top of page
  • Writer's pictureGTS Iceland

8. Umferð: Úrslit-Umfjöllun-Myndir

Síðastliðinn miðvikudag, þann 18. Desember, var keppnisdagur í GTS Iceland. Í boði AutoCenter og Tasty fór fram 8. umferð í Íslensku Mótaröðinni í Gran Turismo Sport! Þetta var síðasta keppni fyrir jólafrí, en rétt eins og flestir landsmenn, þá fer deildin í hátíðarfrí.


Keppnisbraut 8. umferðar var hin japanska Autopolis International Racing Course þar sem keppendur í Tier 2 deildinni keyrðu á Subaru WRX Gr.4, en keppendur Tier 1 á SuperGT bílum (Gr.2).


ATH: Myndaalbúm frá keppnunum eru neðst í færslunni.


Dagskráin var með kunnuglegu sniði, en það var Tier 2 sem fór fyrst af stað. Þetta var fámennasta Tier 2 keppnin hingað til, en aðeins fimm keppendur voru mættir þegar dagskrá kvöldsins hófst. Tveir nýir keppendur keyrðu þetta kvöld, þeir Gunnar (Leiftur--mcqueen) og Hlynur (MrPakkinn). Gunnar er alveg nýr og hefur takmarkaða reynslu að baki, en var áhugasamur að prófa að vera með. Það er alltaf gaman að sjá GTS Iceland fjölskylduna stækka, og við vonumst til þess að sjá Gunnar á braut í fleiri keppnum í framtíðinni.


Hlynur er nýr í Tier 2, en er langt frá því að vera nýr í GTS Iceland. Hann var í upphaflega hópnum þegar deildin hóf göngu sína snemma árið 2018 og er meðal hraðari ökumanna sem keyrt hafa í deildinni. Á fyrsta keppnistímabili var hann í titilbaráttu við Guffa (Guffaluff), þar sem hann hreppti 2. sæti. Eftir fína byrjun á öðru keppnistímabili, þá dró hann sig í hlé frá GTS Iceland. Nú hefur hann hins vegar ákveðið að snúa aftur og við bjóðum Hlyn kærlega velkominn aftur í deildina.


En þá að keppni kvöldsins. Þrátt fyrir fáa keppendur á ráslínu þá var hörku barátta mestalla keppnina. Hlynur setti tóninn og tók ráspól í tímatökum, 0.4 sekúndum á undan Þorsteini (rabufans). Þeir tveir áttu í harðri rimmu framan af og þrátt fyrir harða atlögu þá náði Þorsteinn ekki að taka framúr. Þeir tveir voru á mjög svipuðum hraða og að auki er Autopolis brautin erfið að eiga við þegar kemur að framúrakstri. Hlynur gerði svo mistök aðeins síðar í keppninni þar sem hann lenti á vegg og snerist, en það varð til þess að hann lenti þó nokkuð eftir á. Hann náði þó að vinna sig aftur upp í 2. sætið í lok keppninnar. Eftir þau mistök þá sigldi Þorsteinn nokkuð auðan sjó og tók sinn sjöunda sigur í átta keppnum, ásamt því að ná enn einum hraðasta hring í keppni og fær því Tasty verðlaunin. Tasty gefur þeim sem nær hraðasta hring í keppni gjafabréf upp á máltíð fyrir tvo hjá Tasty.


Óttar (TarriJohns) og Ásgeir (SkeiriGB) áttu góða baráttu líka, en þar hafði Óttar betur þegar hann læddi sér framúr Ásgeiri á síðasta hringnum. Óttar hafði stokkið í pittinn um miðja keppni og kom út á ferskum dekkjum, á meðan Ásgeir keyrði sama dekkjaganginn alla keppnina. Það varð til þess að í síðasta hring var Óttar kominn á afturstuðarann hjá Ásgeiri, og með mun meira grip, þá stal hann 2. sæti í síðustu beygjunum.


