Nú er farið að líða á seinni part keppnistímabilsins hjá okkur í GTS Iceland, íslensku mótaröðinni í Gran Turismo Sport. Í næstu viku, miðvikudaginn 25. mars, fer fram 14. umferð af 19 í Tier 1 deildinni, og 5. umferð af 10 á Vortímabili Tier 2 deildarinnar. Sökum tímaskorts undirritaðs síðustu vikur hefur lítið sem ekkert verið fjallað um síðustu tvær umferðir hjá okkur hér á síðunni, en hér verður tekin smá yfirferð á þeim keppnum. Vefslóðir á myndaalbúm og myndbönd eru neðst í færslunni.
Áður en við förum af stað þá vildi ég þakka styrktaraðilum okkar, veitingastaðnum Tasty og bifreiðaþjónustuna AutoCenter, fyrir að styðja við bakið á GTS Iceland. Eins og hefur komið fram áður, þá veita Tasty verðlaun í báðum deildum fyrir hraðasta hring í hverri keppni, í formi máltíða. AutoCenter útvega verðlaunagripi fyrir báðar deildir sem verða afhentir á lokahófi deildarinnar í vor/sumar, sem og mjög vegleg verðlaun fyrir sæti 1-3 í Tier 1 í lok tímabils.
Tier 1 - 12. umferð, 26.02.20
En þá að máli málanna og við skulum byrja á Tier 1. 12. umferð fór fram á Brands Hatch GP brautinni í Bretlandi og keyrðu keppendur keppnisbíla í Gr.3 flokk leiksins, en sá flokkur samsvarar GT3/GTE í raunveruleikanum. Keyrðir voru 42 hringir. Fjórtán keppendur mættu til leiks að þessu sinni, en þeir Halli (halli000) og Sævar Helgi (saevarhelgi) gátu ekki verið með í þetta skiptið.
Það var Guffi (Guffaluff) sem náði ráspól í tímatökum, sínum þriðja á tímabilinu, en það er óhætt að segja að það hafi verið mjótt á mununum en sjaldan hafa tímatökur verið eins jafnar og í þessari keppni. Sem dæmi þá munaði ekki nema 0.075 sekúndum frá 1.-3. sætis, og frá 1.-11. sætis var innan við sekúndu munur. Það stefndi því í hörku keppni, sem varð raunin.
Efstu þrír í tímatökum, Guffi, Hannes (Hanzo_GTs) og Kári (KariS10_97) skildu sig fljótlega frá hópnum og voru í raun óaðskiljanlegir alla keppnina og munaði ekki nema tæplega 4 sekúndum á þeim þremur í lok keppni. Guffi náði að að halda aftur af þeim og nældi sér í sinn fyrsta sigur á tímabilinu, ásamt því að ná hraðasta hring og fara því frá keppninni með fullt hús stiga, en hraðasti hringur gefur 1 auka stig. Hannes rétt marði 2. sætið á beina kaflanum bókstaflega nokkrum metrum frá endamarkinu, en Kári varð bensínlaus á síðustu metrunum og rann í mark, sem varð til þess að Hannes náði að laumast fram úr. Hástökkvarar keppninnar voru þeir Sindri (Doxzie) og Kjartan (kjassi), en þeir fóru báðir upp um 4 sæti í keppninni. Tveir keppendur luku ekki keppni, þeir Kristinn Már (KMW90) og Ingimagn (Battle-monster19).
Hér má sjá heildarúrslit tímatöku og keppni 12. umferðar Tier 1:
Tier 1 - 13. umferð, 11.03.20
Tveimur vikum síðar fór 13. umferð fram, en keppnisbraut umferðarinnar var Fuji International Speedway í Japan. Keppendur keyrðu Gr.2 (SuperGT) keppnisbíla og keyrðu 38 hringi. Þrír keppendur náðu ekki að vera með í þessari keppni, þeir Bragi (Bragi_IS), Arnar Már (Addi_Smart) og Ingimagn, þannig að 13 keppendur mættu á braut.
