top of page
Writer's pictureGTS Iceland

Hvað er GTS Iceland - stutt kynning

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að heimsbyggðin er að upplifa skrítna tíma þessa dagana. COVID-19 hefur heldur betur sett daglegt líf okkar flestra í heilmikið uppnám og er fólk nú hvatt til þess að halda sig heima fyrir eins mikið og mögulegt er og nýta internetið til samskipta við ættingja og vini.


Tölvuleikir geta hér spilað stórt hlutverk fyrir þá sem eru þannig þenkjandi, en flestir leikir í dag styðja fjölspilun yfir netið. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur meira að segja formlega mælt með netspilun tölvuleikja sem góðum valkosti til að sinna félagslegum tengslum og hafa leikjaþjónustur á borð við t.d. PSN (PlayStation Network) fundið fyrir gífurlegri aukningu á umferð um netþjóna sína. Sem algjörlega hlutdrægur aðili þá ætti það ekki að koma neinum á óvart að ég mæli 100% með því að iðka eKappakstur með okkur í GTS Iceland í inniverunni.


Hvað þarf til?

Þú þarft ekki að fjárfesta í dýrum græjum og/eða vera einhver Schumacher á brautinni til þess að eiga erindi í hópinn okkar. Hér eru allir velkomnir. Það eina sem þú þarft er PlayStation 4 leikjatölva og Gran Turismo Sport leikurinn, sem kostar þig eitthvað í kringum kr. 3.000 +/-. En þú spyrð eflaust, þarf ég stýri og pedala til að vera samkeppnishæfur? Vissulega er skemmtilegt að njóta leiksins með stýri og pedölum og ýmsir kostir sem því fylgja, en það er ekkert því til fyrirstöðu að nota bara stýripinnan ef þú tímir ekki að splæsa í græjur, eða einfaldlega hefur ekki plássið/aðstöðuna til þess. Svo þarftu bara að ganga í Facebook Umræðuhópinn okkar, en þar eru keppnir auglýstar og hægt að smala fólki saman í akstur.


Deildarkeppnir

Formlegir keppnisdagar GTS Iceland eru annað hvert miðvikudagskvöld og er keyrt í tveimur deildum: Tier 1 og Tier 2. Tier 1 er lokuð deild þar sem keppendahópurinn er ákveðinn fyrir upphaf tímabils. Þar geta einungis skráðir keppendur tekið þátt og ekki er hægt að ganga inn í þá deild eftir að keppnistímabilið hefst nema ef einhver keppandi dragi sig úr deildinni. Þá er farið eftir settum reglum sem eru til staðar þegar nýr keppandi er fenginn til að fylla í skarðið. Það má segja að Tier 1 deildin sé fyrir lengra komna, en keppnirnar eru langar og krefjandi þar sem þú þarft almennt að leggja mikið á þig í undirbúningi og æfingum til þess að ná góðum árangri.


Keppnir Tier 2 deildarinnar eru aftur á móti opnar öllum þeim sem ekki eru skráðir keppendur í Tier 1. Deildin var sett á laggirnar haustið 2019, samhliða þriðja keppnistímabili GTS Iceland, til þess að anna eftirspurn. Keppnis"formattið" í Tier 1 hentar ekki öllum og er kannski ekki sérlega nýliðavænt. Tier 2 var því sett af stað, meðal annars fyrir:


- Nýja keppendur

- Keppendur sem ekki náðu keppnisrétti í Tier 1

- Keppendur sem hafa ekki tíma eða löngun í þá skuldbindingu sem Tier 1 krefst


Keppnirnar eru styttri, u.þ.b. 25-30mín "sprint race" þar sem ekki þarf að huga að neinu keppnisplani. Bílarnir sem notaðir eru í Tier 2 eru almennt úr Gr.4 flokk leiksins, en hann er nokkuð sambærilegur GT4 keppnisflokknum í raunveruleikanum. Allar keppnirnar eru "one-make", sem þýðir að allir keyra samskonar bíl með sömu uppsetningu, með stöku undantekningum.


Einnig eru tímabilin styttri. Tier 1 keyra 19 keppna tímabil sem spannar 9 mánuði, frá hausti fram á vor, en á sama tíma eru keyrð tvö keppnistímabil í Tier 2: Vetrartímabil og Vortímabil. Það er smá gulrót, en sigurvegarar hvors tímabils í Tier 2 hljóta öruggan keppnisrétt í Tier 1 tímabilið eftir, hafi viðkomandi áhuga á því.


Off-Season / Óformlegar keppnir

Utan skipulagðra keppna í mótaröðinni þá eru af og til haldnar svokallaðar "off-season" keppnir. Það eru keppnir/mót sem eru alveg óháð Tier1/Tier 2 og eru opin öllum. Stundum eru þetta bara casual lobby þar sem fólk mætir og við keyrum alls kyns styttri keppnir, en einnig hafa verið haldin stutt mót sem vara eina kvöldstund. Yfirleitt eru þessi lobby skipulögð af undirrituðum, en ég vek athygli á því að hverjum sem er er velkomið að pósta í áðurnefndan Facebook hóp til að reyna að smala fólki út á braut í kappakstur. Þegar þetta er skrifað þá telur hópurinn rétt tæplega 200 manns, og þó vissulega séu sumir þarna bara til að fylgjast með, þá er góður fjöldi af virkum spilurum þarna inni. Það eru því þokkalegar líkur á því að ná einhverjum út á braut í smá akstur.



Þetta var hugsað sem stutt kynning á því hvað við í GTS Iceland erum að bralla og ég hvet alla áhugasama til þess að ganga í Facebook hópinn, hvort sem það sé einfaldlega bara til að fylgjast með, eða til þess að keyra eitthvað með okkur. Ef þú hefur spurnigar þá getur þú sent okkur skilaboð á Facebook, eða tölvupóst á gtsiceland@gmail.com.


Við erum hér:

63 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page