Íslenska mótaröðin í Gran Turismo Sport, GTS Iceland, í samstarfi við AutoCenter og Tasty, fór af stað með látum í gærkvöldi eftir sumarfrí, en þriðja keppnistímabil hófst með pompi og prakt í gærkvöldi. Tvær keppnir voru á dagskránni, báðar á keppnisbrautinni Dragon Trail - Seaside, sem er braut sem finnst ekki í raunheimum. Brautin er hugarsmíð Polyphony Digital, framleiðanda leiksins, og er staðsett í Króatíu. Linkur á myndaalbúm úr keppnunum er neðst í færslunni.
Ballið byrjaði kl. 20:00 með Tier 2. Tier 2 keppnirnar eru allar "One-Make", sem þýðir að allir keppendur keppa á samskonar bíl. Í þessari keppni keyrðu keppendur 17 hringi á Audi TT Cup '16.
10 keppendur voru á ráslínu en það var Þorsteinn Sveinsson (rabufans) sem fór með sigur af hólmi, en hann hann náði ráspól í tímatökum og keyrði nokkuð örugglega til sigurs. Þorsteinn er einnig handhafi Tasty verðlauna kvöldsins í Tier 2 fyrir hraðasta hring í keppni, og fær að launum ljúffenga máltíð fyrir tvo hjá Tasty, ásamt auka stigi í stigakeppninni. Hér má sjá úrslit tímatöku og keppni, ásamt stöðu leika í Tier 2 eftir fyrstu keppni:
Þá var komið að Tier 1, en þar spreyttu keppendur sig á Gr.3 keppnisbílum, en Gr.3 flokkurinn í Gran Turismo Sport svipar til GT3/GTE flokk í raunveruleikanum. Hver keppandi/lið hefur úr tveimur Gr.3 bílum að velja á tímabilinu. Toyota var mjög áberandi í gær, en GR Supra Racing Concept bíllinn er mjög vinsæll meðal keppenda.
16 keppendur eru skráðir í Tier 1 deildina, en tvo keppendur vantaði á ráslínu. Arnar Már gat ekki keppt í gær og Kári lenti í tæknilegum örðuleikum sem á endanum urðu til þess að hann þurfti að sitja hjá. Halli hjá Team AutoCenter var búinn að sýna mjög góða takta á æfingum og fylgdi því vel eftir í gær. Hann náði ráspól í tímatöku og keyrði til sigurs þannig hann hefði ekki getað beðið um betri útkomu. Hannes hjá Yota-Hachi Racing Team veitti honum mjög harða mótspyrnu og ekki munaði nema rúmlega 0.6 sekúndum á þeim þegar þeir kláruðu síðasta hring.
Halli var að vonum ánægður með árangurinn og hafði þetta að segja:
"Það er óhætt að segja að þetta hafi gengið mun betur en ég bjóst við. Planið var að ná topp 5 í tímatökum og reyna að forðast árekstur í keppni. Ætlaði að pitta 3 sinnum og keyra á soft dekkjum. Varaplan var að pitta 4 sinnum ef ég myndi lenda í hörðum slag, bara til að forðast lætin og enda ekki á vegg. En allt gekk upp. 1. Í tímatökum og 1. Í keppni er eitthvað sem ég bjóst ekki við en engu að síður virkilega gaman. Hannes pressaði mikið á mig, en þetta rétt hafðist.
Ég hef alltaf haft mjög gaman af mótorsporti og keppt í mörg ár í enduro og motocrossi. En eftir að hafa brotið á mér hnéið í fyrstu keppninni á þessu ári og sjá fram á að geta ekki keppt næstu 2 árin þá er alveg magnað hvað maður nær að sinna motorsport áhuganum með þessu. Team AutoCenter þakkar fyrir sig og við bíðum spenntir eftir næstu keppni."
Handhafi Tasty verðlauna kvöldsins í Tier 1, fyrir hraðasta hring í keppni er svo hann Hannes, og getur hann því nælt sér í burger máltíð fyrir tvo á Tasty!
Hér eru svo úrslit og staða leika eftir gærkvöldið:
Ef eitthvað er að marka þennan fyrsta keppnisdag, þá er alveg ljóst að næstu 9 mánuðir verða algjör veisla, bæði í Tier 1 og Tier 2. Samkeppnin hefur aldrei verið harðari og það er allt galopið.
Næsti keppnisdagur er miðvikudagskvöldið 25. september og verður keyrt á Suzuka.
Að venju hvet ég áhugasama að skella like á FB síðu GTS Iceland til að missa ekki af nýjustu fréttum, og ef einhverjir hafa áhuga á að fylgjast enn nánar með og/eða keyra eitthvað með hópnum, þá endilega gangið í Facebook umræðuhóp deildarinnar.
Comments