Eftir að hafa lent í fyrsta skipti utan 1.-2. sætis á tímabilinu þá var Kári staðráðinn í að taka sigur á Fuji. Að eigin sögn þá er Gr.2 á Fuji blanda sem hann kann vel við og það sást vel. Í tímatökunum náði hann ráspól, þó ekki nema 0.094 sekúndum á undan Hannesi. Skúli (skuli1989) var í stuði og átti sína bestu tímatöku hingað til, en hann ræsti í 3. sæti. Aftur voru tímatökurnar gífurlega jafnar og ekki munaði nema 1.5 sekúndum frá toppnum og botninum, og innan við 1 sekúnda skildi að 1.-12. sæti.
Kári og Hannes skildu sig frá rest. Til að byrja með náði Hannes að halda í við Kára, en svo fór að teygjast úr bilinu á milli þeirra og Kári sigldi öruggur í mark í 1. sæti, u.þ.b. 15 sekúndum á undan Hannesi í 2. sætinu. Einnig átti Kári hraðasta hring og náði því fullu húsi stiga. Baráttan um sætin fyrir neðan, nánar tiltekið 3.-7. sæti, var mjög hörð og ekki munaði nema um 7 sekúndum á þessum sætum þegar keppni lauk. Það var að lokum hann Sindri sem hreppti 3. sætið. Þetta er í fyrsta skipti sem Sindri endar í Top 3, en eftir keppnina minntist hann á að það hefði verið hans helsta markmið á tímabilinu, að ná á verðlaunapall! Virkilega vel gert eftir að hafa ræst í 7. sæti, sem þýðir að hann fór upp um 4 sæti í keppninni, rétt eins og í 12. umferð, og hefur því unnið sig upp um samtals 8 sæti í síðustu tveimur keppnum.
Hástökkvari keppninnar var þó ekki Sindri að þessu sinni, heldur hann Halli. Andstætt við liðsfélaga sinn í Team AutoCenter, hann Skúla, þá átti Halli sína verstu tímatöku hingað til og ræsti næstsíðastur, í 12. sæti. Hann átti þó góða keppni og endaði í 7. sæti, 5 sætum ofar en hann ræsti, sem er virkilega vel gert.
Hér eru úrslit 13. umferðar Tier 1:
Nú skulum við skoða stöðuna í stigakeppni ökumanna og liða í Tier 1 að loknum 13 umferðum af 19:
Í þessum tölum erum við ennþá að draga frá tvær verstu keppnir hvers og eins, en í lok tímabilsins verða það 14 af 19 keppnum sem gilda til stiga, s.s. fjögur verstu úrslit hvers og eins verða dregin frá. Frá og með næstu umferð verða stigin birt með 4 verstu niðurstöðum frádregnum. En við skulum skoða aðeins stigatöfluna nánar og fara yfir hverjir eru að keppa við hverja!
1.-5. sæti: Kári - Hannes - Halli - Guffi - Jón Ægir Miðað við stöðu leika og hversu langt er liðið á tímabilið, þá er nokkuð óhætt að segja að baráttan um efstu þrjú sætin séu milli þeirra Kára, Hannesar og Halla, en líklegast er baráttan um titilinn sjálfan milli þeirra Kára og Hannesar. Það er alveg ljóst að Kári er í ansi þægilegri stöðu og það er heldur betur á brattann að sækja fyrir Hannes ef hann ætlar að ná að gera atlögu að titlinum. Halli hefur í síðustu keppnum aðeins misst dampinn, en eftir að hafa endað 4 af fyrstu 5 keppnum tímabilsins á verðlaunapalli hefur hann aðeins náð því einu sinni í síðustu 5 keppnum. Það vita allir að hann er með hraðann til að berjast um toppinn, en stigamunurinn upp í 1. sætið er orðinn ansi hár m.v. hversu stutt er eftir af tímabilinu. Hann gæti þó mögulega strítt Hannesi og gert atlögu að 2. sætinu, en við útilokum að sjálfsögðu ekkert ennþá.
Guffi og Jón Ægir eru nokkuð jafnir í slagnum um 4.-5. sætið en ekki skilja nema 11 stig þá að. Þeir tveir gætu jafnvel náð að blanda sér í baráttuna um 3. sætið ef vel gengur í síðustu keppnunum. Ef við skoðum síðustu 5 keppnir hjá Guffa, Jón Ægi og Halla, þá er tölfræðin svona:
Stig að meðaltali per keppni síðustu 5 keppnir:
Guffi: 16.8
Halli: 13.6
Jón: 11.2
Ef að þetta trend heldur áfram þá gæti Guffi átt raunhæfan möguleika á að blanda sér í baráttuna um 3. sætið. En þó Halli og Jón Ægir hafi ekki verið upp á sitt besta í síðustu keppnum, þá gæti það vel þýtt að þeir mæti einfaldlega fílefldir til leiks í síðustu keppnirnar.
