Keppnisdagur 25. Sept - Úrslit, umfjöllun og myndir
- GTS Iceland
- Sep 26, 2019
- 2 min read
Annar keppnisdagur GTS Iceland var í gærkvöldi, miðvikudaginn 25. september, en keyrt er í tveimur deildum í ár, Tier 1 og Tier 2. Keppnisbraut kvöldsins var japanska brautin Suzuka Circuit.
Tier 2 fór fyrst af stað, en kl. 20:00 hófust 10 mínútna tímatökur og svo 14 hringja keppni beint í kjölfarið. Eins og þeir sem þekkja til vita, þá eru allar Tier 2 keppnirnar það sem kallast "One-make" keppnir, en það þýðir að allir keppendur keyra á sama bíl, eins uppsettum. Bíll kvöldsins var Ferrari 458 Italia Gr.4.
Það var hann Þorsteinn sem endurtók leikinn frá því síðast og vann yfirburða sigur. Hann náði ráspól og leiddi keppnina hvern einasta hring. Einnig er hann handhafi Tasty verðlauna kvöldsins fyrir hraðasta hring í keppni. Fyrir vikið fær hann gjafabréf upp á máltíð fyrir tvo hjá Tasty!
Hægt er að horfa á útsendingu frá keppninni sem var streymt í beinni HÉR. Keppninni var ekki lýst að þessu sinni, en von er á breytingu þar á fyrir næstu keppni að tveimur viknum liðnum. Myndaalbúm frá keppninni er svo neðst í færslunni.
Úrslit gærkvöldsins í Tier 2:


Þá var kominn tími fyrir ökuþóra í Tier 1 að stíga á svið, en þar voru keyrðir Gr.2 bílar. Gr.2 bílar í Gran Turismo Sport eru bílar sem tilheyra SuperGT flokk í raunveruleikanum.
Kári, meðlimur keppnisliðsins Team M.I.K.A., tók sig til og lék svipaðan leik og Þorsteinn í Tier 2, en hann náði ráspól og hreppti sigur í keppninni. Samkeppnin var hörð, en efstu þrír skildu sig vel að eins og sjá má á úrslitum hér að neðan. Hannes aftur á móti endurtók leikinn frá því síðast og endaði með hraðasta hring í keppni, og er því handhafi Tasty verðlauna kvöldsins í Tier 1 !
Þetta var kærkominn sigur hjá Kára, en vegna tæknilegra vandamála gat hann ekki verið með í fyrstu keppni. Hann hefur sýnt mikinn hraða á æfingum og er til alls líklegur á þessu tímabili, það eitt er ljóst. Hann var að vonum ánægður með sigurinn og hafði þetta að segja í umræðuhóp deildarinnar á Facebook:
"Takk fyrir race-ið, þetta var skemmtileg keppni. Markmiðið hjá mér var eiginlega bara sigur eftir leiðinda DNS (did not start) í seinustu keppni. Það byrjaði vel með að ná ráspól. Planið var að taka 4 stoppa soft-soft-soft-soft en breytti því í 3 stopp í miðri keppni. Gerði engin mistök sem var mikilvægt. Mjög sáttur með sigurinn en þetta var hörku keppni, bíð spenntur eftir næstu."
Hér má sjá úrslit gærkvöldsins í Tier 1, ásamt stöðu í stigakeppni:



Næsta keppni er á dagskrá miðvikudagskvöldið 9. október, en keppt verður á Monza. Tier 1 keppendur munu keyra Gr.3 bíla, sem samsvara GT3/GTE í raunveruleikanum, og Tier 2 keppendur keyra um á Lexus RC F Gr.4 bíl.
Minni sem fyrr á að smella like-i á Facebook Page deildarinnar til að missa ekki af nýjustu fréttum, og einnig að ganga í Facebook umræðuhóp deildarinnar ef þið hafið áhuga á að fylgjast enn nánar með, og jafnvel keyra eitthvað með hópnum.
Comments