Síðastliðinn miðvikudag, þann 15. janúar, hófst GTS Iceland, íslenska mótaröðin í Gran Turismo Sport, á nýjan leik. Eftir mánaðarfrí yfrir hátíðarnar var kominn tími til að hendast aftur út á braut og keyra. Keppnisbraut 9. umferðar var hin sögufræga Circuit de La Sarthe, betur þekkt sem Le Mans. Að venju er keppnin í boði styrktaraðila deildarinnar, AutoCenter og Tasty. Hlekki á myndaalbúm frá keppnunum má finna neðst í færslunni.
Við byrjum á Tier 2. Keppnin var að venju sýnd í beinni útsendingu á YouTube rás GTS Iceland, en upptöku má finna HÉR. Því miður gátum við ekki boðið upp beina lýsingu í þessari keppni, en við pössuðum upp á að sýna frá helsta actioninu hverju sinni.
Eins og áður hefur komið fram þá skiptist Tier 2 deildin í tvö keppnistímabil, Vetrar- og Vortímabil, á meðan Tier 1 keyrir eitt langt tímabil. Þessi keppni markaði lok Vetrartímabils Tier 2 og var hún með aðeins öðru sniði en vant er. Hingað til hafa Tier 2 ökumenn keppt í One-Make keppnum á bílum í Gr.4 flokki, sem samsvarar GT4 flokk raunveruleikans, en í þessari lokaumferð var breytt til og keyrðu menn á Gr.3 bílum og var frjálst bílaval.
Það var Hlynur (MrPakkinn) sem náði ráspól, sem hann tók af Óttari (TarriJohns) í síðasta tímatökuhring. Í fyrri helming keppninnar var mikil barátta milli Hlyns og Óttars, en þeir voru fljótir að skilja sig frá hinum og börðust hart. Um miðbik keppninnar tók Óttar pitstop til að fá fersk dekk og ábót á bensínið. Á þeim tímapunkti leiddi hann keppnina, en við stoppið tók Hlynur fyrsta sætið. Hlynur var á öðru keppnisplani en hann tók ekkert pitstop og það varð til þess að hann hélt forystu frá þessum tímapunkti og út keppnina og rúllaði nokkuð öruggur í mark í 1. sæti. Keppnisplan Óttars gekk ekki alveg upp eins og hann hefði vonað, en endaði þó í Topp 3 í 3. sæti. Hann náði einnig hraðasta hring í keppninni og hlýtur því Tasty verðlaun 9. umferðar, en hann fær að launum gjafabréf frá Tasty upp á máltíð fyrir tvo.
Ásgeir (SkeiriGB), Eva (Nasty_Supergirl) og Þorsteinn (rabufans) voru á tímabili í nokkurri baráttu, en þar spilaði einnig mismunandi keppnisplön ökumanna inn í. Eva, rétt eins og Hlynur, keyrði alla keppnina án þess að taka pitstop, á meðan Ásgeir og Þorsteinn tóku stopp um miðja keppni. Eftir pitstoppin var Eva því í 2. sæti, en eftir því sem leið á keppnina náði Óttar að fikra sig nær, og ekki munaði nema rétt um 1sek á milli þeirra í 2. og 3. sæti.
Hér eru úrslit tímatöku og keppni í Tier 2:
Nú þegar Vetrartímabili er lokið þá skulum við skoða lokastöðu í stigakeppni ökumanna:
Af þeim 9 keppnum sem keyrðar voru á Vetrartímabilinu þá gilda 7 bestu úrslit hvers og eins til úrslita. Græni dálkurinn "Gild Stig" eru þau stig sem gilda eftir að tvær verstu keppnir hvers og eins hafa verið dregnar frá.