6.-9. sæti: Jón Valdimars - Skúli - Kjartan - Sindri
Jón og Skúli eru nánast jafnir í 6. og 7. sætinu, en Jón er með 119 stig og Skúli 117. Kjartan er í 8. sætinu með 99 stig og svo Sindri með 91 stig í 9. sæti.
Ef við skoðum aftur stigatölfræði síðustu 5 keppna, þá gefur það ekki miklar vísbendingar um það hvernig þessi slagur mun fara. Skúli er að meðaltali að skora 9.6 stig í síðustu 5 keppnum á móti 10.6 stigum hjá Jóni V. Þeir eru báðir greinilega í svipuðu formi þessa dagana og það verður mjög fróðlegt að fylgjast með hvernig baráttan þróast.
Sindri hefur heldur betur spýtt í lófana, en í síðustu tveimur keppnum hefur hann landað 4. og 3. sæti og er á augabragði búinn að koma sér úr baráttunni um 10. sætið og gæti nú jafnvel farið að blanda sér í baráttuna hjá Jóni og Skúla ef hann heldur svona áfram. Kjartan er eflaust farinn að horfa ört í baksýnisspeglana og sjá Sindra stækka þar, þannig eitthvað segir mér að hann leggi nú allt í sölurnar til að halda sinni stöðu.
10.-11. sæti: Valdimar Örn - Kristinn Már
Baráttan um 10. sætið hefur ákveðna þýðingu í Tier 1, því efstu 10 keppendur í lok tímabils hafa áunnið sér öruggan keppnisrétt í Tier 1 á næsta tímabili, ef þeir svo kjósa. Það er því til mikils að vinna, því það er ákveðin léttir að vera með 100% tryggðan keppnisrétt og þurfa því ekki að treysta á að komast í gegnum Tier 1 pre-season tímatökurnar. Eins og staðan er núna þá er Valli í 10. sæti með 78 stig á móti 72 stigum hjá Kristni í 11. sætinu. Það er því klárt mál að hér verða engin silkihanskar settir upp heldur verður hart slegist!
12.-13. sæti: Bragi - Þorsteinn
Bragi hefur aðeins fallið niður upp á síðkastið, en fyrir ekki alllöngu síðan var hann í slagnum um 10. sætið. Þorsteinn er sigurvegari Vetrartímabils Tier 2 og er því nú þegar með öruggan keppnisrétt í Tier 1 á næsta tímabili. Hann kom þó inn í Tier 1 á núverandi tímabili eftir að Snorri þurfti að draga sig í hlé. Hann hóf því þáttöku sína í Tier 1 í 10. umferð. Hann hefur sýnt góða takta og er að skora vel af stigum. Miðað við síðustu keppnir þá verður að segjast að líkurnar liggi hans megin í þessum slag, en vissulega er þetta alveg galopið. Ef mjög vel gengur gæti hann jafnvel náð að blanda sér í baráttuna um 10.-11. sætið.
14.-16. sæti: Ingimagn - Arnar Már - Sævar Helgi
Eins og staðan er þegar þetta er skrifað, þá er Ingimagn í 15. sæti með 13 stig, Arnar Már í 16. sæti með 11 stig og Sævar Helgi í 18. sæti og er án stiga. Arnar og Ingimagn hafa báðir misst úr mörgum keppnum og/eða ekki lokið keppnum af ýmsum ástæðum. Sævar Helgi kom inn nýr úr Tier 2 á sama tíma og Þorsteinn eftir að Eyjó dró sig einnig í hlé. Hann hefur ekki alveg náð að finna sig ennþá og af þeim fjórum keppnum sem haldnar hafa verið síðan hann hóf keppni í Tier 1 þá hefur hann í tvígang ekki lokið keppni og svo misst af einni. Því miður endaði hann stigalaus í þeirri keppni sem hann lauk, en það eru ennþá 6 keppnir eftir og það skilur ekki mikið á milli þeirra þriggja, þannig hér er allt opið. Þeir þurfa þó aðeins að gefa í, því þeir vilja væntanlega reyna að ná upp fyrir Snorra, sem aðeins keyrði í 3 keppnum á tímabilinu, en hann situr í 14. sæti með 25 stig.
