Bílaáhugamenn hafa eflaust ekki farið varhuga af því að GR Yaris bifreið Toyota fór í framleiðslu nýverið, en bíllinn hefur verið mjög áberandi meðal bílabloggara, á YouTube og víðsvegar á netinu. Almennt hafa viðtökurnar verið góðar en um er að ræða ansi sprækan bíl. "Performance" útgáfan er um 270 hestöfl, fjórhjóladrifinn og vegur ekki nema tæplega 1.300kg. Það dugar honum frá 0-100kmh á rétt rúmum 5 sekúndum og hann nær um 230kmh hámarkshraða. Þetta er því talsvart annað tæki heldur en þeir Yarisar sem við erum vön að sjá á götunum.
Bíllinn lenti einnig nýverið í Gran Turismo Sport með síðustu uppfærslu á leiknum og fyrir vikið ákvað GTS Iceland og Toyota á Íslandi að slá höndum saman og halda smá mót. Mótið fer fram næstkomandi sunnudagskvöld, þann 29. nóvember, kl. 21:30. Um er að ræða þrjár keppnir þar sem heildarstigafjöldi sker úr um úrslitin, og auðvitað keyra allir keppendur á Toyota GR Yaris.
Keppnin verður sýnd í beinni útsendingu á YouTube rás GTS Iceland og mun undirritaður (Guffi) sjá um útsendinguna ásamt Kristjáni Einari, fyrrverandi kappaksturskempu og einum aðalmanninum í útsendingum Vodafone Deildarinnar í rafíþróttum. Kristján sinnir einnig hlutverki dómara í deildarkeppnum GTS Iceland þegar upp koma kærumál.
Toyota á Íslandi veita vegleg verðlaun fyrir efstu þrjú sætin í mótinu og er heildarverðmæti um kr. 70.000. Þegar þetta er skrifað eru ennþá 6 pláss laus í GR Yaris mótið og geta áhugasamir skráð sig HÉR. Þeir sem ætla að taka þátt eru vinsamlegast beðnir um að lesa vel yfir allar upplýsingar sem finna má í linknum á undan og ganga svo í umræðuhóp GTS Iceland á Facebook.
Komentáře