Eins og var vitað þá var Þorsteinn þegar búinn að tryggja sér heildarsigur fyrir þessa keppni en nú er hann formlega orðinn meistari Vetrartímabils Tier 2 og hefur með því tryggt sér keppnisrétt í Tier 1 á næsta keppnistímabili (Haust 2020) hafi hann hug á því. Hann mun þó taka forskot á sæluna, því hann mun byrja að keyra í Tier 1 strax í næstu umferð, en hann fyllir í skarðið eftir að Snorri dró sig í hlé úr Tier 1.
Ásgeir, Óttar, Veigar og Sævar Már höfðu í gegnum tímabilið verið í nokkuð harðri baráttu um 2.-5. sætið í stigakeppninni, en það var Ásgeir sem hafði betur á endanum. Óttar tekur 3. sætið, Veigar 4. sæti og Sævar Már 5. sæti. Verðlaunagripir fyrir 1.-3. sætið á Vetrartímabilinu verða afhentir á lokahófi GTS Iceland í lok keppnistímabils í vor.
Eins og sjá má á stigatöflunni þá var ansi mjótt á munum og verður virkilega spennandi að sjá hvernig Vortímabilið fer af stað, en það hefst eftir tæpar tvær vikur, þann 29. janúar. Keppnisdagatal má sjá HÉR. Vortímabilið er með svipuðu sniði og Vetrartímabilið, en það verða 10 keppnir, og munu 8 bestu úrslit hvers og eins gilda til stiga í lok tímabilsins. Tveir keppendur komu inn á seinnipart tímabils, Hlynur og Eva, og sýndu þau virkilega góða takta. Eva tók þátt í þremur keppnum og Hlynur í tveimur, en þau enduði bæði allar sýnar keppnir í Topp 3, og nældi Hlynur sér í sigur í lokakeppninni sem fyrr segir. Ef þau halda áfram þáttöku á Vortímabilinu er ljóst að baráttan í Tier 2 verður gífurlega hörð og spennandi, en rétt eins og á Vetrartímabili, þá mun sigurvegari Vortímabils tryggja sér keppnisrétt í Tier 1 á næsta tímabili. Vonandi sjáum við sem flesta ökumenn snúa aftur.
Tier 1 fór af stað síðar um kvöldið, en sú keppni var einnig með öðru sniði en vanalega. Um var að ræða fyrstu Gr.1 (LMP1) keppni tímabilsins og keyrðu keppendur í 2 klst þolakstri. Hér reyndi því ekki bara á hraða, heldur reynir sérlega mikið á að halda einbeitingu, en það er meira en að segja það að keyra í 2 klst samfellt án þess að gera mistök.
Keppnin gekk þó mjög vel og var að stórum hluta tíðindalítil, en það var á fyrstu hringjum þar sem mest var um að vera. Kári (KariS10_97) tók ráspól, með Jón Ægi (crackdup23) á eftir sér. Í upphafi hundelti Jón hann Kára, en Kári náði að slíta sig frá eftir nokkra hringi. Sigurinn virtist aldrei vera í hættu og hann sigldi nokkuð öruggt í mark í 1. sæti, og með hraðasta hring. Þetta er því þriðja keppnin í röð sem Kári gengur frá borði með fullt hús stiga, en fyrir hraðasta hring fæst 1 stig og Tasty verðlaunin, en Tasty gefa gjafabréf upp á máltíð fyrir tvo fyrir hraðasta hring í keppni.
Á meðan voru Guffi (Guffaluff) og Hannes (Hanzo_GTs) í baráttu í 3. og 4. sætinu, og eftir að Kári sleit sig frá og náði öruggri forystu í 1. sæti þá blandaðist Jón Ægir í þá baráttu sem varð þá um 2.-4. sætið. Á endanum urðu mistök hjá Hannesi og Jóni til þess að Guffi náði að hreppa 2. sætið, sem hann hélt til loka. Hannes endaði í 3. sæti og Jón Ægir í 4. sæti.