Það var því nóg um spennu og baráttu þrátt fyrir fámenna keppni. Keppninni var streymt og lýst í beinni útsendingu á YouTube rás GTS Iceland, en hægt er að sjá upptökuna HÉR.


Hér eru úrslit og staða leika í stigakeppninni að lokinni 8. umferð:



Eins og sjá má þá er Þorsteinn búinn að tryggja sér titilinn, en baráttan um 2.-5. sætið er gífurlega hörð. Það má því búast við mjög harðri og spennandi keppni í níundu og síðustu umferð vetrartímabils Tier 2, sem fer fram þann 15. janúar.


Tier 1 fór svo af stað síðar um kvöldið. 11 keppendur mættu til leiks og voru tímatökurnar virkilega jafnar. Það var Kári (KariS10_97) sem tók þó nokkuð afgerandi ráspól, 0.745 sekúndum á undan næsta manni. En aftur á móti var ekki nema ca. 1 sekúnda sem skildi að 2.-9. sætið á ráslínu, þannig það stefndi í góða keppni.


Kári sýndi fljótlega mikla yfirburði og það var enginn sem gat veitt honum samkeppni að ráði í þessari keppni, en hann rúllaði yfir endamarkið 48 sekúndum á eftir næsta manni. Hann náði fullkomnum úrslitum með ráspól, sigri og hraðasta hringi í keppni. Hann fer því í jólafrí með fullt hús stiga úr þessari keppni, og í efsta sæti í stigakeppni ökumanna. Einnig nældi hann sér í Tasty gjafabréf fyrir hraðasta hring, rétt eins og Þorsteinn í Tier 2.


Jón Valdimars (GT--iceman) sýndi sitt kunnulega takta í þessari keppni og tók 2. sætið, hans fyrsta Top 3 niðurstaða á tímabilinu. Jón var í baráttu um meistaratitilinn á síðasta keppnistímabili og var tíður gestur á þrepum verðlaunapallsins. Á núverandi tímabili hefur hann ekki náð alveg sama árangri, en hér var hann í fantaformi þar sem hann vann sig upp frá 7. sæti á ráslínu og fór því upp um 5 sæti í keppninni. Halli (halli000) tók svo 3. sætið og Jón Ægir (crackdup23) það fjórða. Hannes (Hanzo_GTs) var stóran hluta keppninnar í baráttu um efstu sætin, en þurfti að láta sér 6. sætið duga eftir að hafa lent í óheppilegu samstuði við liðsfélaga sinn hjá Yota-Hachi Racing Team.


Hér eru úrslit og staðan í stigakeppni Tier 1 að lokinni 8. umferð:




Hafa ber í huga að keppnistímabilið samanstendur af 19 keppnum, og af þeim þá gilda 15 bestu úrslit hvers og eins. Við erum ekki enn farin að sýna stöðuna að frádregnum fjórum verstu úrslitum hvers og eins, en munum gera það þegar lengra líður á tímabilið.


Nú tekur við tæplega mánaðarfrí, en 9. umferð fer fram þann 15. janúar á nýju ári. Árið verður byrjað af krafti, en fyrir Tier 1 þá verður það 2 klukkustunda þolaksturskeppni á Le Mans í Gr.1 bílum. 9. umferð verður eina keppnin í Tier 2 sem er ekki one-make og ekki keyrt á Gr.4 bílum, en að þessu sinni þá munu þeir keyra á Gr.3 bílum og verður frjálst bílaval. Einnig er þetta lokakeppnin á vetrartímabili Tier 2 þannig það verður virkilega gaman að sjá hvernig fer!


Eins og vanalega þá enda ég þessa færslu á að minna á GTS Iceland á samfélagsmiðlum og mæli með að fylgja okkur þar til að fylgjast með. Ef einhverjir eru áhugasamir á að fylgjast mjög náið með gangi mála og/eða jafnvel keyra eitthvað með hópnum, þá mæli ég með að ganga í umræðuhópinn okkar á Facebook.


Við erum hér:


Myndir frá actioni vikunnar:

105 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page