Það er ekki lognmolla í off-seasoninu hjá okkur í GTS Iceland, en þessa dagana eru nánast ný tíðindi á degi hverjum! Í þetta sinn eru þrjú atriði á dagskrá.
Fyrsta liðskynning Tier 2 deildarinnar
Ein nýjungin í Tier 2 á komandi keppnistímabili, er að nú geta keppendur, rétt eins og í Tier 1, parað sig upp í 2 manna lið og keppst um sigur í stigakeppni liða. Fyrsta liðskynningin leit dagsins ljós í dag, en það eru bræðurnir Ingi Þór (MosiRacing) og Arnar (Atry_71) sem hafa ákveðið að keyra saman undir liðsnafninu "Team TBR - Two Racing Bros". Keppnisbíll þeirra mun vera Mercedes-Benz AMG GT3 2016.
Ingi setti inn kynningu í Facebook Umræðuhóp deildarinnar í dag, og hljóðaði hún svona:
"Bræðurnir Arnar Tryggvason #71 & Ingi Þór Tryggvason, a.k.a. Mosi #76, munu snúa bökum saman og berjast undir merkjum TEAM TRB sem stendur fyrir “Two Racing Bros” á næsta Tier 2 tímabili.
Báðir ökumenn komu sem ferskir nýliðar inn á síðasta vortímabili í Tier 2. Mosi keppti í fjórum keppnum og endaði 9. sæti á meðan Arnar keppti í þrem keppnum og náði 11. sæti til stiga.
TEAM TRB ætlar ekkert að gefa eftir á komandi keppnistímabili í Tier 2 og stefnir á topp baráttu, en ef marka má tímatökur fyrir tímabilið þar sem aðeins sekúndubrot skildu að efstu keppendur stefnir í hörku baráttu í flokknum og skemmtilegt ár.
TEAM TRB mun keppa á Daimler Mercedes AMG Gr.3. Helstu styrktaraðilar TRB eru: mosimusic.com // arnartr.com B.e. Húsbyggingar // GTSI // Tasty // AutoCenter"

Í Tier 2 tímatökunum sem fóru fram á dögunum enduðu Arnar og Ingi með 2. og 3. besta tímann þar og eru því alveg líklegir til að verða harðir í horn að taka í Tier 2 deildinni þegar fjörið hefst í haust.
Það er gaman að því að þetta er í annað skipti sem keppnislið í GTS Iceland er skipað af bræðrum, en á síðasta tímabili í Tier 1 voru bræðurnir Guffi (Guffaluff) og Snorri (Pulsuhundur) saman í liðinu "Brothers in Arms Racing Team". Liðið entist að vísu ekki lengi þar sem það leystist óvænt upp snemma á tímabilinu þegar Snorri ákvað að leggja stýrið á hilluna.
Við vonumst að sjálfsögðu til þess að sjá Team TBR lifa lengur og óskum þeim góðs gengis í haust!
Eva dregur sig í hlé, Eyjó kemur inn
Önnur tíðindi dagsins eru að Eva María (Eva--Supergirl) tók þá ákvörðun að draga sig í hlé og gaf laust sæti sitt í Tier 1 deildinni. Það er óhætt að segja að þessar fréttir komu keppendum í opna skjöldu, en líklega hefur enginn átt von á þessu. Eva og Hlynur voru búin að para sig saman í keppnisliðið "Flash & Supergirl", en nú er ljóst að Hlynur er án liðsfélaga, eftir því sem við best vitum.
Sagan segir að Eva stefni á endurkomu fyrir 2021-22 keppnistímabilið, en þá verður deildin uppfærð í PlayStation 5 og Gran Turismo 7!
Við þökkum Evu fyrir aksturinn að sinni, en vonumst til að sjá hana aftur á braut þegar fram líða stundir.
Til að fylla í skarðið var leitað í niðurstöður tímatöku Tier 1 sem fór fram nýlega. Dimmi Nikolov (Honda_S2000_) var næsti maður inn úr tímatökunni, en hann þurfti að afþakka plássið þar sem hann er ekki laus á þeim tímum sem keyrt er, og fellur því plássið í hendur Eyjó (EyjoJons). Eyjó er vel kunnugur innan hópsins, en hann er einn af stofnmeðlimum GTS Iceland. Við bjóðum Eyjó velkominn aftur í Tier 1!
Hulk Racing fullmannað
Að lokum eru fréttir af Hulk Racing, keppnisliði Sindra sem hann kynnti til leiks á dögunum, en liðið er nú fullmannað. Í kjölfar þess að Eyjó kom inn í Tier 1 þá var Sindri ekki lengi að draga hann með sér í Hulk Racing og munu þeir félagar keyra sem liðsfélagar þegar deildin fer af stað í september!
Nú eru því tvö lið komin á hreint í Tier 1, Hulk Racing og Toyota Gazoo Racing Iceland og við bíðum spennt eftir að frétta af fleiri keppnisliðum.
Við munum færa ykkur áframhaldandi fréttir af því eftir því sem þær berast, þannig endilega fylgist með!
Comments