Einn nýr keppandi í Tier 1 tók þátt í þessari keppni. Eyjó (EyjoJons) þurfti því miður nýlega að draga sig í hlé frá kappakstri í bili, og var það Sævar Helgi (saevarhelgi) úr TIer 2 sem fyllti í skarðið og er því nýjasti keppandi Tier 1. Þetta gerðist ekki fyrr en 2 dögum fyrir keppni og var því á brattan að sækja fyrir hann. Því miður lauk hann ekki keppni, en sýndi fína takta á brautinni.
Hér eru úrslit tímatöku og keppni í Tier 1:
Eins og sjá má þá voru nokkuð margir keppendur sem tóku ekki þátt að þessu sinni, en aðeins 10 af 16 keppendum voru mættir á ráslínu. Tveir keppendur luku ekki keppni, þeir Sævar og Kristinn (KMW90), en Kristinn þurfti því miður frá að hverfa mjög snemma í keppninni vegna tæknilegra vandamála.
Að lokinni 9. umferð er staðan í stigakeppni ökumanna og liða svona:
Eins og sjá má í stigakeppni ökumanna þá er barátta nánast allstaðar í stigatöflunni. Kári, Hannes og Halli (halli000) eru búnir að skilja sig svolítið frá öðrum keppendum og eru í baráttunni um 1.-3. sætið. Guffi og Jón Ægir eru svo í slagnum um 4.-5. sætið. Skúli (skuli1989), Kjartan (kjassi) og Jón Valdimars (GT--iceman) eru að slást um 6.-8. sætið. Svo eru Valdimar (ValdimarOrn), Sindri (Doxzie) og Bragi (Bragi_IS) í slagnum um 10.-12. sætið. Sú barátta eru vissulega áhugaverð þar sem efstu 10 menn í lok tímabilsins eru með öruggan keppnisrétt fyrir næsta tímabil. Það er því til mikils að vinna ef menn ætla sér að vera með næst og vilja ekki þurfa að fara í gegnum Tier 1 tímatökuna í aðdraganda næsta tímabils.
Í stigakeppni liða er það Team AutoCenter sem trjónir á toppnum, með Yota-Hachi Racing Team á hælunum, og svo Team M.I.K.A. ekki svo langt undan heldur. Eins og glöggir taka kannski eftir þá er keppnisliðið Brothers in Arms Racing Team ekki lengur á lista, en það var lið bræðranna Guffa og Snorra. Eins og tilkynnt var um fyrir nokkru þá ákvað Snorri að hætta keppni, en Guffi hefur nú ákveðið að leggja liðið á hilluna að sinni og keyrir nú ekki í liði.
Þegar stigatöflurnar eru skoðaðar þá ber að hafa í huga að það er nóg eftir af keppnistímabilinu, en það er ekki nema rétt tæplega hálfnað. Við höfum farið í gegnum 9 keppnir af 19, og því eru meira en nóg af stigum eftir í pottinum til að hrista upp í stöðunni, bæði milli ökumanna og liða. Einnig þarf að hugsa til þess að í lok tímabils, að loknum 19 keppnum, þá verða það 15 bestu úrslit hvers ökumanns sem gilda til stiga. Í þessum stigatöflum er ekki byrjað að draga frá verstu úrslit þannig við sjáum ekki alveg 100% rétta mynd af stöðunni eins og er.
Í 10. umferð GTS Iceland sem fer fram 29. janúar verður keyrt á Circuit de Spa-Francorchamps. Tier 1 ökumenn munu keyra Gr.3 bíla á meðan Tier 2 keyra Citroën GT Gr.4.
Ég mæli hiklaust með að fylgja okkur á samfélagsmiðlum til að fylgjast með gangi mála, og það eru allir velkomnir í umræðuhópinn á Facebook ef þið viljið fylgjast enn nánar með og/eða keyra eitthvað með okkur, hvort sem það er í deildarkeppnum eða óformlegum "Off-Season" akstri.
Við erum hér:
Myndir frá actioni vikunnar:
Comments