Það var spenna í loftinu á þriðjudags- og miðvikudagskvöldið, en loks hófst 2020-21 keppnistímabil GTS Iceland. Í fyrsta skipti keyrum við í þremur deildum og á tveimur keppnisdögum, en Tier 3 deildin kom partýinu af stað á þriðjudagskvöldinu. Kvöldið eftir tóku Tier 2 deildin við keflinu og Tier 1 tók svo lokasprettinn, en keppnin var sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 E-Sport.
Fleira dróg til tíðinda á lokasprettinum áður en tímabilið hófst, en í viðbót við okkar núverandi styrktaraðila, AutoCenter og Tasty, þá hefur nú Hafið Fiskverslun bæst í hópinn, en þeir munu veita verðlaun í hverri keppni Tier 1 deildarinnar fyrir hraðasta hring. Verðlaun sem eru í boði í GTS Iceland á 2020-21 keppnistímabilinu eru því eftirfarandi:
Verðlaun í TIER 1
Sigurvegari Keppni [Tasty] - Hamborgaramáltíð fyrir tvo
Hraðasti Hringur í Keppni [Hafið Fiskverslun] - 3.000kr gjafabréf hjá Hafinu Fiskverslun
1. Sæti á tímabilinu [AutoCenter] - Nano Ceramic meðferð fyrir fólksbíl eða jeppa - Bikar
2. Sæti á tímabilinu [AutoCenter] - Alþrif og mössun - Bikar
3. Sæti á tímabilinu [AutoCenter] - Alþrif og bón - Bikar
Flestir hröðustu hringir á tímabilinu [AutoCenter | Hafið] - Medalía (AutoCenter)
- Gjafabréf (Hafið)
Flestir ráspólar á tímabilinu [AutoCenter] - Medalía
Verðlaun í TIER 2
Sigurvegari Keppni [Tasty] - Hamborgaramáltíð fyrir tvo
1. Sæti á tímabilinu [AutoCenter] - Bikar
2. Sæti á tímabilinu [AutoCenter] - Bikar
3. Sæti á tímabilinu [AutoCenter] - Bikar
Allir keppendur
Keppendur allra deilda (Tier 1, Tier 2, Tier 3) fá forgang í tjónaviðgerðir hjá AutoCenter.
Við þökkum styrktaraðilum okkar öllum kærlega fyrir að styðja við bakið á mótaröðinni okkar!
En nú skulum við vinda okkur í keppnir vikunnar.
Tier 3
(Horfðu á keppnina HÉR)
Keppendur Tier 3 deildarinnar voru þess heiðurs aðnjótandi að flauta keppnistímabilið af stað. Tólf keppendur mættu til leiks í þessa fyrstu keppni Tier 3 deildarinnar og ef eitthvað er að marka þessa keppni, þá er mikil veisla framundan í deildinni!
Strax í tímatökum mátti sjá að það yrði hart barist, en innan við sekúnda munaði á milli efstu 5 manna. Það var hann Adélio Sousa sem náði ráspól með frábærum tíma, en Haraldur Rúnar (2. sæti) og Ingvar Rúnar (3. sæti) voru ekki langt undan.
Keppnin fór vel af stað og sluppu allir klakklaust í gegnum fyrsta hringinn. Adélio, Haraldur og Ingvar skildu sig strax örlítið frá hópnum, en fljótlega fóru Haraldur og Ingvar að berjast hart um 2. sætið og við það gat Adélio hlaupið í burtu. Hann náði að mynda nokkuð bil niður í næstu sæti og hélt forystunni til enda og nældi sér í fyrsta sigur keppnistímabilsins, í sinni fyrstu keppni í GTS Iceland. Einnig náði hann hraðasta hring. Þegar uppi var staðið þá þurfti Haraldur að sætta sig við að Ingvar hafði betur í slagnum um 2. sætið, en Haraldur engu síður sáttur með að enda á verðlaunapalli.
Illugi var hástökkvari keppninnar, en hann ræsti í 12. sæti úr tímatökum, en sló ekki feilslag alla keppnina og náði þannig að vinna sig upp jafnt og þétt alla keppnina og endaði í 7. sæti, 5 sætum ofar en hann ræsti. Hann sýndi það og sannaði í þessari keppni hversu mikilvægt það er að halda dampi og keyra öruggt.
Hér má sjá úrslit keppninnar ásamt stöðu í stigakeppni ökumanna:
Tier 2
(Horfðu á keppnina HÉR)
Kvöldið eftir var áframhaldandi kappakstur, en Tier 2 steig á svið kl. 20:00. Allir 14 keppendur deildarinnar voru mættir til leiks, en því miður þurfti Gunnar Karel frá að hverfa vegna internet vandamála. Gerðar voru tilraunir til að endurræsa en allt kom fyrir ekki og dagskráin þurfti að rúlla áfram, þannig Gunnar náði ekki að vera með í opnunarkeppni Tier 2 deildarinnar. Vonandi sjáum við hann í fullu fjöri að tveimur vikum liðnum í 2. umferð.
Tímatökurnar voru einstaklega jafnar og ég held það sé vel hægt að fullyrða að Tier 2 gæti orðið jafnasta deildin þetta árið. Ekki munaði nema 1 sekúndu á milli 1. og 10. sætis, og innan við hálfri sekúndu á milli 1. og 5. sætis, þannig það er alveg ljóst að hér er á ferðinni gífurlega sterkur og jafn hópur. Það var þó hann Ásgeir, liðsmaður og liðsstjóri keppnisliðsins SS Racing, sem hreppti ráspól. Birgir náði 2. sætinu og Óttar því þriðja.
