top of page
Writer's pictureGTS Iceland

Tvö ný keppnislið kynnt til leiks

Nú er innan við mánuður í að 2020-21 keppnistímabilið hefjist, en fyrstu keppnisdagar eru 8. og 9. september næstkomandi. Keppendur í Tier 1 og Tier 2 hafa verið, og eru enn, í óðaönn við bílaprófanir til að finna sér sína keppnisbíla fyrir tímabilið. Báðar deildir eru með læst bílaval og bjóða einnig upp á að keyra saman í tveggja manna liðum, en þá þurfa báðir ökumenn að keyra sömu bíla.


Á dögunum komu fram tvær nýjar liðskynningar, ein úr Tier 2 og önnur úr Tier 1. Við skulum kíkja á liðaskipan.


BYKO Racing Team (Tier 1)

Jón Ægir Baldursson (crackdup23) er einn af reynslumestu ökumönnum GTS Iceland, en hann er með 36 keppnir í Tier 1 að baki. Hann hefur jafnan keyrt á bílum merktum BYKO, en hingað til keyrt einn síns liðs. Nú eru breyttir tímar þar sem hann hefur nælt sér í firnasterkan liðsfélaga, nafna sinn Jón Valdimarsson (GT--iceman).


Jón Valdimars er einnig mjög reynslumikill ökumaður og hefur keyrt í 35 keppnum í Tier 1, en bæði hann og Jón Ægir komu inn í GTS Iceland á fyrsta keppnistímabili þegar mótaröðin hófst árið 2018. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og má gjarnan finna þá félaga einhverstaðar í efstu sætum, en þeir til samans eiga að baki 7 sigra, 20 keppnir á verðlaunapalli, 7 ráspóla og 6 hröðustu hringi í keppni.


Keppnisbílar þeirra eru:

  • Gr.3 flokkur: Porsche 911 RSR 2017

  • Gr.2 flokkur: Nissan M0tul Autech GT-R 2016

  • Gr.1 flokkur: Porsche 919 Hybrid 2016

  • Super Formula: Dallara SF19 Super Formula / Toyota

Porsche 919 Hybrid (vinstri) | Porsche 911 RSR (hægri)
Nissan M0tul Autech GT-R
Dallara SF19 Super Formula / Toyota

Jón Ægir mun keyra bíla #23, en Jón Valdimars #7. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta er mjög óárennilegt keppnislið og engin spurning að þeir félagar munu gera atlögu að titli ökumanns og liðs á komandi tímabili. Við óskum þeim til lukku með nýskipað lið og góðs gengis í haust.


Team AutoCenter (Tier 2)

Team AutoCenter var keppnislið í Tier 1 í fyrra og samanstóð af þeim Halla (halli000) og Skúla (skuli1989), en þeir voru einnig með fulltrúa frá sér í Tier 2 deildinn: Ásgeir Snorrason (SkeiriGB). Með tilkomu keppnisliða í Tier 2 deildinni ákvað Ásgeir að leita á miðin og hefur fengið öflugan liðsfélaga með sér í lið, hann Sævar Má Árnason (saevar_mar).


Ásgeir og Sævar komu báðir inn í GTS Iceland í upphafi síðasta keppnistímabils þegar Tier 2 deildin var sett af stað og keyrðu báðir á Vetrar- og Vortímabilinu. Þeir enduðu báðir í Top 5 á báðum tímabilum, en Ásgeir endaði í 3. sæti á Vetrartímabilinu og 4. sæti á Vortímabili, meðan Sævar endaði í 5. sæti á báðum tímabilum.


Þeir tveir munu nú sameina krafta sína og keppa undir flaggi AutoCenter. Keppnisbíllinn sem varð fyrir valinu er hinn sívinsæli Mercedes-Benz AMG GT3 2016:

Þeir eru laglegir á að líta, AMG keppnisbílar þeirra félaga, og að sjálfsögðu merktir AutoCenter hátt og lágt.


Þetta er annað keppnisliðið sem er tilkynnt í Tier 2, en bræðurnir Ingi og Arnar kynntu sitt lið til leiks fyrir skömmu. Vonandi sjáum við fleiri lið skjóta niður rótum í aðdraganda tímabilsins, en það er ennþá tími til stefnu til að finna sér liðsfélaga og velja bíl. Við munum að sjálfsögðu færa ykkur fréttir af því þegar að því kemur.


Gangi ykkur vel í haust strákar, við hlökkum til að fylgjast með!


Við erum hér:

120 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page