Athugið að þetta eru eingöngu pælingar undirritaðs og eru settar fram með fyrirvara. Það eru auðvitað 6 keppnir eftir og því nóg af stigum eftir í pottinum, en einnig þarf að hafa í huga að frá og með næstu keppni verða stigatölurnar birtar m.v. að draga fjórar verstu keppnir hvers og eins frá. Þá munum við sjá enn réttari mynd af stöðunni. Þetta sýnir þó gróflega hverjir eru að keppa við hverja í stigakeppninni í Tier 1.
14. umferð Tier 1 fer fram næstkomandi miðvikudag, 25. mars. Keyrt verður á Sardegna Road Track A á Gr.1 bílum. Gr.1 flokkurinn í leiknum samsvarar til efsta klassa WEC mótaraðarinnar, svokallaðra LMP1 bíla. Það verður því mikill hraði og enn meira fjör!
Tier 2 - 3. umferð Vortímabils, 26.02.20
Eins og vanalega þá fara Tier 2 keppnirnar fram á sama keppnisdegi og á sömu brautum og Tier 1, nema bara fyrr um kvöldið. 3. umferð fór því fram á Brands Hatch GP og var keppnisbíll umferðarinnar Renault Sport Mégane Trophy 2011.
8 keppendur mættu á braut að þessu sinni og þar á meðal einn nýr keppandi, hann Hafþór Ægir (vaffi88). Það var hún Eva sem endurtók leikinn frá 2. umferð og náði sér í ráspól. Ásgeir var í 2. sæti og Hlynur í því þriðja.
Eva fylgdi ráspólnum eftir með mjög öruggum sigri. Hún keyrði mistakalaust og náði enginn að ógna henni, en þetta var önnur keppnin í röð sem hún sigrar með u.þ.b. hálfrar mínútu forskoti á 2. sætið. Einnig náði hún hraðasta hring og fær því 1 stig til viðbótar. Eftir að hafa verið í fanta formi í fyrstu tveimur keppnunum, þá var Hlynur ekki alveg að finna sig á Brands Hatch og var óvanalega mistækur. Það endaði svo að hann hætti keppni og fór því stigalaus úr þessari umferð.
Síðasti hringurinn í þessari keppni var mjög tíðindamikill. Jónas Þór og Vilhjálmur voru að berjast ansi hart um 2. og 3. sætið. Ásgeir hafði dregist aðeins aftur úr eftir mistök og sat í 4. sætinu. Í lok síðasta hrings þá missir Jónas bílinn útaf sem verður til þess að Villi náði 2. sætinu, og Ásgeir, sem eflaust var búinn að sætta sig við 4. sætið, náði einnig framúr Jónasi og tók 3. sætið. Gífurlega svekkjandi fyrir Jónas, sem virtist ætla að næla sér í sín fyrstu Top 3 úrslit, en að sama skapi hefur eflaust hlakkað í Ásgeiri.
Hér eru úrslit 3. umferðar Vortímabils Tier 2:
Tier 2 - 4. umferð Vortímabils, 11.03.20
Fjórða umferð Vortímabilsins var sú fjölmennasta hingað til, en 10 keppendur mættu til leiks. Þar af voru tveir nýir keppendur að taka þátt í fyrsta skipti, þeir Jerzy Utratny (kazikson) og Daníel Rúnar (DanniV8). Keppt var á Fuji International Speedway og keyrt á GT4 speccuðum Lamborghini Huracán keppnisbíl.
Eva náði ráspól, þriðju umferðina í röð, en Hlynur var þó ekki mjög langt undan og ræsti í 2. sæti. Ásgeir landaði 3. besta tímanum í tímatökum.