Það urðu smá hræringar í upphafi keppninnar, en eftir að hafa ræst í 4. sæti, þá var Arnar fljótt kominn upp í 2. sætið. Hann reyndi að vinna upp bilið í Ásgeir, sem hafði strax náð að komast í þægilega stöðu í forystu, en allt kom fyrir ekki og Ásgeir, rétt eins og Adélio í Tier 3, sigldi örugglega í mark í 1. sæti, með hraðasta hringinn í farteskinu.
Endirinn á keppninni var í meira lagi dramatískur, en í síðustu beygju fór Arnar heldur vítt og út fyrir brautarmörk eftir að hafa verið að hringa annan ökumann. Leikurinn útdeildi honum 1.5 sekúnda tímarefsingu fyrir að hafa farið út fyrir brautarmörk í beygjunni og fyrir vikið endaði hann í 4. sæti, á eftir Óttari og Birgi. Virkilega svekkjandi endir fyrir Arnar. Þeir Ingi, bræður og liðsfélagar í Team TRB, voru að vonum svekktir eftir þessa atburðarás.
Allt stefndi í að Birgir myndi enda í 2. sæti, en bókstaflega á síðustu metrunum nær Óttar að þrusa Nissan GT-R-inum sínum framúr honum og tók 2. sætið, en munurinn var minna en hálfur hundraðasti hlutur úr sekúndu!
Hér sjáum við úrslit keppninnar, ásamt stöðu í stigakeppni ökumanna og liða:
Tier 1
Þá var komið að síðustu keppni umferðarinnar og nú var það efsta deild GTS Iceland sem lagði niður gúmmí á Red Bull Ring, Tier 1. Keppnin var sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2, en til stóð að streymi yrði einnig virkt á YouTube, en það því miður klikkaði. Það er þó hægt að horfa á keppnina í Tímaflakkinu í gegnum myndlykla, en einnig verður keppnin endursýnd á næstunni. Kíkið á dagskrá Stöð 2 hér. Keppnin mun þó verða aðgengileg á YouTube vonandi sem fyrst.
Tier 1 deildin er sterkari sem aldrei fyrr og sýndi það sig vel. Það var þó kunnuglegt andlit á ráspól, en það var hann Kári sem ræstu fremstur. Hann var þó langt frá því að vera öruggur með ráspólinn, því Hlynur Már var rétt á hælunum á honum og munaði ekki nema 0.003 sekúndum á tímum þeirra! Guffi náði 3. besta tímanum og var því keppnislið hans og Kára, G&K Racing, í kjörstöðu.
Keppnin fór af stað og byrjaði vel. Kári og Hlynur skildu sig fljótt frá restinni og hélst það þannig út keppnina. Lengi vel hélt Hlynur sig í kjölsoginu hjá Kára og nýtti það til að spara bensín. Þegar pit-glugginn opnaðist og Hlynur tók sitt þjónustuhlé, varð honum þó á í messunni. Hann tók of lítið bensín og þurfti því að að taka eitt stopp til viðbótar seinna í keppninni. Það var því klárt mál að til þess að eiga möguleika á sigrinum þá þyrfti hann að keyra eins og enginn væri morgundagurinn. Eftir seinna stoppið kom hann út á eftir Kára, en náði á endanum að taka forystuna og stóð uppi sem sigurvegari, og jafnframt með hraðasta hring keppninnar.
Síðasta þrepið á verðlaunapallinum fór til Jóns Ægis í BYKO Racing Team, en hann náði því af Þorsteini þegar sá síðarnefndi gerði mistök í þjónustuhléi og gleymdi að bæta á bensíni. Hann þurfti því að stoppa aftur og féll niður fyrir vikið. Halli úr Team AutoCenter hélt Jóni þó vel við efnið og var ekki langt undan, og skammt á eftir honum var Guffi.
Úrslitin voru þó ekki ráðin þó keppninni væri lokið, því kærumál setti strik í reikninginn. Atvik milli Halla og Hannesar snemma í keppninni var kært, og hlaut Halli 5 sekúndna tímarefsingu fyrir að valda árekstri og taka fyrir vikið ólöglega framúr. Þar sem Guffi og Þorsteinn voru báðir innan við 5 sekúndum frá, þá féll Halli fyrir vikið úr 4. sæti niður í það 6., og Guffi og Þorsteinn færðust upp í 4. og 5. sætið.
Hér eru úrslit og staða í stigakeppni ökumanna og liða:
Keppnisskapið er mikið og tímabilið fer svo sannarlega af stað með látum, enda deildin með eindæmum sterk í ár. Það skal enginn efa það að hart verði barist í hinum 16 keppnunum sem eftir eru á tímabilinu, þannig ekki missa af!
Vegna árekstra í dagskrá þá verða næstu tvær keppnir ekki í beinni útsendingu á Stöð 2 E-Sport, en þeim mun verða streymt í beinni á YouTube rás deildarinnar, en verða svo endursýndar á Stöð 2 E-Sport í kjölfarið.
Næstu keppnisdagar eru 22.-23. September og er keppnisbrautin Kyoto Driving Park - Yamagiwa. Tier 2 og Tier 3 munu keyra Gr.3 keppnisbíla, en Tier 1 deildin verður á Gr.2 (SuperGT) bílum.
Endilega fylgist með okkur á samfélagsmiðlum til að missa ekki af því sem koma skal.
コメント