðsfélagi hans, Skúli Þór, náði þó í góð stig fyrir liðið og endaði í 4. sæti, sem jafnar hans bestu frammistöðu í GTS Iceland.


Næst verður keppt á Mount Panorama Motor Racing Circuit, betur þekkt sem Bathurst, og munu allar þrjár deildir keyra GT3 bíla.


Við erum hér:

98 views0 comments

Commentaires


bottom of page