Keppnin fór vel af stað og komust allir keppendur klakklaust í gegnum mjög krappa fyrstu beygju. Það varð strax ljóst að án alvarlegra mistaka, þá yrði baráttan um 1.-2. sætið á milli Evu og Hlyns, en þau hafa sýnt nokkra yfirburði á Vortímabilinu. Eva náði að halda aftur af Hlyn til að byrja með, en lét á endanum undan stanslausri pressu og gerði mistök sem urðu til þess að Hlynur tók forystuna. Hann lét hana ekki af hendi aftur í þessari keppni og sigldi í mark 10 sekúndum á undan Evu í 2. sæti. Einnig náði hann hraðasta hring og fór því með fullt hús stiga út úr þessari keppni. Villi tók 3. sætið og hefur því endað í Top 3 í þeim þremur keppnum sem hann hefur keyrt í á Vortímabilinu. Ásgeir var ekki langt undan, 2.5 sekúndum á eftir Villa og þurfti að sætta sig aftur við 4. sætið í þessari keppni.
Hér eru úrslit 4. umferðar Vortímabils Tier 2:
Þá skulum við kíkja á stigatöfluna að loknum 4 umferðum af 10 á vortímabilinu:
Það er heldur snemmt að fara að rýna mjög djúpt í stigin, enda aðeins 4 keppnir af 10 liðnar. Einnig munu í lok tímabilsins 8 keppnir af 10 gilda til stiga og því verða tvö verstu úrslit hvers og eins dregin frá heildarstigum. Frá og með 6. umferð munum við birta stigatöfluna með verstu tveimur keppnum frádregnum og fáum þá réttari mynd af stöðunni.
F1 Keppni GTS Iceland: Australian GP @ Bathurst
Eins og allir hafa fundið fyrir þá er COVID-19 að leika heimsbyggðina grátt þessa dagana. Ráðstafanir hafa verið gerðar og mikið verið um að hinum ýmsu viðburðum hafi verið aflýst eða frestað. Þar á meðal var keppnistímabilið í Formúlu 1, sem átti að hefjast helgina 13.-15. mars, sett á salt í óákveðinn tíma. Það kemur eflaust fáum á óvart að innan GTS Iceland leynast ansi margir F1 aðdáendur og var svekkelsið mikið yfir þessum tíðindum. Því tók GTS Iceland málin í sínar hendur og hélt sitt eigið Australian Grand Prix!
Þar sem Albert Park brautin í Ástralíu sem átti að keyra í fyrstu keppni F1 er ekki í Gran Turismo Sport, þá keyrðum við á annari ástralskri braut: Mount Panorama Motor Racing Circuit, betur þekkt sem Bathurst. Keppt var á Mercedes-AMG F1 W08, 2017 keppnisbíl Mercedes, en það er eini nútíma F1 bíllinn sem er í boði í leiknum.
11 keppendur mættu og keyrðir voru 35 hringir á fjallinu ógurlega á Bathurst. Það er óhætt að segja að það hafi verið mikið fjör og voru keppendur almennt mjög ánægðir með þessa keppni. Fyrir vikið eru áform um að halda fleiri F1 keppnir inn á milli þegar tækifæri gefast.
Hannes gerði sér lítið fyrir og vann keppnina eftir að hafa náð ráspól og endaði einnig með hraðasta hring. Eva landaði 2. sætinu og Guffi því þriðja. Þessi keppni var haldin sem stök "Off-Season" keppni og er ekki hluti af neinni mótaröð, heldur var fyrst og fremst haldin til gamans og til að fylla örlítið í F1 eyðuna þá helgina.
Nú höfum við farið svolítið í kjölinn á því sem gerst hefur síðustu tvær umferðir og því búin að "catch up" eftir skort á umfjöllun hér á síðunni upp á síðkastið. Við gerum okkar besta til að láta það ekki endurtaka sig!
Hér að neðan eru linkar á myndaalbúm frá öllum keppnunum sem við fjölluðum um hér að ofan, ásamt highlights myndbandi frá F1 keppninni og upptökum frá Tier 2 keppnunum. Einnig eru linkar á GTS Iceland samfélagsmiðasíður og ég hvet ykkur til að fylgjast með okkur þar til að hafa augun á því sem er að gerast. Ef þú hefur áhuga á að fylgjast mjög náið með, nú eða keyra eitthvað með hópnum, þá er Facebook Umræðuhópurinn rétti vettvangurinn fyrir það.
Sjáumst að lokinni næstu umferð!
Yorumlar