top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

Lokaumferð GTS Iceland: Úrslit, Umfjöllun og Framhaldið

Íslenska mótaröðin í Gran Turismo Sport er nú komin í sumarfrí, en lokaumferð keppnistímabilsins fór fram í gærkvöldi. Að venju var dagskráin í boði AutoCenter og Tasty, sem eru styrktaraðilar deildarinnar.


Líkt og á fyrri tímabilum þá er endað með stæl á hinni sögufrægu Nürburgring keppnisbraut í Þýskalandi. Á fyrsta og öðru tímabili var keyrt á upprunalegu Nordschleife, en í ár var keyrt á 24H útgáfu brautarinnar, en þar er búið að samtvinna Nordschleife og GP brautinni saman í eina epíska braut sem er u.þ.b. 25 kílómetrar að lengd. Tier 1 keyrði eins og áður 2 klukkustunda þolakstur á keppnisbílum í Gr.3 flokki, en Tier 2 keyrðu 4 hringi, einnig á Gr.3 bílum.


Tier 2

Það var allt í húfi í Tier 2, en baráttan um efst þrjú sætin var galopin fyrir þessa keppni. Það voru þau Eva og Hlynur sem voru að bítast um titilinn, og svo Ásgeir og Vilhjálmur sem slóust um 3. sætið. Því miður voru einhver tæknileg vandamál í gangi á milli PlayStation og YouTube, og því var keppninni ekki streymt á rás GTS Iceland eins og vanalega. Streymi fór þó fram á Twitch, en vegna rangra stillinga er það ekki aðgengilegt eftir á.


Hlynur náði ráspól, en Eva var ekki langt undan, aðeins hálfri sekúndu á eftir, sem er virkilega lítill munur þegar hver hringur er rúmar 8 mínútur að lengd. Vilhjálmur náði 3. besta tíma. Eva og Hlynur voru ansi þétt saman til að byrja með, en Hlynur nær svo að slíta sig aðeins frá og keyrir örugglega til sigurs í þessari keppni, og fyrir vikið tryggði hann sér meistaratitil Tier 2 á Vortímabili! Við óskum Hlyn innilega til hamingju með árangurinn, en þetta þýðir að hann er með öruggan keppnisrétt í Tier 1 þegar næsta keppnistímabil hefst í haust, og ég hef fengið það staðfest hjá honum að hann ætlar sér að sjálfsögðu að nýta sér það og keyra í Tier 1. Hlynur er ekki ókunnugur því, en hann var einn af stofnmeðlimum GTS Icelands og keyrði í Tier 1 á fyrsta tímabili og hluta af öðru tímabili, áður en hann dró sig í hlé. Það verður gaman að sjá hann mæta aftur í efstu deild og gera atlögu að efstu mönnum þar.


Einnig óskum við Evu til hamingju með 2. sætið, en það hefur verið algjör unun að fylgjast með þeim tveimur berjast allt tímabilið. Þó Eva hafi ekki náð að tryggja sér Tier 1 keppnisrétt, þá gerum við vissulega ráð fyrir því að hún láti reyna á tímatökurnar sem verða seinna í sumar þar sem slegist er um laus sæti í Tier 1 deildinni. Meira um það í sumar þegar nær dregur.


Spennan í baráttunni um 3. sætið milli Ásgeirs og Villa var því miður ekki mikil í þessari keppni. Ásgeir átti ekki góðu gengi að fagna í tímatökunni, sem einnig fylgdi honum í keppnina og átti hann aldrei sjéns í að ná í skottið á Villa í keppninni. Villi stígur því á síðasta þrepið á verðlaunapallinum og hreppir bronsið á Vortímabilinu!


Hér má sjá úrslit keppninnar, ásamt lokastöðu í stigakeppninni á Vortímabili:

Eins og sjá má þá var keppendafjöldinn stór á Vortímabilinu, en í heildina tóku 24 keppendur þátt í keppnum yfir tímabilið sem er bara geggjað og algjörlega frábært að sjá áhugann vaxa.


Tier 1

Erfitt verkefni beið keppenda í Tier 1, en það var sem fyrr segir 2 klukkustunda þolaksturskeppni á braut sem er að margra mati ein sú mest krefjandi sem til er. Hér skipti máli að halda sönsum og keyra af öryggi, því það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar að klessukeyra bílinn á svona löngum hring og þurfa að haltra í pittinn. Stór hluti keppanda fékk að finna fyrir því á einhverjum tímapunkti keppninnar.


Daníel og Birgir, keppendur í Tier 2, héldu uppteknum hætti og streymdu og lýstu Tier 1 keppninni á YouTube rás GTS Iceland. Sigurvegari Tier 2, Hlynur Már, var gestur hjá þeim í lýsendaboxinu, en vegna vandamála með stillingar heyrist því miður lítið sem ekkert í honum.


Það var Jón Ægir sem hafði best í tímatökunum og nældi sér í ráspól. Kári var með 2. besta tíma og Þorsteinn 3. besta. Keppnin fór þokkalega af stað en nokkuð var um sviptingar, enda ekki von á öðru í svona langri keppni á Nürburgring. Þrír keppendur luku ekki keppni, þeir Sindri, Ingimagn og Sævar, en það var alveg viðbúið að Slaufan myndi ná sér í einhver fórnarlömb.


