top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

6. Umferð: Úrslit-Umfjöllun-Myndir

Í boði AutoCenter og Tasty fór 6. umferð GTS Iceland fram í gærkvöldi og var keyrt á Circuit de Barcelona-Catalunya GP á Spáni. Tier 2 keppendur keyrðu Aston Martin Vantage Gr.4 og keppendur í Tier 1 keyrðu Gr.3 keppnisbíla.


Það var óvenju mikið um forföll keppenda í gærkvöldi, en keppnirnar voru þær fámennustu hingað til í báðum deildum. Aðeins 6 keppendur öttu kappi í Tier 2, og ekki nema 9 ökuþórar í Tier 1. En það kom þó ekki að sök og var hin fínasta kappakstursveisla á dagskrá í gær.


Tier 2 byrjaði kl. 19:00 sem og áður, með 10 mínútna tímatökum. Eftir að hafa átt í vandræðum í síðustu keppni, þá var Þorsteinn (rabufans) aftur kominn í fluggírinn og náði ráspól, leiddi keppnina frá fyrsta hring og átti einnig hraðasta hring í keppni. Ásgeir (SkeiriGB) kom í mark annar, en þeir tveir sigldu mest megnis auðan sjó alla keppnina. Baráttan var hinsvegar um 3.-5. sætið, þar sem Sævar Már (saevar_mar) og Veigar (Veigardinho) voru lengi vel í mikilli baráttu. Veigar pressaði hart á Sævar, sem lét það ekki á sig fá, heldur keyrði af miklu öryggi og landaði 3. sætinu. Í lok keppninnar var Hinrik (Bossalingur) farinn að blanda sér í baráttuna, en hann náði 4. sætinu þar sem Veigar nældi sér í tímarefsingu fyrir að fara út fyrir brautarmörk og varð til þess að hann endaði í 5. sæti, þrátt fyrir að hafa farið yfir endalínu í 4. sæti.


GTS Iceland eignaðist nýjan þáttakanda í þessari keppni, en hann Aron Máni (LilAron04) tók þátt í sinni fyrstu keppni í gær. Aron er ekki bara nýjasti meðlimur GTS Iceland, heldur er hann einnig sá yngsti, en kappinn er ekki nema 15 ára gamall. Hann stóð sig með prýði þó hann hafi ekki alveg náð að halda í þann tíma sem hann var að setja á æfingum fyrir keppnisdag, en nældi sér í stig og mikilvæga reynslu á brautinni. Það verður gaman að fylgjast með honum vaxa og dafna í hópnum.


Tier 2 keppninni var streymt og lýst í beinni útsendingu á YouTube, en fyrir áhugasama má nálgast upptökuna HÉR.


Hér eru úrslit tímatöku og keppni í Tier 2, ásamt stöðu í stigakeppni ökumanna að lokinni 6. umferð. Athugið að í lok tímabils þá gilda 7 bestu úrslit úr 9 keppnum til stiga, en ekki er búið að draga frá nein úrslit í þessum tölum.Þorsteinn er með örugga forystu í 1. sæti, en eins og sjá má er gífurlega hörð barátta um næstu sæti fyrir neðan!

Tier 1 fór af stað síðar um kvöldið, en þar hófust 15 mínútna tímatökur kl. 21:45. Sem fyrr segir var nokkuð um forföll, en aðeins 9 keppendur af 16 tóku þátt þetta kvöldið.


Guffi (Guffaluff) náði ráspól og virtist vera á góðum pace fyrir keppni. Hannes (Hanzo_GTs) ræsti annar og Kári (KariS10_97) þriðji og þurfti Guffi að hafa sig allan við að halda þeim fyrir aftan sig. Það gekk ekki lengi en Hannes tók 1. sætið á 3. hring eftir harða baráttu og Kári, ásamt restinni af hópnum, sigldu svo framhjá á 6. hring þegar Guffi endaði utan brautar.


Hannes keyrði 100% alla keppnina og keyrði til sigurs, ásamt því að landa hraðasta hring í keppninni. Nokkuð var um mistök meðal keppenda, ásamt því að eitt atvik endaði á borði dómnefndar eftir keppni. Niðurstaða dómara var sú að ekki þótti ástæða til þess að beita neinum refsingum og var atvikið kallað "Racing Incident" eins og við segjum á slæmri íslensku.


Hér má sjá úrslit og stöðu í stigakeppni ökumanna og liða í Tier 1, að lokinni 6. umferð. Hafa ber í huga að í lok tímabils þá gilda 15 bestu úrslit af 19 keppnum til stiga, en ekki er búið að draga frá nein úrslit í þessum tölum.

Eins og sjá má eru Hannes, Kári og Halli búnir að skilja sig aðeins frá næstu mönnum í stigakeppninni eins og staðan er núna. En það eru góðar 13 keppnir eftir, þannig við erum nú bara rétt að byrja og það er allt opið ennþá.


Tasty verðlaun 6. umferðar hljóta þeir Þorsteinn og Hannes fyrir að eiga hröðustu hringi í keppni, en þeir hljóta að launum sitt hvort gjafabréfið frá Tasty, upp á máltíð fyrir tvo. Ekki slæmt það!


Næsta keppni fer fram að tveimur vikum liðnum, þann 4. desember, en það verður næst síðasta keppnin fyrir jólafrí. Braut 7. umferðar er Nürburgring GP.


Að vanda hvet ég ykkur til að fylgja okkur á samfélagsmiðlum, en þið finnið okkur hér:Tier 2 keppnirnar eru opnar öllum, þannig við hvetjum alla áhugasama til að ganga í umræðuhópinn okkar á Facebook, en þar er hægt að skrá sig í keppnir og fylgjast náið með gangi mála.


63 views0 comments

Comments


bottom of page