*01.09.19 ákvað Yota-Hachi Racing Team að sleppa Lexus í Gr.3 og nota AMG GT3 í staðinn. ---- Nú er ekki nema rúmur mánuður í fyrstu keppni á þriðja keppnistímabili GTS Iceland, en fyrsti keppnisdagur verður þann 11. september. Ein breyting sem átti sér stað fyrir tímabilið er að nú geta keppendur í Tier 1 parað sig saman í tveggja manna keppnislið og verða tekin saman stig ökumanna og keppnisliða. Það er þó ekki skylda að keyra í liðum en það á eftir að koma í ljós hversu margir geri það og hver liðin verða.
Hér á síðunni verða birtar kynningar á þeim liðum sem verða formuð í aðdraganda tímabilsins, en þegar þetta er skrifað hafa tvö lið verið formlega kynnt til leiks í Facebook umræðuhóp deildarinnar.
Í þessu innleggi verður fjallað um það lið sem tók á skarið og var fyrst liða til að kynna sig, en það er lið Valdimars og Hannesar, "Yota-Hachi Racing Team", en þeir munu keyra undir merkum Toyota á Íslandi.
Valdimar er liðsstjóri og læt ég hér fylgja kynningu hans á liðinu, sem og myndir af keppnisbílum þeirra (neðst í færslu).
---------
"Þegar við Hannes fórum fyrst að ræða saman um fyrirhugað keppnislið, hafði hann lesið um Toyota Sport 800, sem er fyrsti sportbíllinn frá Toyota, sem var í framleiðslu frá 1962 til 1969. Í Japan gekk þessi bíll undir gælunafninu: "Yota-Hachi" (ヨタハチ), sem er styttingin Toyota 8. Því fórum við okkar á milli að nota það nafn sem festist rækileg í sessi og ákváðum við að halda í það nafn. Skemmtileg þótti okkur svo að sjá Toyota Sport 800 koma í uppfærslu, okkur að óvörum.
Í framhaldinu hófum við viðræður við Toyota á Íslandi um að halda úti algjöru Toyota/Lexus liði og í framhaldi af því fengum við GO frá Toyota um að verða okkar bakhjarl. Rétt er að taka fram að ekki eru um neina greiðslur að ræða, heldur var stefna fyrst og fremst sett á jákvæða umfjöllun um okkur og deildina, sem verður vonandi til þess að fleiri og fleiri taka eftir okkur og að GTS Iceland og keppendur þar fái í framtíðinni betri auglýsingar og styrktaraðila jafnvel í kjölfarið.
Liðið okkar stendur af eftirfarandi bílum:
Super-Formula: Dallara SF19 Super Formula / Toyota
Gr.1: Toyota TS050 - Hybrid (Toyota Gazoo Racing)
Gr.2: Lexus au TOM’S RC F
Gr.3: Lexus RC F GT3 (Emil Frey Racing)
Gr.3: Toyota GR Supra Racing Concept
Ökumenn:
1. Hannes Jóhannsson bíll #21
2. Valdimar Örn Matt bíll #22
Ég er gríðarlega ánægður með liðið okkar, það var mikill fengur að fá Hannes með, gríðarlega hraður, teknískur og útsjónarsamur ökumaður og ég veit að hann á eftir að gera harða atlögu að Meistaratitlinum, og ég má svo halda vel á spöðunum svo við blöndum okkur í liðabaráttuna. Þetta verður frábært timabil.
Fyrir hönd Yota-Hachi Racing Team.
Valdimar Örn, liðstjóri."
---------
Það er klárt mál að þeir félagar hjá Yota-Hachi Racing Team verða harðir í horn að taka á komandi tímabili!
Fleiri liðskynningar koma hér inn á næstunni, þannig fylgist með hér, sem og á Facebook Page deildarinnar.
Comments