Hér eru úrslit keppninnar ásamt lokastöðu í stigakeppni ökumanna og liða:

Það var ekki mikil spenna í loftinu fyrir þessa keppni þegar kemur að stigatöflunni, en efstu þrjú sætin voru þegar ráðin. Helsta spennan var slagurinn um 10. sætið, sem er síðasta sætið sem gefur öruggan keppnisrétt í Tier 1 á næsta tímabili, en þar voru það Kjartan og Kristinn sem öttu kappi. En sú barátta varð að engu þar sem Kristinn sá sér ekki fært að taka þátt í lokakeppninni og því ljóst að Kjartan var öruggur með 10. sætið.


Það urðu engar breytingar á töflunni frá síðustu keppni og eru þetta lokaniðurstöður. GTS Iceland óskar Kára Stein innilega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn í Gran Turismo Sport! AutoCenter veitir vegleg verðlaun fyrir efstu þrjú sætin í Tier 1, og fyrir 1. sætið hlítur Kári Nano Ceramic meðferð á fólksbíl/jeppling að verðmæti u.þ.b. kr. 150.000, ásamt verðlaunagrip. Ekki eru það verðlaun af verri endanum.


Hannes nælir sér í 2. sætið og fær að launum alþrif + djúphreinsun á fólksbíl/jeppling ásamt verðlaunagrip. Það var svo hann Halli sem læsti sér 3. sætinu og fær að launum alþrif á fólksbíl/jeppling ásamt verðlaunagrip.


Í Tier 1 eru einnig veitt aukaverðlaun í formi medalía fyrir flesta hröðustu hringi og ráspóla á tímabilinu. Titilinn "QF Expert" hlítur hann Kári fyrir að vera með flesta ráspóla á tímabilinu, 11 talsins í 19 keppnum! Hannes náði að tryggja sér titilinn "Hotlapper" með því að ná hraðasta hring í lokaumferðinni og endaði því tímabilið efstur í þeirri tölfræði, með 9 hröðustu hringi.


Í stigakeppni liða var það Yota-Hachi Racing Team, með þá Valdimar og Hannes innanborðs, sem hreppti sigur með 460 stig. Team AutoCenter (Halli og Skúli) endaði í 2. sæti með 412 stig og Team M.I.K.A. (Kári og Ingimagn) rak lestina með 376 stig. Liðakeppnin varð fámennari eftir því sem leið á tímabilið, en tvö lið leystust upp á tímabilinu og því endar tímabilið aðeins með 3 virk lið.


Innilegar haminguóskir keppendur og keppnislið með árangurinn! Verðlaunaafhending verður á lokahófi GTS Iceland sem verður eftir rúma viku þar sem tímabilinu verður endanlega slaufað.


Framundan

Þó að köflótta flagginu hafi verið veifað í síðasta skipti þetta tímabilið, þá er sjaldan lognmolla í GTS Iceland. Í sumar tekur við undirbúningur fyrir næsta tímabil og er eitt og annað sem þarf að huga að.


Þriðja deildin?

Með sívaxandi áhuga og stækkandi keppendahóp, þá þarf að skoða það hvort komin sé grundvöllur fyrir þriðju deildina, Tier 3. Ekkert er ákveðið og þetta þarf að skoða vel bæði varðandi keppendafjölda og þá fyrirkomulag Tier 2 og 3.


Tier 1 tímatökur

Það komast færri að en vilja í Tier 1 deildina. Efstu 10 keppendur tímabilsins eru öruggir áfram ef þeir vilja halda áfram, og svo sigurvegarar Vetrar- og Vortímabils Tier 2. Þetta gera því 12 keppendur. Það á eftir að koma í ljós hvort keppendafjöldinn verði áfram 16 manns eða hvort hann verði lækkaður í 15 manns til að hafa laust pláss fyrir aðila til að streyma/lýsa keppnunum. Ákvörðun um það verður tekin síðar og allar upplýsingar varðandi tímatökuna munu birtast í umræðuhópnum okkar á Facebook, þannig endilega gangið í hann ef þið hafið hug á að keyra með okkur.


Keppnisdagatal og fyrirkomulag komandi tímabils

Þegar nær dregur hausti þarf að fara í að setja saman og skipuleggja keppnisdagatalið og ákveða fyrirkomulag og breytingar. Það verður þó ekki gert fyrr en allt fyrirkomulag er komið á hreint varðandi deildirnar, s.s. hvort þær verði áfram tvær eða hvort sú þriðja líti dagsins ljós.


Lokahóf og verðlaunaafhending

Keppendur hittast og skeggræða liðið tímabil og velta hugmyndum á milli sín varðandi næsta keppnistímabil. Hvað þarf að bæta og breyta o.s.frv.


Off-Season keppnir

Þó skipulögð dagskrá sé komin í sumarfrí, þá má vel vera að stöku keppni verði haldin hér og þar.


Endilega fylgist með okkur á samfélagsmiðlum, en það eru vefslóðir hér að neðan. Mesta virknin er í umræðuhópnum á Facebook, en ég mæli með að ganga í þann hóp til að fylgjast náið með því sem er að gerast hjá okkur, kynnast þessum frábæra hóp og vonandi keyra eitthvað með okkur í framtíðinni.


GTS Iceland þakkar öllum keppendum fyrir þáttökuna síðastliðna 9 mánuði, þetta er búið að vera algjörlega frábært tímabil. Einnig þökkum við Tasty og AutoCenter kærlega fyrir að styðja við bakið á okkur í gegnum tímabilið!


Við erum hér:

125 views0 comments

Comments


bottom of page